Ítreka kröfu um svör frá sveitarstjórn um meint brot í starfi

Skrifað af:

Ritstjórn

Hettumáfar á Hólmavík. Mynd: Silja Ástudóttir

Fyrrverandi sveitarstjórn Strandabyggðar hefur sent núverandi sveitarstjórn ítrekun á kröfu um svör við spurningum sínum. Þeim hafa ekki borist svör frá því þau sendu erindið upprunalega, strax í kjölfar sveitarstjórnarfundar Strandabyggðar í júní sl.

Í maí sendi fráfarandi sveitarstjórnarfólk erindi til nýrrar stjórnar þar sem þau kröfðust svara frá Þorgeiri Pálssyni, sem þá var nýkjörinn oddviti, og hans lista um þær ásakanir sem hann hafði borið á sveitarstjórnina fyrrverandi, en Þorgeir hefur í fjölmiðlum ásakað fráfarandi stjórn um brot á sveitarstjórnarlögum, siðareglum og samþykktum Strandabyggðar, auk þess að ásaka þau um „að misfara með fjármuni sveitarfélagsins og nýta þá í eigin þágu.“

Gjörbreytt lagaleg staða

Í erindinu sem fyrrverandi sveitarstjórnarfólk sendi sveitarstjórn í dag segja þau að staðan sé gjörbreytt frá lagalegu sjónarhorni frá því þau sendu erindið upphaflega. „Nú getum við, á grundvelli þeirrar atburðarásar sem lýst hefur verið, krafist þeirra svara sem við fengum ekki þegar við sóttumst eftir þeim í fyrra skiptið, á grundvelli upplýsingalaga og stjórnsýslulaga. Þau lög eiga við um störf sveitarstjórnarfólks á sveitarstjórnarfundum.“

Engin svör fengist

Fyrra erindið var tekið fyrir á sveitarstjórnarfundi 14. júní sl. og segja þau að í bókun frá fundinum séu engin svör að finna við þeim atriðum sem spurt var um, „en við hljótum að líta svo á að í bókuninni komi fram afstaða meirihluta sveitarstjórnar, enda var erindi okkar beint til sveitarstjórnarinnar. Í bókuninni gerir meirihluti T-listans opið bréf oddvitans til íbúa sveitarfélagsins frá 21. apríl 2021 að sínu, en í því eru ásakanir í okkar garð um lögbrot fyrst settar fram opinberlega.“

Ásakanir bornar fram á ný

Í erindinu segja þau að ásakanirnar um þau ýmsu brot sem þau eigi að hafa framið séu bornar fram að nýju, og nú af meirihluta sveitarstjórnar á sveitarstjórnarfundi – æðsta valdi í málefnum sveitarfélagsins. „Oddviti og meirihluti sveitarstjórnar kjósa, í stað þess að svara fyrirspurninni eins og þeim ber skylda til, að ráðast að okkur að nýju og endurtaka fyrri ásakanir.“

Þá segjast þau verða að fá tækifæri til að hreinsa sig af þeirri árás á mannorð þeirra og æru sem felast í þessum ásökunum. Líklegt er að erindið verði tekið fyrir á sveitarstjórnarfundi 9. ágúst í næstu viku.

Hægt er að lesa erindið í heild hér að neðan.

Efni: Ítrekuð krafa um svör frá sveitarstjórn Strandabyggðar, í ljósi breyttrar stöðu

Við undirrituð, íbúar og fyrrverandi sveitarstjórnarfólk í Strandabyggð, sendum erindi til sveitarstjórnar Strandabyggðar dagsett 31. maí síðastliðinn. Engin svör hafa enn borist. Hins vegar er okkur kunnugt um að erindið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar þann 14. júní síðastliðinn og eins og aðrir getum við séð á vef sveitarfélagsins hvað var bókað í fundargerð um málið.

