Hamingjudagar settir og menningarverðlaunin Lóan veitt

Skrifað af:

Ritstjórn

Barnakór Hólmavíkur hlaut menningarverðlaunin Lóuna 2022. Mynd: Magnea Dröfn Hlynsdóttir

Í dag voru Hamingjudagar á Hólmavík settir við hátíðlega athöfn í Hnyðju. Það var Hrafnhildur Skúladóttir íþrótta- og tómstundafulltrúi sem setti hátíðina í Hnyðju og á sama tíma voru menningarverðlaun Strandabyggðar veitt. Jóhanna Rannveig Jánsdóttir spilaði á fiðlu og þar að auki opnaði sýningin Skúlptúr á Ströndum en listakonan Raimonda Sereikaite-Kiziria sýnir verk sitt í Hnyðju á Hamingjudögum.

Fjölmennt var við setningu Hamingjudaga Hólmavíkur í Hnyðju fyrr í dag. Íþrótta- og tómstundafulltrúi setti hátíðina og í kjölfarið veitti Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd Strandabyggðar Lóuna, menningarverðlaun Strandabyggðar. „Við erum einstaklega glöð að geta haldið þessa hátíð í ár með nokkuð svo hefðbundnu sniði eftir covid.“ sagði Hrafnhildur við setninguna.

Hrafnhildur Skúladóttir, íþrótta- og tómstundafulltrúi, setur Hamingjudaga. Mynd: Magnea Dröfn Hlynsdóttir

Dýrmætt framlag til menningarlífs

Lóan, sem hefur verið veitt árlega frá árinu 2010, var veitt í þrettánda skiptið. Verðlaunin eru veitt fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar í sveitarfélaginu á liðnu ári. Verðlaunagripurinn Lóan er farandgripur sem er hannaður og smíðaður af Hafþóri Ragnarssyni.

Menningarverðlaun Strandabyggðar árið 2022 hlutu Barnakór Strandabyggðar og Bragi Þór Valsson fyrir eftirtektarvert menningarframtak í sveitarfélaginu. „Bragi hefur unnið ötult starf og náð miklum framförum og góðum árangri með barnakórinn svo unun er á að hlusta og hér eru sannkallaðar englaraddir sem gaman væri að heyra oftar í. Framlag barnakórsins til menningarlífs á svæðinu er dýrmætt og þakkarvert og vonandi komið til að vera. Þau eru vel að þessum verðlaunum komin.“

Barnakór Hólmavíkur. Mynd: Salbjörg Engilbertsdóttir

Sannkallaður menningarauki

Þá hlaut Sýslið verkstöð sérstaka viðurkenningu vegna framlags þeirra til menningarmála. „Ásta Þórisdóttir og Svanur Kristjánsson listamenn og skaparar í Sýslinu fá sérstaka viðurkenningu fyrir framlag sitt til menningarstarfs í Strandabyggð með námkeiðshaldi fyrir almenning og opnum vinnustofum og þar með hvatt fólk til að auðga líf sitt með ýmsu móti. Sýslið er sannkallaður menningarauki.“

Svanur Kristjánsson tekur við sérstakri viðurkenningu fyrir Sýslið verkstöð. Mynd: Magnea Dröfn Hlynsdóttir

Óþreytandi í eyðingu illgresis

Að lokum voru afhent Heiðursverðlaun Strandabyggðar en það var hún Helga Berglind Gunnarsdóttir sem hlaut þau: „Helga hefur í áraraðir lagt mikla vinnu í umhverfisfegrun í Strandabyggð. Hún er óþreytandi í eyðingu illgresis og ruslatínslu og er sannarlega fyrirmyndaríbúi. Með viðurkenningu þessari þökkum við íbúar Strandabyggðar innilega fyrir okkur.“

Sýning á skúlptúrum

Á sama tíma var opnuð sýning á skúlptúrum eftir Raimonda Sereikaitė-Kiziria. Verkin fjalla um aðstæður sem erfitt er að lýsa, innri upplifun og áhrif mismunandi félagslegs og menningarlegra samhengis. Hún sækir skapandi hugmyndir úr náttúrunni og borgararkitektúr, brýtur og sundrar. Sýningin er opin í Hnyðju á morgun, laugardag kl. 13-18 og sunnudag kl. 12-16.

Verk eftir Raimonda Sereikaitė-Kiziria á sýningaropnun. Mynd: Svanur Kristjánsson
Jóhanna Rannveig Jánsdóttir spilar á fiðlu fyrir gesti. Mynd: Magnea Dröfn Hlynsdóttir
Magnea Dröfn Hlynsdóttir veitti verðlaunin fyrir hönd Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd Strandabyggðar. Mynd: Svanur Kristjánsson
Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar og Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir formaður Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefndar Strandabyggðar. Mynd: Salbjörg Engilbertsdóttir

Fyrri verðlaunahafar eru þessir:
2021 Arnkatla, lista- og menningarfélag
2020 Jón Jónsson
2019 Leikfélag Hólmavíkur
2018 Dagrún Ósk Jónsdóttir og Náttúrubarnaskólinn
2017 Steinshús
2016 Sauðfjársetur á Ströndum
2015 Sigríður Óladóttir
2014 Leikfélag Hólmavíkur
2013 Sauðfjársetur á Ströndum
2012 Einar Hákonarson
2011 Þjóðfræðistofa
2010 Samstarfsverkefni grunn- og tónskóla og leikfélags

Sérstök viðurkenning hefur verið veitt eftirtöldum:
2021 Svavar Knútur Kristinsson
2020 Kristín Einarsdóttir
2019 Sunneva Þórðardóttir
2017 Esther Ösp Valdimarsdóttir
2016 Sigríður Drífa Þórólfsdóttir og Birkir Þór Stefánsson
2013 Viðar Guðmundsson
2010 Sigurður Atlason

Heiðursverðlaun hafa verið veitt eftirtöldum:
2018 Ása Ketilsdóttir
2015 Galdrasýning á Ströndum
2012 Sauðfjársetur á Ströndum
2011 Leikfélag Hólmavíkur

Nýjustu fréttir og greinar

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.