Hólmvíkingur í landsliðssæti eldri kylfinga

Skrifað af:

Ritstjórn

Guðmundur Viktor á Skeljavíkurvelli. Mynd: Aðsend

Guðmundur Viktor Gústafsson golfari á Hólmavík náði nýlega þeim árangri að komast í landsliðssæti eldri kylfinga í aldursflokknum 65+ með forgjöf. Guðmundur Viktor er fæddur og uppalinn á Hólmavík og hefur verið skipstjóri og útgerðamaður í um 40 ár. Fyrir 3 árum hætti hann á rækjuveiðum og fékk þá meiri tíma til að sinna golf áhugamálinu, en rær líka á trillu með bróður sínum.

Hefur spilað golf síðan 1994

Guðmundur byrjaði að spila golf árið 1994 þegar Golfklúbbur Hólmavíkur var stofnaður og 6 holu golfvöllur var gerður út á Skeljavíkurgrundum. Sigfús Ólafsson læknir var frumkvöðull og einn af þeim sem stofnuðu klúbbinn. Guðmundur sá hann slá golfbolta á Grundunum þar sem síðar varð golfvöllur Hólmavíkur og kveikti það áhuga á að prófa. „Einn daginn var ég að landa rækju þegar ég hitti Sigfús, og spurði hann hvort ég mætti ekki koma og prófa. Það var auðsótt mál. Það gekk nú ekkert voða vel, ég fór brautina sem var par 4 á 11 höggum“ segir Guðmundur þegar hann rifjar upp fyrsta skiptið á golfvellinum. En hann hélt nú samt áfram og smám saman bætti hann sig og eftir 2-3 ár var hann kominn með 20 í forgjöf. Þegar best var fór hann niður í 11 í forgjöf en er með 14 í dag.

Guðmundur Viktor komst í landssliðssæti á dögunum. Mynd: Aðsend

Æfir á hverjum degi

Guðmundur æfir á hverjum degi ef hann getur og segir að Skeljavíkurvöllur sé algjör forsenda þess að hann geti æft og spilað golf. Völlurinn var fljótlega stækkaður í 9 holur og er í sífelldri endurbætingu. „Það eru nokkrir sem vinna óeigingjarnt starf að halda vellinum góðum og þetta er mikil vinna og mest unnið í sjálfboðavinnu“ segir Guðmundur. Stofnfélagar golfklúbbsins voru 26 en einungis 3 af þeim eftir, en nýir meðlimir hafa komið og telja félagarnir um 20 talsins í dag, misvirkir að vísu.

Skeljavíkurvöllur er 9 holu golfvöllur, Par 66, rétt utan við Hólmavík.

Golfið góð líkamsrækt

Guðmundur segir að golfið sé góð líkamsrækt og hann haldi sér í formi með því, auk þess að synda og fara í ræktina í Íþróttamiðstöð Strandbyggðar. Guðmundur nýtir hverja stund í golfið og eiginkona hans Birna Richardsdóttir er líka liðtæk í golfinu. Þau hjónin fara erlendis til að spila auk þess að taka þátt í ýmsum mótum út um allt land. Það hefur farið saman tíminn sem fer í golfið og árangurinn. Í sumar hefur hann spilað á 17 mótum, þar af 8 á Sjávarútvegsmóti Vestfjarða. Um miðjan júlí tók hann svo þátt í Íslandsmóti eldri kylfinga í Vestmannaeyjum og gekk vel og var hvattur áfram af Jóni Gunnari Traustasyni sem er í stjórn LEK (Landssamtök eldri kylfinga) og einnig ættaður frá Hólmavík. Hann var þá kominn í 5. sæti með forgjöf en á síðasta móti sem haldið var í Leirunni í Keflavík vann hann sig upp um tvö sæti og komst í 3. sætið. Guðmundur er nú með 3.302 stig úr 6 mótum.

Guðmundur Viktor reynir að æfa alla daga. Mynd: Aðsend

Keppir með landsliðinu

En hvað þýðir að vera kominn í 3. sætið? „Jú, það þýðir að ég á rétt á landsliðssæti og sé fram á að fara ef til vill erlendis að keppa með landsliðinu“ segir Guðmundur, og svo er þetta líka hvatning að standa sig vel og bæta sig. Hann frétti bara fyrir viku að hann væri kominn upp í 3. sætið og er spenntur fyrir framhaldinu en heldur sínu striki við æfingar á Skeljavíkurvellinum. „Það er bara ótrúlegt að það sé hægt að halda úti svona góðum velli í svona litlu samfélagi“ segir Guðmundur að lokum og hvetur fólk til að nýta sér hann, sérstaklega heimafólk. 

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Þorgeir Pálsson ritari í stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða fer yfir stöðuna hvernig ferðasumarið 2021 var á Ströndum.
Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur flutti á Strandir frá Reykjavík og hefur fundið flestum áhugamálum sínum farveg í Hveravík þar sem hún býr.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.

Aðrar fréttir

Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.
Ekki var hægt að halda aðalfund í Leikfélagi Hólmavíkur vegna manneklu. Stjórnin biðlar til íbúa að taka höndum saman og mæta á aðalfund eftir viku.