Jólasaga & jólaljóð ársins

Skrifað af:

Ritstjórn

Mynd: Eiríkur Valdimarsson

Á Bókavík sem haldin var í nóvember sl. fór fram jólasögusamkeppni. Ung og eldri börn voru hvött til þátttöku með því að senda inn sögu eða ljóð tengda jólunum.

Form jólasögusamkeppninnar var frjálst en lengdin var takmörkuð við 2500 orð og var höfundum gert að senda inn undir dulnefni.

Nú hefur verið valið úr aðsendu efni og birtast jólasaga og jólaljóð ársins nú hér á strandir.is.

Jólasaga ársins er eftir uppkomna barnið Eirík Valdimarsson, þjóðfræðinginn veðurglögga.

Jólaljóð ársins eftir Gíslrún Eik Borgarsdóttir, 7 ára brottflutta Hólmavíkurmær sem nú býr í Þingeyjarsveit en fylgist greinilega vel með á Ströndum.

Jólasmákökur. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Elsku jólin

Höfundur: Gíslrún Eik Borgarsdóttir


Ég elska jólin.
Ég elska smákökur.
Ég elska spilakvöld.
Ég elska jólasveina.
Ég elska þegar fjölskyldan kemur öll saman.
Það eru jólin fyrir mér.

Það logar ljós

Höfundur: Eiríkur Valdimarsson

Veturinn umlykur þorpið á Þorláksmessu. Fjallvegirnir lokuðust í nótt, en sem betur fer var Kaupfélagið búið að fylla vel á hillurnar áður en snjórinn fór af stað og hóf sig aftur til lofts með tilheyrandi skafrenningi og ófærð. Klukkan er fjögur og úr nokkrum húsum má finna angan af hangikéti, öðrum skötu. Kaupfélagsplanið er fullt af bílum, þar inni er mikið að gera og hátíðarskapið virðist vera smitandi svona rétt fyrir jólin. Rétt eins og gubbupestin sem lagði hálft þorpið í nóvember og lúsin og njálgurinn sem skriðu inn á hvert heimili í haust! Jú, og covid veiran sem gekk á milli fólks hér um árið. Þessi blessaði jólafaraldur eru öllu kærkomnari.

Allir bátar eru komnir í land og öll börn orðin spennt. Margir eru orðnir stressaðir, einstaka heimili eru enn skítug og munu verða það áfram. Sum munu verða orðin hrein á aðfangadag. Önnur hafa ekki orðið skítug síðan börnin urðu stór og fluttu að heiman. Sumir íbúanna eru orðnir fullir og munu verða fullir öll jólinu en átta sig ekki á sorginni sem það býr til fyrir aðra fyrr en eftir mörg á. Sumir munu rífast og verða ósáttir fram á nýtt ár. Margir eiga eftir að hella niður rauðvíni í sparidúka heimila sinna, og þeir blettir eiga eftir að festast varanlega. 

Óvitar á öllum aldri eiga eftir að borða svo mikið af konfekti, að þau eiga eftir að fá hressilega í magann. Sumir munu þurfa að hlaupa út úr jólamessunni á aðfangadagskvöld og bruna á björgunarsveitarbílum upp á fjallvegina í kring og bjarga þar kínverskum ferðamönnum sem keyrðu inn í skafl og skildu ekki aðvörunarskiltin sem sögðu skýrum stöfum „LOKAГ. Þannig eiga sumar steikur eftir að þorna, einstaka sósur eftir brenna við, stöku hasselback-kartöflur verða ól-seigar. 

Þannig var það og þannig verður það alltaf á jólunum, þó svo að fæstir séu reiðubúnir til að viðurkenna það.

En á meðan jólaspennan er að hlaðast upp, stendur efst upp í þorpinu dvalarheimilið hjúpað yfirvegun öldungsins. Húsið er bjart og virðulegt þar sem útsýni er gott út fjörðinn og yfir höfnina. Þaðan sést vel inn í dali og sveitirnar í kring. Aðalgatan er vel sýnileg fyrir neðan dvalarheimilið og auðvelt að fylgjast með mannlífinu… eða öllu heldur bílalífinu – það gengur enginn heilvita maður á milli staða í þorpinu, aðeins utanbæjarfólk og útlendingar!

