Krefja sveitarstjórn Strandabyggðar um svör

Skrifað af:

Aðsent

Kría. Mynd: Silja Ástudóttir

Í dag var fyrsti sveitarstjórnarfundur nýkjörinnar sveitarstjórnar Strandabyggðar, þar var Þorgeir Pálsson kosinn oddviti. Fráfarandi sveitarstjórn Strandabyggðar hefur sent erindi til nýju sveitarstjórnarinnar þar sem þau krefjast svara frá nýkjörnum oddvita og hans lista um þær ásakanir sem hann hefur borið á sveitarstjórnina fyrrverandi. Erindið var einnig sent sem opið bréf á fjölmiðla og er birt hér í heild fyrir neðan.

Efni: Krafa um svör frá sveitarstjórn Strandabyggðar

Við undirrituð, fimm íbúar í Strandabyggð og fyrrverandi sveitarstjórnarfólk á kjörtímabilinu 2018-2022, vorum kosin í sveitarstjórn 2018 í persónukjöri, ýmist sem aðal- eða varamenn. Öll sátum við í sveitarstjórninni, ýmist allt kjörtímabilið eða hluta þess. Síðasta árið sátum við fimm samfleytt í sveitarstjórninni og engir varamenn voru til taks.

Í persónukjöri eins og var 2018 er ekki kosið á milli lista, heldur gat fólk valið þá einstaklinga sem það treysti til að starfa vel, af heilindum og í þágu samfélagsins, úr hópi allra íbúa sveitarfélagsins. Þannig var ekki um það að ræða að fólk væri búið að sameinast um skoðanir og stefnu, eins og tíðkast þegar listar eru í framboði. Þegar sveitarstjórn er valin í persónukjöri má telja líklegt að fólk sem er áberandi í atvinnustarfsemi, nýsköpun, menningarlífi eða félagsstörfum, sé kosið til þessara verkefna af sveitungum sínum. Þetta virðist eiga vel við í okkar tilviki. Þetta þýðir að við erum flest með margvísleg tengsl í samfélaginu og þurfum því að vanda okkur verulega þegar kemur að ákvörðunum sem snerta okkur sjálf með einhverjum hætti, fylgja lögum og reglum.

Við teljum að við höfum gert okkar besta og unnið í þágu samfélagsins alls af heilum hug við erfiðar aðstæður. Við vorum samstíga og sammála um nokkur lykilatriði. Reyndum eins og við gátum að horfa á heildarmyndina, hvað varðar hagsmuni svæðisins, og tókumst á við erfiða fjárhagsstöðu og sársaukafulla hagræðingu. Unnum eftir megni að því að færa mál til betri vegar, styðja við atvinnuþróun og nýsköpun, halda uppi þjónustustigi og unnum að mörgum framfaramálum með kraftmiklu starfsfólki sveitarfélagsins, m.a. því að þróa áfram öflugt og gott skólastarf í sveitarfélaginu. Öll teljum við mikilvægt að sveitarfélagið leitist við að eiga viðskipti við fyrirtæki í heimabyggð og styðji af fremsta megni við menningarlíf og félagsstarf á svæðinu sem er að mörgu leyti til fyrirmyndar á landsvísu. Sama á við um skólastarfið sem við erum virkilega stolt af. Ímynd svæðisins, sjálfsmynd íbúa og stemmningin í samfélaginu skiptir líka verulegu máli og við höfum reynt að stuðla að því að efla þessa þætti, frekar en veikja. 

Eftir sem áður erum við fimm einstaklingar, hvert með sínar skoðanir á margvíslegum málum. Hitt eigum við svo öll sameiginlegt nú í lok kjörtímabils, að við göngum löskuð frá borði, við höfum setið undir ásökunum, dylgjum og rógburði. Vegið hefur verið með þeim hætti að mannorði okkar og æru, að ekki verður við unað. Við krefjumst nánari skýringa.

Nýkjörinn oddviti Strandabyggðar og leiðtogi T-listans í sveitarstjórn hefur sagt opinberlega og ítrekað að við höfum tekið ákvarðanir sem „stangast á við sveitarstjórnarlög, samþykktir Strandabyggðar og siðareglur Strandabyggðar“. Einnig hefur hann talað um „sérhagsmunagæslu sveitarstjórnarfulltrúa og varamanna“ og greint frá „óheppilegum og óæskilegum tengingum þeirra við styrkúthlutanir og aðra ráðstöfun fjármagns eða eigna sveitarfélagsins.“ Sérstaklega hefur hann í þessu sambandi nefnt „alls kyns styrkúthlutanir til safna og fyrirtækja sem tengjast sveitarstjórnarfulltrúunum.“ Eins hefur nýkjörinn oddviti borið fram ásakanir um að við höfum tekið ónefndar eignir sveitarfélagsins traustataki og tekið „ákvörðun um að gefa þær einstaklingum sem tengjast fulltrúum í sveitarstjórn beint“.

Þarna koma fram ásakanir í okkar garð um brot á samþykktum, reglum og lögum. Einnig eru þarna settar fram ásakanir um sérhagsmunagæslu, fjárdrátt úr sveitarsjóði til stofnana og fyrirtækja í okkar eigu, auk þess sem því er haldið fram að við höfum stolið ótilgreindum eignum sveitarfélagsins til að gefa ónafngreindum einstaklingum. Við verðum að fá að tækifæri til að hreinsa okkur af þessum ásökunum.

