Íslandsmót í hrútadómum haldið 21. ágúst

Skrifað af:

Ritstjórn

Sauðfjársetur á Ströndum á Sævangi. Mynd: Jón Jónsson

Íslandsmót í hrútadómum verður haldið eftir tveggja ára hlé. Hrútaþuklið er stærsti viðburðurinn í starfi Sauðfjársetursins og er búist við gestum hvaðanæva af landinu til að taka þátt og fylgjast með.

Átjánda Íslandsmótið í hrútadómum verður haldið á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum sunnudaginn 21. ágúst næstkomandi og hefst kl. 14:00. Þessari skemmtilegu keppni hefur verið aflýst tvö ár í röð vegna sóttvarnatakmarkana, en verður nú endurvakin. „Hrútaþuklið er stærsti viðburðurinn í starfi Sauðfjársetursins. Hingað hefur streymt fólk alls staðar að af landinu, bændur og búalið, til að taka þátt eða fylgjast með. Við fengum oft á bilinu 300-500 gesti á hrútaþuklið og vonumst til að fólk fjölmenni líka á mótið í ágúst, eftir þetta leiðinda hlé,“ segir Ester Sigfúsdóttir framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins.

Sigurvegarar 2019. F.v. Bjarni Hermannsson, Jón Þór Guðmundsson og Sigmundur Sigurðsson. Mynd: Jón Jónsson

Síðast þegar keppt var, árið 2019, sigraði Jón Þór Guðmundsson á Galtarholti í Hvalfjarðarsveit og hefur því haldið titlinum Íslandsmeistari í hrútadómum í þrjú ár. Í öðru sæti þá var Strandamaðurinn Sigmundur Sigurðsson og Bjarni Hermannsson á Leiðólfsstöðum í Dölum í þriðja sæti. Strandamenn eru orðnir verulega óþreyjufullir að vinna titilinn eftir þennan tíma, þeim finnst verra þegar þeir ná ekki að halda honum í heimabyggð. 

Góð aðsókn að Sauðfjársetrinu í sumar

„Starfsemin hefur gengið ágætlega í sumar og aðsókn að Sauðfjársetrinu og veitingasalnum Kaffi Kind aldrei verið meiri en þetta árið. Hlutfall erlendra gesta er að aukast mikið,“ segir Ester. Safnið á 20 ára afmæli á þessu ári og haldið er upp á það með margvíslegum hætti. Í vor var opnuð ný sögusýning um hvítabjarnakomur til Vestfjarða á listasviðinu í Sævangi. Þar er um að ræða samstarfsverkefni viðurkenndra safna á Vestfjörðum og Þjóðfræðistofu. Eins var vegleg þriggja daga Náttúrubarnahátíð í júlí. Hún heppnaðist afbragðs vel og þar var ljómandi góð aðsókn. „Sauðfjársetrið á Ströndum er viðurkennt safn sem sinnir öllum þáttum safnastarfs og það er líka mikilvæg menningarmiðstöð í héraðinu. Hér hittast heimamenn og eiga saman góðar stundir á margvíslegum viðburðum,“ segir Ester. 

Sirkus á náttúrubarnahátíðinni 2022. Mynd: Jón Jónsson

Sérsýningum reglulega skipt út 

„Aðalsýningin er um sauðfjárbúskap á Ströndum og svo er sérsýningum skipt reglulega út. Nú eru þrjár aðrar sérsýningar í gangi til viðbótar við Hvítabjarnasýninguna nýju. Á einni er fjallað um förufólk og flakkara fyrri tíma og svo er ljósmyndasýning með gömlum Strandamyndum frá Kirkjubóli og Tungusveit í Kaffi Kind. Þriðja sérsýningin er svo utandyra, við göngustíg sem kallaður er Sjávarslóð og liggur frá Sauðfjársetrinum og út í Orrustutangann sem safnahúsið stendur á. Þá sýningu er hægt að skoða allan sólarhringinn og allt árið,“ segir Ester, en söguskilti eru við stíginn og einnig listaverk og skúlptúrar, m.a. er þar verk eftir Guðjón Ketilsson í sumar sem er hluti af listasýningunni Umhverfingu.

Frá hvítabjarnarsýningunni sem sett var upp í sumar. Mynd: Jón Jónsson

Sauðfjársetur á Ströndum er opið daglega yfir sumartímann frá kl. 10 til 18 og samkvæmt samkomulagi yfir veturinn í tengslum við viðburði og heimsóknir hópa.

Nýjustu fréttir og greinar

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.