Á dvalarheimilinu býr fólk sem komið er langan veg á lífsins braut, fólk sem hefur tapað líkamlegum styrk æskunnar og stundum andlegum. Margir eru þangað komnir til að bíða eftir síðasta kallinu eða bara til að jafna sig eftir áföll, áður en þau halda aftur heim. Sumir halda einir í þá von að komast aftur heim, á meðan vonarglætan sú er í raun engin.

Já, nú er Þorláksmessukvöld og flestir komnir heim til sín og komnir í ró. Á dvalarheimilinu er hvíta friður uppi á hæðinni. Næturvaktin er komin, búin að aðgæta að allt heimilisfólkið hafi það bærilegt. Og nú situr hún með rótsterkt kaffið í skörðóttum bolla í setusofu starfsfólksins, horfir á þrá-endurtekna jólatónleika Frostrósa í sjónvarpinu, grettir sig eftir fyrsta sopann og fálmar eftir fjarstýringinni. 

Úti er létt snjókoma, gjólan feykir kornunum lítið eitt til áður en þau lenda á hvítri breiðunni. Allt í kringum þorpið eru dimm él og augljóst að staðsetning þorpsins er skjólsæl í þessari vindátt. Þorpið er úr fjarska svo að sjá sem ljós í sorta vetrarins á hjara hins byggilega.

Ef einhver hefði litið í áttina til dvalarheimilisins á þessari stundu hefði viðkomandi séð lítið ljós kvikna í einum glugganum. En auðvitað var enginn að horfa þangað þegar þetta gerðist. Þetta var aðeins eitt pínulítið ljós í alheiminum sem stundum kvikna án þess að við skiljum strax tilganginn.

Mynd: Eiríkur Valdimarsson

Inn af glugganum þar sem ljósið kviknaði situr við rúmstokkinn aldraður maður. Sá hefur búið alla sína ævi í þorpinu, unnið frá því hann var 8 ára til sjós og lands. Eftir að hafa alist upp í gamalli aflagðri verbúð í jaðri þorpsins, ásamt foreldrum fæddum á þarsíðustu öld og þrettán eldri systkinum, þurfti hann snemma að fullorðnast og byggði sér og konu sinni nýbýli í þorpinu nýorðinn tvítugur, bjó þar og ól sína önn áratugum saman. Nýbýlið hefur með árunum umbreyst í eitt af gömlu húsunum í bænum. Hann er með stórar hendur gamli maðurinn, þó svo að kroppurinn sé heldur farinn að rýrna með árunum. Hann er ekkill, en eftir að kona hans lést fyrir fáeinum árum flutti hann sig upp á dvalarheimili þar sem börnunum hans fannst óþægilegt að vita af honum einum í gamla húsinu, enda þau öll flutt suður og hann því einn eftir í plássinu. Gamla húsið hans á eyrinni stendur því tómt, ljóslaust og drungalegt.

Gamli maðurinn hafði farið að sofa eftir að hafa hlustað á þáttinn í útvarpinu þar sem álkulegi tónlistarmaðurinn spilar gömul og góð lög. Þessi þáttur er alltaf á undan 10 fréttunum, en hann hafði lært það á sinni löngu ævi að það gerist aldrei neitt í heiminum á kvöldin á milli 7 fréttanna og 10 fréttanna, sem einu sinni hétu 8 fréttirnar og 11 fréttirnar. Því var hann vanur að loka fyrir útvarpið áður en þær byrjuðu og skríða upp í. Hann hafði sofnað vært, þangað til hann hrökk upp skyndilega við það að einhver virtist vera að vekja hann. Honum fannst þetta skrítið þegar hann var vaknaður, því það var eins og móðir hans hefði verið komin að rúminu hans, í gömlu peysufötunum sínum og með síða hárið sitt í fléttunni sem hún hafði fléttað sérhvern morgun fram á sinn síðasta dag. Honum hafði fundist hún hvísla til hans hlýlega: 

„Sigurður! Siggi minn, nú skaltu vakna.“

En um leið og vitund hans var með öllu vöknuð, sá hann að hann var bara aleinn og sat með litla ljósið á borðinu sem hann hlaut að hafa kveikt á sjálfur. Herbergið var tómt og óvenju kalt.