Til þess að geta það, þurfum við að fá að vita nákvæmlega hvað átt er við. Þess vegna krefjumst við þess, að fá frá sveitarstjórn Strandabyggðar yfirlit um í hvaða tilvikum hvert og eitt okkar, sundurliðað eftir þeim einstaklingum sem skrifa undir þetta erindi, hefur gerst brotlegt um þessi atriði á því kjörtímabili sem nú er liðið, á árunum 2018-2022. Við viljum fá skýr og skilmerkileg svör um með hvaða hætti hvert og eitt okkar hefur komið fjármunum sveitarsjóðs til okkar sjálfra, fjölskyldna okkar, félaga og stofnana sem við stýrum og fyrirtækja sem eru í okkar eigu. Við viljum að hvert tilvik verði tilgreint nákvæmlega, útskýrt verði hvaða lög og reglur hafa verið brotin í hverju tilviki, hvernig viðkomandi einstaklingur sem liggur undir ásökunum kom að ákvarðanatökunni og með hvaða hætti við eigum að hafa hagnast persónulega á þessum meintu afbrotum.

Fyrirspurnin er í raun einföld. Hvernig hefur hvert og eitt okkar, sem skrifum undir þetta bréf, brotið af sér á því kjörtímabili sem nú er lokið, á árunum 2018-2022? Hvernig hefur hvert og eitt okkar:

  1. Brotið gegn sveitarstjórnarlögum?
  2. Brotið gegn samþykktum Strandabyggðar?
  3. Brotið siðareglur Strandabyggðar?
  4. Í hvaða tilvikum nákvæmlega höfum við, hvert og eitt, ástundað sérhagsmunagæslu sjálfum okkur til hagsbóta?
  5. Með hvaða hætti og í hvaða tilvikum höfum við, hvert og eitt, ráðstafað fjármagni frá sveitarfélaginu í eigin þágu?
  6. Í hvaða tilvikum höfum við, hvert og eitt, úthlutað styrkjum og fjármagni frá sveitarfélaginu til safna og fyrirtækja sem tengjast okkur.
  7. Með hvaða hætti höfum við, hvert og eitt, gefið eignir sveitarfélagsins einstaklingum sem við tengjumst?

Það hlýtur að vera auðvelt fyrir sveitarstjórn Strandabyggðar að taka saman lista um þessi tilvik og greina nákvæmlega frá þætti hvers og eins okkar. Nýkjörinn oddviti Strandabyggðar hlýtur að hafa allar þessar upplýsingar á takteinum, fyrst hann hefur haft uppi og dreift ásökunum um þessi meintu brot.

Í ljósi þess að þessar upplýsingar hljóta að liggja fyrir, leyfum við okkur að óska eftir svari strax á næsta almenna sveitarstjórnarfundi Strandabyggðar, um miðjan júní næstkomandi. Það hljóta allir að átta sig á hversu mikilvægt það er fyrir okkur að þurfa ekki að burðast með þessar óljósu ásakanir á bakinu inn í framtíðina, en geta í staðinn rætt um hvert meint brot fyrir sig.

Órökstuddar dylgjur og ásakanir eru auðvitað alltaf óásættanlegar, en varðandi sveitarstjórnarmál á það kannski ekki síst við, þegar þær beinast að þeim sem hættir eru störfum í sveitarstjórn og eiga þannig ekki lengur kost á að verja sig á þeim vettvangi.

Virðingarfyllst,

Jón Gísli Jónsson
Guðfinna Lára Hávarðardóttir
Ásta Þórisdóttir
Pétur Matthíasson
Jón Jónsson

auglýsingar

Nýjustu fréttir og greinar

Í dag opnar fjölmennasta og víðfeðmasta myndlistarsýning sem haldin hefur verið á Íslandi. 23 myndlistarmenn sýna verkin sín á Ströndum.
Það styttist óðfluga í Náttúrubarnahátíð á Ströndum sem verður haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi helgina 8.-10. júlí næstkomandi.
Sjoppan á Hólmavík á 40 ára byggingarafmæli í ár, það markar einnig endalok hennar þar sem verið er að rífa hana niður þessa dagana.
Strandabyggð auglýsir þrjár lausar stöður í Grunnskólanum á Hólmavík og í Leikskólanum Lækjarbrekku á Hólmavík.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Í dag opnar fjölmennasta og víðfeðmasta myndlistarsýning sem haldin hefur verið á Íslandi. 23 myndlistarmenn sýna verkin sín á Ströndum.
Það styttist óðfluga í Náttúrubarnahátíð á Ströndum sem verður haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi helgina 8.-10. júlí næstkomandi.
Sjoppan á Hólmavík á 40 ára byggingarafmæli í ár, það markar einnig endalok hennar þar sem verið er að rífa hana niður þessa dagana.
Opinn kynningarfundur um verkefnið Verndarsvæði í byggð á Hólmavík verður haldinn á Kaffi Galdri nk. fimmtudag, 30. júní og hefst kl. 20:00.