Með þjóðtrúna í vasanum

Skrifað af:

Guðbjörg Guðmundsdóttir

Galdraskræður og Anna Björg með tilbera
Galdraskræður og Anna Björg með tilbera á Galdrasýningunni á Ströndum. Mynd: Galdrasyning.is

Nú geta allir lesið sér til um íslenska galdra og þjóðtrú í snjallsímanum. Galdrasýningin á Ströndum hefur endurgert vef sinn og þar með mikið magn efnis sem safnað var saman af sagnfræðingum og þjóðfræðingum um brennuöldina, sögur um galdra, annála og aðferðir við að galdra sem notaðar voru. Þessar aðferðir birtast meðal annars í leiðbeiningum um notkun jurta, steina og að sjálfsögðu galdrastafa og er að finna undir efnisflokkinum Viskubrunnur.

Anna Björg Þórarinsdóttir er framkvæmdastjóri sýningarinnar: „Við höfum notað tímann meðan kórónufaraldurinn stendur yfir til að gera endurbætur á húsnæðinu og gert nýja útgáfu af vefnum okkar. Hann er núna líka sniðinn fyrir snjalltæki þannig að þú getur verið með galdrana í vasanum.“

Hún segir lestur annála frá 16. og 17. öld vera ótrúlega fróðlegan. Þeir lýsi ytri aðstæðum og hugarheimi sem er gjörólíkur okkar. „Þar eru hlið við hlið setningar sem lýsa praktískum hlutum eins og veðri og svo kemur allt í einu lýsing á draugi. Þessu var jafnað saman, eitthvað sem við eigum ekki að venjast í dag.“ 

Galdrasýning vefsíða
Af nýjum vef Galdrasýningarinnar á Ströndum.

Sumar aðferðir eru einfaldlega það sem við myndum í dag kalla náttúrulækningar. Anna segir tilganginn með því að gefa út efnið ekki vera þann að fá fleiri til að iðka galdra, heldur að veita landsmönnum innsýn í það hvernig forfeður okkar reyndu að hafa stjórn á umhverfi sínu og örlögum. „Þetta var fólk sem hafði ekkert, enga menntun, ekkert öryggi og átti allt sitt undir búfénaði, veðri og öðrum í sveitinni.“

Hún segir það sérstaklega magnað að geta ferðast um Strandir og lesið sér til um þjóðsögur og menningararf svæðisins um leið. Þetta sé nú möguleiki enda upplýsingarnar orðnar handhægar og aðgengilegri en áður. Stærstur hluti efnisins er þýddur yfir á ensku en erlendir gestir eru nú um 70% þeirra sem sækja sýninguna. „Sumum finnast íslenskir galdrar ógnvænlegir en sumum fyndnir, en flestum í það minnsta áhugaverðir. Sérstaklega nábrækurnar!“

Hvað eru galdrastafir?

Það er erfitt er að fullyrða nokkuð um hvaða fræði liggja að baki galdrastöfum. Sumir virðast eiga rætur að rekja til dulspeki miðalda og fornfræði endurreisnarmanna, en aðrir bera með sér tengsl við Ásatrú og heiðna rúnmenningu. „Þessar aðferðir voru notaðar löngu eftir að við urðum kristin. Heimildirnar um þá eru í handritum sem eru flest frá fyrri hluta 19. aldar. Við vitum að þeir voru notaðir mikið á 17. öld og blandast þá kristninni, til dæmis bænum.“

Galdrakarlar – ekki nornir

Eins og mörgum er kunnugt voru karlmenn í meirihluta þeirra sem voru brenndir á Íslandi á 17. öld fyrir galdra. Íslenska galdrafárið var ólíkt því sem við þekkjum frá Evrópu þar sem gríðarlegur fjöldi kvenna var tekinn af lífi. Í Viskubrunni Galdrasýningarinnar á vefnum, rétt eins og á sýningunni á Hólmavík, er hægt að rekja sögu brennualdarinnar, hver fórnarlömb hennar voru og fyrir hvaða sakir þau voru tekin af lífi.

Hér má skoða nýjan vef Galdrasýningarinnar á Ströndum.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið

Nýjast

Útsýnið frá Malarhorni er einstakt: þar sést perla fjarðarins, Grímsey. Þaðan er hægt að fara í eyjuna, skoða lunda og fara á sjóstöng.
Nábrókin er smáhátíð sem haldin er um verslunarmannahelgina í Trékyllisvík í Árneshreppi. Mýrarbolti og fjárhústónleikar.
Kaldalónstónleikar og útgáfuhóf bókarinnar Minningarrit um Jón Hallfreð Ingvarsson verður í Dalbæ á Snæfjallaströnd um verslunarmannahelgina.
Starfsfólk Strandabyggðar er nú margt komið í sumarfrí eins og margur landinn. Hér er hægt að sjá sumarlokanir stofnana sveitarfélagsins.
Í gær voru veittar auknar strandveiðiheimildir sem þýðir að tryggt er að kvótinn klárist ekki á tímabilinu en sumarið hefur verið ótíðasamt.
Sögurölt safnanna í Dölum og á Ströndum halda áfram. Á fimmtudag kl. 20, verður rölt um Tungugröf á Ströndum. Öll eru hjartanlega velkomin.

Aðrar fréttir

Strandir.is er fyrst og fremst vefur alls Strandafólks en einnig fyrir ferðafólk og aðra velunnara sem upplýsinga- og fréttamiðill.
Jón Geir Ásgeirsson, skipstjóri Strandferða segir að sumarið líti vel út og að nú þegar sé talsvert búið að bóka ferðir hjá þeim.
Kyrrðarkraftur er nýtt endurhleðslusetur á Hólmavík fyrir fólk sem vill byggja sig upp og temja sér jákvætt hegðunarmunstur.
Nú um páskana hefjast framkvæmdir að nýju við Krossneslaug í Árneshreppi en verið er að stórbæta aðstöðu við laugina.
Scroll Up