Hann stóð upp og gekk að glugganum og leit yfir þorpið. Muggan dundi nú á þökunum og tómum götunum. Jólaljós voru tendruð í flestum gluggum húsanna, nema í þeim sem nú þjónuðu hlutverki sumarhúsa. Þessi hús máttu þó eiga að það að þau voru oft á tíðum óvenju snyrtileg, líkt og eigendur þeirra hefðu ofurlítið samviskubit yfir því að eiga þau en búa ekki á staðnum nema fáeinar vikur á ári.

Af gömlum vana leituðu augu mannsins í áttina að gamla húsinu sínu. En nú bar nokkuð nýtt við. Í eldhúsglugganum sá hann… jú það var ekki um að villast. Þarna logaði agnarlítið ljós! Þarna átti enginn að vera, allra síst á þessum árstíma. Voru augun kannski með einhverja villandi glýju, eða voru helvítis nýju augasteinarnir sem hann fékk fyrir þremur árum kannski að gefa sig? Nei, þetta var ljós í húsinu hans!

Gamli maðurinn gat ekki látið þetta óáreitt. Hann yrði að fara út og aðgæta þetta mál, og það í skyndi. Hann gekk óvenju hröðum skrefum að fataskápnum sem hann átti og fann þar gömlu tékkóslóvakísku gúmmískóna sem hann hafði látið „járna“ eins og hann kallaði það, með gripgóðum nöglum. Hann fálmaði síðan eftir ullarfrakkanum sem hann hafði keypt þegar hann verslaði sér spariföt fyrir útför konu sinnar hérna um árið. Hann setti á hendurnar vélahanskana, sem þrátt fyrir marga þvotta önguðu enn af dísel frá því hann gerði upp sinn gamla Ferguson 35.

Hann lét það nægja að vera bara í föðurlandinu að neðanverðu, enda var hann svo heitfengur hvort eð er. Eldgamli Stetson sixpensarinn ofan á gráhvítt hárið fullkomnaði síðan útbúnaðinn, enda fór hann aldrei út úr herberginu án þess að bera þessa góðu skallavörn.

Þegar hann ætlaði að taka í hurðarhúninn, stoppaði hann og mundi að hann átti alls ekki að fá að fara út svona seint á kvöldin. Kannski væri bara best að læðast út án þess að starfsfólkið vissi neitt um það. Með gúmmískóna í annarri hendi, opnaði hann því varlega og leit fram á gang. Sá var dimmur, aðeins mátti sjá útexit-græn ljós við sitthvorn endann, úr fjarska heyrðist í Gísla heitnum Halldórssyni leikara lesa á hljóðbók inni hjá einhverjum Góða dátann Sveik,  en kraftmiklar hrotur bárust innan úr tveimur öðrum herbergjum. Úr annarri átt mátti síðan heyra lagið „Frá ljósanna hásal“. Maðurinn staldraði við lítið eitt. Þetta lag og þessi texti – konan hans hafði dáð það og spilað og sungið á sérhverju aðfangadagskvöld, á gamla píanóið í húsinu þeirra. 

Gamli maðurinn hélt áfram, staulaðist fram og í áttina að útdyrahurð sem var fjær kaffistofu starfsfólksins. Við útidyrahurðina hafði verið sett skilti sem á stóð: „Heima er best!“ Sem var í besta falli ómeðvituð kaldhæðni, þar sem flestir sem dvöldu þarna inni höfðu þurft að yfirgefa heimili sitt, stundum af illri nauðsyn. Gamli maðurinn stoppaði eitt augnablik við skiltið og hugsaði sig um. En sagði svo við sjálfan sig í huganum: 

„Jú, auðvitað er það satt.“

Hann klæddi sig í gúmmískóna og læddist hljóðlega út í nóttina.

Veðrið úti var á þessari stundu skaplegt, snjókoman virtist hafa sætt lagi, en eitt og eitt snjókorn féll til jarðar. Gamli maðurinn stóð þarna smá stund, og fyllti lungun sín af loftinu – köldu og fersku. 

