Kyrrðarkraftur: Nýtt fyrirtæki á Ströndum

Skrifað af:

Ritstjórn

Hildur Dagbjört, Esther Ösp og Anna Björg, skipuleggjendur og kennarar Kyrrðarkrafts. Mynd: Jón Jónsson.

Kyrrðarkraftur er nýtt endurhleðslusetur á Hólmavík fyrir fólk sem vill byggja sig upp og temja sér jákvætt hegðunarmunstur. Esther Ösp Valdimarsdóttir er stofnandi Kyrrðarkrafts ásamt því að vera einn af kennurum setursins. 

Esther Ösp er mannfræðingur, jógakennari, tómstundafulltrúi og kennari. Hún hefur lengi unnið með fólki á fjölbreyttan hátt og hefur oft rekist á að fólk vanti að taka sér tíma og rými fyrir sig og gefa sér tækifæri til að horfa á líf sitt, átta sig á hvað það er sem gefur lífi þeirra gildi og hvað það brennur fyrir. „Við eigum það svolítið til að vaða áfram í einhverjum straumi í staðinn fyrir að taka smá pásu og finna flæðið okkar og átta okkur á hvað veitir okkur lífsfyllingu og hvað við raunverulega viljum setja orkuna okkar í.“

Endurhleðsla með kennslufræðilegri nálgun

Esther Ösp hefur unnið í tómstundarstarfi síðan hún var sjálf unglingur og er vön fjölbreyttu skipulagi og ólíkum nálgunum til að ná fram mismunandi markmiðum. Hún segist fyrst og fremst koma að kennslunni sem jógakennari og að þau séu með ákveðna kennslufræðilega nálgun á námskeiðunum. „Við erum ekki með fyrirlestra eða PowerPoint og erum ekki að reyna að komast hratt yfir afmarkað efni heldur miklu frekar að reyna finnna lífsneistann og orkuna innra með fólkinu og kveikja kannski einhverjar gamlar áhugaglæður og leyfa fólki að fara á flug að vinna að einhverjum verkefnum sem það brennur fyrir.“

Myndmerki Kyrrðarkrafts er eftir Hildi Dagbjörtu Arnardóttur.

Námskeið Kyrrðarkrafts er hugsað fyrir öll þau sem vilja endurskoða markmiðin í lífi sínu og taka smá pásu frá streitu og stressi og hlaða batteríin segir Esther Ösp. „Dagarnir byggjast allir eins upp að því leyti að við borðum alltaf saman hollan og góðan morgunmat, stundum jóga, hugleiðslu og útivist. Við vinnum með dagbókarvinnu ýmisskonar og svo komum við saman að því að undirbúa hádegismatinn og borðum hann. Það er mikið lagt upp úr heilbrigðu mataræði og raunverulega að læra að búa til matinn sem við viljum síðan halda áfram að borða.“

Tvisvar sinnum í viku er gestakennari með fræðslu eftir hádegi en hina tvo dagana er fólk að vinna að sínum áhugasviðsverkefnum. „Þá á fólk að velja eitthvað sem það brennur fyrir hvort sem það er að ganga á fjöll, skrifa í bók eða taka með sér vinnuna sína ef að staðan er þannig, mála málverk eða hvað sem hugurinn girnist í raun og veru.“ Esther Ösp segir Strandir kjörinn stað fyrir endurhleðslusetur eins og Kyrrðarkraft. Strandir séu í hæfilegri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, aðeins of langt til þess að fólk sé að keyra fram og til baka á hverjum degi, aftur í stressið, en nógu stutt til þess að það sé auðvelt og aðgengilegt að koma þangað. Hún segir galdraorku Stranda og náttúrufegurð spila hlutverk. „Ekki hvað síst eru þetta galdrarnir, þetta eru auðvitað bara nútímagaldrar að vinna með hugarorkuna og hugvitið og heilbrigðan lífstíl og það er gaman að tengjast því hérna í dásamlegri náttúrufegurð og hér er auðvelt að komast í tæri við krafta umhverfisins og líka ró og frið um leið og það er líka lifandi mannlíf.

Það er auðvelt að komast í tæri við krafta umhverfisins á Ströndum segir Esther.
Mynd: Esther Ösp Valdimarsdóttir.

Markmiðið að skapa ný störf

Aðspurð um hversu mörg störf Kyrrðarkraftur komi til með að skapa fyrir svæðið segir Esther Ösp ekki ólíklegt að tvö stöðugildi geti orðið til með tímanum og að starf framkvæmdastjóra verði auglýst bráðlega. Einnig séu gestakennarar ráðnir fyrir hvert námskeið. „Markmiðin með verkefninu eru auðvitað að skapa ný störf á svæðinu og koma einhverju nýju af stað.“

Stefnt er að því að fyrsta námskeið Kyrrðarkrafts hefjist í vor, ef aðstæður í samfélaginu leyfa. Um er að ræða sex vikna heildstætt námskeið þar sem unnið er markvisst með eitt þema í hverri viku. Þemun eru endurnæring, orka náttúrunnar, betri svefn, finna lífsneistann, betri samskipti og framtíð. Hægt er að skrá sig á einstakar vikur eða allar sex allt eftir því sem hentar hverjum og einum. 

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Kyrrðarkrafts www.kyrrdarkraftur.is 

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.
Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Skúla Gautason.

Aðrar fréttir

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.