Rækta hamp í Selárdal: „Það má nýta hampinn í svo margt“

Skrifað af:

Guðbjörg Guðmundsdóttir

Hafdís Gunnarsdóttir og hampræktunin. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Hafdís Gunnarsdóttir og Hjörtur Númason, sem eru búsett á Hólmavík, munu á næstu dögum njóta fyrstu afurða tilraunaræktar á hampi. Þau ræktuðu tvö yrki af plöntunni í sumar við bústað sinn í Selárdal inn í Steingrímsfirði og segja árangurinn hafa komið skemmtilega á óvart. 

Þau Hafdís og Hjörtur höfðu verið áhugasöm lengi um ræktun á hampi og möguleikunum sem plantan býður upp á. „Það má nýta hampinn í svo margt og hann nýtist allur. Trefjarnar í stilkinum eru mjög sterkar og svo er CBD-olían úr blómunum talin vera mjög heilnæm,“ útskýrir Hafdís. Ræktun hamps hér á landi hefur legið í láginni í gegnum tíðina en nú hefur vitneskjan um þessa kosti hans náð athygli almennings.

Blóm Finola yrkisins. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Náðu meira en meters hæð

„Okkur langaði að vita hvort plantan sprytti á Ströndum og ákváðum að prófa að rækta í Selárdal.“ Þau sáðu tveimur tegundum af iðnaðarhampi, Finola og Earlina, á um 8 fermetra reit við bústaðinn þann 3. Júní. „Við höfðum ekkert lagst yfir þessar tegundir og vorum algjörir nýgræðingar, við keyptum bara þau fræ sem voru til. Þetta eru einærar plöntur, þeim er sáð að vori og teknar upp að hausti. Svo er sáð aftur næsta vor.“ Hampurinn hjá Hafdísi og Hirti náði aldeilis að vaxa í sumar. Tegundin sem braggaðist betur var Finola sem getur náð eins og hálfs meters hæð til tveggja metra og náði hún 1,3 metra hæð í Selárdal sem verður að teljast gott, miðað við hvað júní var kaldur. 

Hjörtur Númason. Mynd: Aðsend

Hlýtt en of þurrt 

Hafdís segir þau hafa litið eftir plöntunum eftir gróðursetningu í júní en að öðru leyti hafi ræktunin ekki útheimt mikla vinnu. „Við bjuggumst ekki við miklu og ætluðum bara að sjá hvernig þetta yxi. Maí var kaldur og frekar þurr og júní líka þannig að væntingarnar voru ekki miklar, þannig séð. Svo varð þetta hlýtt sumar, hitinn var yfirleitt frá 15 til 18 stigum og meira og minna sólríkt. Við hefðum sennilega náð meiri hæð á plöntunni í júlí og ágúst ef það hefði ekki verið svona þurrt. En ráðum því víst ekki!“ Hafdís segir Finola tegundina hafa vaxið í nýtilegan hamp en Earlina spratt nánast ekki neitt.

Finola yrkið spratt vel í Selárdalnum. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Sá fleiri tegundum næst

Hjörtur og Hafdís ætla að sá aftur á næsta ári. „Þá setjum við niður vonandi fimm tegundir sem eru í boði núna og höldum þessari spennandi tilraunastarfsemi áfram. Eins og ég sagði áðan þá áttum við ekki von á miklu, það er þurrt inni í Selárdal en þetta virðist vera sterk planta sem þolir kulda en sennilega ekki mikið rok. Þess vegna er kannski ekki sniðugt að vera með risastórar plöntur nema ef maður vill nýta stilkinn. Hún er harðger en það þarf að athuga að hún sé ekki alveg áveðra, til dæmis væri skjól við skurðbakka eða hæð hentugt.“ 

Hampblóm í þurrkun. Mynd: Aðsend

Eftirspurnin eykst og þekkingin líka

Hafdís segir aðalmálið vera að fá blómin. „Í þeim er CBD-olían. Þau eru einmitt tekin af um þetta leyti, sett strax í þurrkun, mulin niður og sett í te. Þetta er víst mjög heilsusamlegt og við getum notið okkar eigin CBD-tes.“ Nú eru að koma á markað íslenskar CBD-afurðir og það virðist vera gríðarlegur áhugi um allt land að prófa ræktun. Hafdís segir sífellt vera að bætast í sarpinn ný þekking um ræktun hamps á Íslandi. „Oddný Anna Björnsdóttir og Pálmi Einarsson í Gautavík í Berufirði hafa verið algjörir brautryðjendur í þessu og ýtt þróuninni áfram. Þau hafa kannað notagildið og gert rannsóknir sem munu nýtast okkur vel núna þegar ræktunin fer að vera almennari. Það vantar bara verksmiðju sem gæti unnið úr hampinum sem landeigendur rækta.“

CBD-olían þykir hin mesta heilsubót og má meðal annars nýta í te. Mynd: Aðsend

Á vísindavefnum er hægt að lesa um notagildi hampsins: 

Mikilvægi hamps og notagildi hans hefur ekki síst legið í því hversu trefjaríkir stofnar plöntunnar eru. Trefjarnar mátti nota í klæði, segl, reipi, pappír og margt fleira. Sem dæmi var hampur notaður bæði í segl og kaðla á tímum landafundanna miklu.

Iðnaðarhampur er nýttur á ótrúlega marga og ólíka vegu og hátt í 25 þúsund mismunandi vöruflokkar framleiddir úr honum. Úr trefjum hamps er til dæmis búinn til pappír og vefnaðarvara.“

„Plöntuhlutar hamps eru einnig notaðir sem dýrafóður og sem þekja til að halda niðri illgresi í gróðurhúsum. Tilraunir með að framleiða lífdísil úr hampi lofa góðu.“

„Úr fræjum hamps er unnin olía sem er notuð í lækningaskyni og sem íblöndunarefni í málningu, snyrtivörur og í iðnaði. Olían er notuð til matargerðar, sem íblandað fæðubótarefni í matvælum og í hampmjólk. Þurrkuð og mulin fræ þykja ágæt til baksturs. Auk þess sem fræin eru gefin sem dýra- og fuglafóður.“

Vísindavefurinn

Innskot ritstýru strandir.is: Í þessari frétt er verið að ræða um iðnaðarhamp, ekki hamp sem er ræktaður til vímuefnaneyslu. CBD er ekki vímugjafi.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.
Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Skúla Gautason.

Aðrar fréttir

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.