Mynd: Eiríkur Valdimarsson

Skyndilega sló út rafmagnið í öllu þorpinu og myrkur barst frá öllum gluggum húsanna. Honum brá lítið eitt, en þó ekki svo mjög enda hafði varla liðið sá vetur í hans tíð að ekki yrðu rafmagnstruflanir í lengri eða skemmri tíma, svona eftir að rafmagnið kom í þorpið yfirleitt. Honum varð litið niður á eyrina. Enn mátti þar sjá ljós í glugganum þrátt fyrir rafmagnsleysi! Hann stikaði af stað, það var ekki eftir neinu að bíða.

Snjórinn var í rauninni ekki illur yfirferðar og hjálpaði við að gera ratfært. Á götunni niður á eyri hafði einhver keyrt stuttu áður, sennilega næturvaktin sem kom keyrandi í vinnuna. Þannig fylgdi hann bílförunum til að létta sér sporin. Inn í húsunum mátti greina ljós og skugga, fólk í óða önn að tendra á auðfundnum kertum, að undirbúa jólin, undirbúa háttatíma, undirbúa ekki neitt. Sumir gera einmitt ekki neitt, hjálpa ekkert til og láta aðra um það en taka samt á móti öllu því ómaki sem aðrir gera fyrir mann. Á slíkum heimilum er hamingjan fólgin í umbúðunum en ekki innihaldinu. 

Á leiðinni niður hallann sá hann kött sem mjálmaði á hann. Hann mundi þá eftir því að þegar hann var stráklingur hafði móðir hans sagt honum frá jólakettinum sem át krakka sem enga flík fengu fyrir jólin. Móðir hans hafi sífellt passað upp á að hann fengi að minnsta kosti nýja sokka á aðventunni, þó svo að frekari flíkum hafi ekki alltaf verið að heilsa í þá daga. Hann hafði sem barn verið dauðskelkaður við jólaköttinn og allar þær vættir sem jólunum fylgdu. Þegar hann sá þennan kött á stangli á milli skaflanna, brá honum ofurlítið og ósjálfrátt fór hann í huganum yfir klæðnað sinn: hvað var nýtt, hvað var nýlegt, hvað var eiginlega gamalt? En þegar kisi skaust út í myrkrið, hristi gamli maðurinn þessar hugleiðingar frá sér og hélt áfram leiðar sinnar.

Gamla húsið hans stóð inn á milli tveggja fallegra húsa við aðalgötu þorpsins. Bæði voru nýtt sem sumarhús, annað af afkomendum hinna upprunalegu íbúa og hitt var í Airbnb-leigu. Bæði húsin voru fallega málið, með vel hirtum garði. Bæði stóðu nú tóm. Gamla hús mannsins var hinsvegar orðið grátt og niðurnýtt eftir fjarveru hans undanfarin misseri. Það hafði munað fífil sinn fegurri, en frostrósir og einkarlega ryðgað bárujárn einkenndi nú húsið. En, í einum glugganum sá hann enn ljóstíruna. 

„Hvað er að gerast?“ 

Hann tók eftir því að í kringum húsið var samfelldur snjór og kominn skafrenningur. Engin fótspor eða merki um mannaferðir. 

Teikning: Eiríkur Valdimarsson

Hann klofaði yfir skaflinn, sem lá frá austri til vesturs framan við húsið. Þegar hann kom að útidyrahurðinni tók hann af sér hanskana og leitaði í jakkavasanum að lyklinum að útidyrahurðinni. Fingurnir voru orðnir nokkuð loppnir eftir veru sína í skjóllitlum vinnuhönskunum, en að lokum tókst honum að stinga lyklinum í skrána, snúa og opna hurðina. Fyrr en varir stóð gamli maðurinn í forstofunni sem sultardropa á nefbroddinum líkt og fyrrum er hann kom þreyttur heim af sjónum.