Í fundargerðinni kemur fram að Þorgeir Pálsson oddviti las upp bókun í tengslum við umræðu við erindi okkar. Engin svör er þar að finna við þeim atriðum sem spurt var um, en við hljótum að líta svo á að í bókuninni komi fram afstaða meirihluta sveitarstjórnar, enda var erindi okkar beint til sveitarstjórnarinnar. Í bókuninni gerir meirihluti T-listans opið bréf oddvitans til íbúa sveitarfélagsins frá 21. apríl 2021 að sínu, en í því eru ásakanir í okkar garð um lögbrot fyrst settar fram opinberlega. Með þessari tilvísun í fyrri skrif eru ásakanir í okkar garð um brot á sveitarstjórnarlögum, siðareglum og samþykktum Strandabyggðar, auk ásakana um að misfara með fjármuni sveitarfélagsins og nýta þá í eigin þágu, þannig bornar fram að nýju og nú af meirihluta sveitarstjórnar á sveitarstjórnarfundi þar sem við getum ekki svarað fyrir okkur. 

Þessar ásakanir í okkar garð á sveitarstjórnarfundinum 14. júní, eru annars eðlis og alvarlegri en fyrri skrif Þorgeirs. Nú er ekki lengur um það að ræða að óánægður fyrrverandi starfsmaður sem vikið hafði verið úr starfi sveitarstjóra birti yfirlýsingu eða ásakanir í blaðagreinum eða opnu bréfi. Nú er vettvangurinn sveitarstjórnarfundur, æðsta vald í málefnum sveitarfélagsins. Oddviti og meirihluti sveitarstjórnar kjósa, í stað þess að svara fyrirspurninni eins og þeim ber skylda til, að ráðast að okkur að nýju og endurtaka fyrri ásakanir. Minnihlutinn á A-lista gerði hins vegar aðra bókun við umræður um fyrirspurn okkar á fundinum, sem við erum þakklát fyrir. 

Þannig liggur fyrir að meirihluta sveitarstjórnar Strandabyggðar finnst við hæfi að úthrópa hvert og eitt okkar, sem undirrituðum fyrirspurnina frá 31. maí, sem brotamenn á þessum sveitarstjórnarfundi. Enginn svör fást, en almennar ásakanir eru endurteknar. Hvergi eru nefnd, frekar en áður, einstök tilvik um hvernig við eigum að hafa brotið lög, reglur og samþykktir í störfum okkar á síðasta kjörtímabili. Við þurfum að fá tækifæri til að hreinsa okkur af þessum ítrekuðu ásökunum sem nú eru orðnar opinber afstaða sveitarfélagsins gagnvart okkur sem einstaklingum. Til þess þurfum við að fá nákvæmar upplýsingar um hvað átt er við. Því krefjumst við þess öðru sinni að fá svör við þeim fyrirspurnum sem fram voru settar í fyrra erindi okkar (og látum það erindi fylgja þessu bréfi til áréttingar). Við viljum að hvert og eitt tilvik um brot sé tilgreint og að einnig sé sundurgreint hver okkar hafi gerst brotleg við lög og reglur hverju sinni og með hvaða hætti. 

Frá lagalegu sjónarhorni er staðan gjörbreytt frá því að við sendum erindið inn upphaflega. Nú getum við, á grundvelli þeirrar atburðarásar sem lýst hefur verið, krafist þeirra svara sem við fengum ekki þegar við sóttumst eftir þeim í fyrra skiptið, á grundvelli upplýsingalaga og stjórnsýslulaga. Þau lög eiga við um störf sveitarstjórnarfólks á sveitarstjórnarfundum. 

Við verðum, hvert og eitt okkar, að fá tækifæri til að hreinsa okkur af þeirri árás á mannorð okkar og æru sem felast í þeim ásökunum meirihluta sveitarstjórnar Strandabyggðar sem settar voru fram á sveitarstjórnarfundinum þann 14. júní síðastliðinn og áður af núverandi oddvita sveitarstjórnar. 

Virðingarfyllst, 

Jón Gísli Jónsson
Guðfinna Lára Hávarðardóttir
Ásta Þórisdóttir
Pétur Matthíasson
Jón Jónsson

Nýjustu fréttir og greinar

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.