Kom frá Tenerife til að stýra vinnuskóla

Skrifað af:

Ritstjórn

José hefur síðustu daga unnið að vegglistaverki. Mynd: Ásta Þórisdóttir

José Javier Mínguez hefur síðustu daga unnið að vegglistaverki sem sett hefur verið á gafl Þróunarsetursins. Það verður vígt í dag kl. 15. Gestum og gangandi er boðið upp á kaffi og kleinur og að hitta listamanninn sjálfan.

José Javier Mínguez er frá Tenerife á Spáni og hefur unnið í sumar sem verkstjóri Vinnuskóla Strandabyggðar. Nú er vinnuskólinn búinn og José hefur eytt síðustu dögunum sínum í að mála listaverk á hús Þróunarsetursins á Hólmavík. Strandir.is hitti José til að forvitnast um hvernig það kom til að hann endaði á Hólmavík. José segist hafa langað að breyta til og flytja til Íslands. Hann frétti af starfinu í gegnum vin sem ólst upp á Hólmavík en býr nú á Tenerife. José hefur unnið sem blaðamaður og myndskreytir en einnig rekið sitt eigið ferðaþjónustufyrirtæki á Tenerife síðustu árin.

Krefjandi að halda hópnum við efnið

Nemendur í vinnuskólanum tókust á við ýmis skapandi verkefni. Mynd: J.J. Mínguez

„Þetta er búið að vera áhugaverð reynsla, ég lærði margt af þessari vinnu og af krökkunum.“ segir José. Hann segir að það hafi líklegast verið mest krefjandi að halda hópnum við efnið allan tímann við hin misjöfnu verkefni og hann hafi ekki alveg átt von á því hvað það var krefjandi að stjórna hópi af unglingum. „Þau hafa öll ólíka getu, mismunandi áhugamál, þarfir og vandamál.“ José segir að eftir þessa reynslu hafi hann komist að raun um hvað það hljóti að vera erfitt en jafnframt mikilvægt starf að vera kennari.

Vinnuskólinn bauð upp á hjólreiðaviðgerðir fyrir íbúa. Mynd: J.J. Mínguez

En José var ekki bara að vinna með krökkunum heldur eyddi hann líka frítímanum í að njóta náttúrunnar á svæðinu sem honum finnst vera bæði margslungin og stórbrotin. Hann hefur farið í lengri og styttri ferðir yfir í Ísafjarðardjúp, norður í Árneshrepp og á Hornstrandir.

Vinnuskólinn smíðaði leiktæki fyrir Hamingjudaga, hér má sjá kúlubraut. Mynd: J.J. Mínguez

Að vera hluti af einhverju stærra

José segir eitt af því eftirminnilegasta frá dvöl sinni á Hólmavík vera samfélagið „Að vera hluti af samfélagi, hluti af einhverju stærra en maður sjálfur og finna að maður er metinn að verðleikum.“ Hann segist ekki muna eftir að hafa fundið þessa tilfinningu áður. „Flestir íbúar hérna eru allir að vilja gerðir til að hjálpast að. Ég mun taka þessa reynslu af fólkinu á Hólmavík með mér.“

Vinnuskólinn að fegra bæinn. Mynd: J.J. Mínguez

Eins og áður segir vann José veggmynd á Þróunarsetrið. Hann segir að hugmynd um að hann ynni einhversskonar vegglistaverk hafi snemma komið til tals vegna bakgrunns hans sem myndskreytir. Honum finnst það góð hugmynd að setja meiri lit í umhverfið, sérstaklega fyrir dimmu vetrarmánuðina. „Ég er þakklátur og spenntur yfir þessu, svo hefur þetta líka verið skemmtilegt.“ José heldur nú til Reykjavíkur þar sem hann er búinn að fá vinnu næsta hálfa árið svo hann er ekki alveg farinn frá Íslandi strax.

José málar veggmyndina fyrir Þróunarsetrið. Mynd: Ásta Þórisdóttir.

Veggmyndin hefur nú verið sett á gafl Þróunarsetursins og verður formlega vígð í dag, mánudag, með smá athöfn við listaverkið og er gestum og gangandi boðið upp á kaffi og kleinur og að hitta listamanninn sjálfan kl. 15.

Fréttaritari spyr José hvort hann sjái fyrir sér að koma aftur til Hólmavíkur. „Hver veit? Fyrir ári síðan vissi ég ekki einu sinni að ég myndi flytja til Íslands. En nú veit ég kosti þess að búa í samfélagi eins og þessu. Sjáum til eftir veturinn, hví ekki?“ segir José að lokum.

José og Jón Gísli oddviti búnir að festa veggmyndina upp. Mynd: Ásta Þórisdóttir
Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Um áramótin urðu kaflaskil á Hólmavík þegar Café Riis fékk nýjan eiganda. Arkitektinn Guðrún Ásla Atladóttir hefur tekið við lyklunum.
Óskar Hafsteinn, kokkur, deilir með okkur uppskrift að spari eftirrétt, sítrónu tart, sem hann gerði m.a. í sveinsprófinu sínu.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.
Auglýst er eftir tilnefningum um íþróttamanneskju ársins 2021 í Strandabyggð. Öll sem vilja geta sent inn tilnefningu.