Á veggnum fyrir framan hann sá hann útskorið skilti: „Drottinn blessi heimilið“. Hann brosti með sjálfum sér, fór úr gúmmískónum og gekk inn. Húsið var á einni hæð, með valmaþaki, með fjórum litlum svefnherbergjum, stofu, agnarsmáu baðherbergi og eldhúsi. Hann leit í kringum sig og sá hvernig tíminn hafði safnað ryki innandyra og dauðar flugur í gluggakistunum bentu til þess að þær hefði drepist hljóðlaust í algerum friði. Hann prufaði að kveikja ljós. Nei, hér var rafmagnslaust.

Skyndilega heyrði hann þrusk í herberginu innst inni í húsinu. Já ljósið. Það var ekki um að villast: hurðin inn í herbergið var nánast lokuð en örmjó rifan sýndi að þar inni var sannarlega ljós. Í nokkrar sekúndur tvísté hann þarna: hvað ef þetta voru einhverjir þrjótar? Þó svo að hann hefði nú á sínum yngri árum orðið héraðsmeistari í glímu þrjú ár í röð, þegar sveitirnar voru fullar af ungu og hraustu fólki, var hann í dag fyrsti maðurinn til að viðurkenna að kraftarnir voru nú eitthvað byrjaðir að daprast. En þetta var samt sem áður heimili hans, já hans! Hann gat ekki látið þetta óáreitt. Hann gekk af stað inn ganginn.

Eftir því sem hann kom nær hurðinni, fann hann hvernig kjarkurinn jókst. Það var sem hann yngdist með hverju skrefi og hugurinn varð skýrari. Hann var kominn framhjá baðherberginu og tveimur barnaherbergjum. Gamli maðurinn rétti úr bakinu og fæturnir urðu öruggari og léttari. Hann komist ekki hjá því að brosa út í annað, léttirinn var slíkur. Hann sá að ljósið í herberginu varð bjartara er hann nálgaðist hurðina. Í gegnum huga hans þaut minning frá því hann var lítill strákur og sá rafmagnsperu loga í fyrsta skipti. Þá var hann 7 ára í heimsókn hjá sýslumanninum á staðnum, sem þá hafði verið fyrstur til að rafvæðast í plássinu. Birtan frá perunni var ólík öllu sem hann hafði áður séð, það var bjartara og hlýrra en lampaljósið sem hann var vanur úr koti foreldra sinna. Þessi stund var ákveðinn vendipunktur í hans lífi: hann ætlaði að hafa nóg af slíku ljósi fyrir börnin sín þegar þau myndu koma til sögunnar. Og þarna stóð hann í gamla húsinu sínu og þetta einstaka ljós beið hans í algeru rafmagnsleysi!

Hann var kominn að hurðinni og lagði lófa sinn á hana og fann hvernig ylurinn hviflaðist um hann allan. Inni heyrði hann að spilað var á gamla góða píanóið: „Á ljósanna hátíð“. Eitt tár rann niður í svart alskeggið, en svo ýtti maðurinn hurðinni upp og gekk inn í ljósið. 

„Sigurður minn! Komdu inn. Manstu ekki?“

Köttur gekk framhjá gamla húsinu við aðalgötuna og sá hvernig ljóstýra dofnaði um leið og lokaerindið heyrðist sungið með bjartri kvenmannsröddu:

Ljósanna faðir lát á helgu kveldi
hvert fávíst hjarta finna
til friðar barna þinna.
Gef föllnum heimi ráð til að nálgast þig.

Og húsið stóð nú myrkt á ný. Líka þegar rafmagnið datt alltíeinu inn aftur og gladdi flesta í þorpinu. Skafrenningurinn sem gekk um götur máði út fótspor sem lágu upp að húsinu. Þorpið varð aftur aðeins lítið ljós í sorta heimsins.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Um áramótin urðu kaflaskil á Hólmavík þegar Café Riis fékk nýjan eiganda. Arkitektinn Guðrún Ásla Atladóttir hefur tekið við lyklunum.
Óskar Hafsteinn, kokkur, deilir með okkur uppskrift að spari eftirrétt, sítrónu tart, sem hann gerði m.a. í sveinsprófinu sínu.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.
Auglýst er eftir tilnefningum um íþróttamanneskju ársins 2021 í Strandabyggð. Öll sem vilja geta sent inn tilnefningu.