Hagræðingaraðgerðir Strandabyggðar opinberaðar

Skrifað af:

Ritstjórn

Hólmavík. Mynd: Silja Ástudóttir

Sveitarstjórnarfundur var haldinn í Strandabyggð í gær 9. nóvember. Þar var fyrsta mál á dagskrá fjárhagsáætlun ársins 2022 og 3ja ára áætlun 2023-2025, fyrri umræða. Þar leggur sveitarstjórnin fram greinargerð um þær hagræðingaraðgerðir sem ráðist hefur verið í á árinu 2021 og í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár.

Samningur við ráðuneyti

Í greinargerðinni kemur fram að sveitarfélagið Strandabyggð hafi gert samning við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið í vor sem skuldbatt sveitarfélagið til að hagræða í rekstri en áætlun hljóðaði upp á 53 milljóna gat í rekstrinum. Á síðustu árum hefur þó verið farið í ýmisskonar hagræðingu s.s. skerðing á þjónustu með styttingu opnunartíma á Hólmavíkurhöfn og íþróttamiðstöðvarinnar á Hólmavík, mötuneytissamningur lækkaður og framkvæmdum frestað. Þá hafi sveitarstjórnin afþakkað launahækkanir og ekki ráðið í starf sveitarstjóra sem sagt var upp störfum í vor.

Trúnaði aflétt af hagræðingaraðgerðum

Á aukasveitarstjórnarfundi 29. september voru samþykktar hagræðingaraðgerðir til þess að draga enn frekar úr rekstrarútgjöldum með það að markmiði að hagræða til lengri tíma. Þessar aðgerðir voru bókaðar sem trúnaðarmál og segir í fundargerðinni að með greinargerðinni sé þessum trúnaði aflétt um þær aðgerðir sem þegar eru komnar til framkvæmda.

Laun stærsti hluti útgjalda Strandabyggðar

Á fundinum var lögð fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun Strandabyggðar fyrir árið 2022 og þriggja ára áætlun fyrir 2023-2025. Fjárhagsáætlunin byggir á forsendum Þjóðhagsspár Hagstofu Íslands um aukinn hagvöxt, stöðuga vísitölu neysluverðs, hækkun launavísitölu um 5,4% á næsta ári en fari síðan lækkandi. Þá sé stór hluti kjarasamninga lausir sem sveitarfélög eru aðilar að en laun eru stærsti hluti útgjalda Strandabyggðar og að áætlun 2023 – 2025 byggi einungis á forsendum Hagstofunnar um þróun launavísitölu en annar rekstrakostnaður við þróun á vístölu neysluverðs.

Gert að fá utanaðkomandi ráðgjöf

Fjárhagsáætlunin er unnin undir kvöðum samnings sveitarfélagsins við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sem kveður á um að sveitarfélagið fái utanaðkomandi ráðgjöf um að greina rekstur sveitarfélagsins og var fyrirtækið Ráðrík ehf. fengið til þess. Einnig var stuðst við önnur gögn sem þegar var búið að vinna s.s. skýrslu KPMG og minnisblað Strandabyggðar til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, frá desember 2020. Þegar búið var að skoða rekstur sveitarfélagsins fyrir árið 2020 og það sem af er ári 2021 varð ljóst að grípa þurfti til frekari hagræðingaaðgerða.

Hækkun á útsvarsprósentu og fasteignaskatti

Á áætlunartímabilinu 2022-2025 eru ekki áætlaðar miklar breytingar hvað varðar efnahagsskilyrði, uppruna útsvarstekna, atvinnuástand og mannfjöldaþróun í Strandabyggð. Opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónusta er langstærsta undirstaða útsvarstekna. Þá er áætlað að með hækkun útsvarsprósentu úr 14,52% í 14,95% aukist tekjur um 7.8 milljónir 2022.

Fram kemur að fasteignamat hækki um 7% við álagningu fasteignagjalda og að álagning á fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði hækki úr 0,5% í 0,65% og á atvinnuhúsnæði úr 1,51% í 1,65%. Tekjuaukning vegna þessarar hækkunar nemur um 6.8 milljónir 2022.

Framlög Jöfnunarsjóðs

Í greinargerðinni kemur fram að Strandabyggð er háð framlögum frá Jöfnunarsjóði og framlög sjóðsins hafa verið að jafnaði 45-50% af tekjum sveitarfélagsins undanfarin áratug. Áætluð framlög Jöfnunarsjóðs til Strandabyggðar á árinu 2022 eru áætluð tæpar 212 milljónir.

Hækkað gjald í tónskóla

Um aðrar tekjur sveitarfélagsins segir að gjaldskrár hækki almennt miðað við vísitölu neysluverðs. Þá eru skólamáltíðir innheimtar með mánaðrgjaldi sem er breyting og gjaldskrá tónskóla verði endurskoðuð og hækkuð.

Ekki þjónustuskerðing á lögbundinni þjónustu

Í greinargerðinni segir að rekstur grunn- og leikskóla sé stærsta einstaka verkefni sveitarfélagsins og ráðgjafafyrirtækið Ásgarður var fengið til að gera úttekt á starfsmannaþörf í sameinuðum skóla grunn- og leikskólans. Lagt var upp með að skerða ekki lögbundna þjónustu grunnskólans en ekki heldur þjónustu í leikskóla.

Breytingar í stjórnun skóla og fækkun stöðugilda

Á grundvelli tillagna frá ráðgjöfum ákvað sveitarstjórn á aukafundi sínum þann 29. september sl. að hagræða í fræðslumálum og rekstri sameinaðs grunn-, leik- og tónskóla Strandabyggðar. Úttektin leiddi í ljós að mönnun í kennslu í grunnskóladeild væri í samræmi við þörf en ákveðið að minnka stjórnunarhlutfall innan skólans og leggja niður stöður aðstoðarskólastjóra í grunnskóla, leikskóla og tónskóla. Í stað þeirra eru nú deildarstjórar yfir sérkennslu, leikskóla og tónskóla. Varðandi stöðugildi annars starfsfólks varð niðurstaðan sú að stöðugildum fækkar samtals um tæplega þrjú.

Stjórnunarbreytingar urðu í leikskóla, grunnskóla og tónskóla Hólmavíkur. Mynd Silja Ástudóttir

Sameinuð störf í íþrótta- og æskulýðsmálum

Fram kemur að gerðar verði skipulagsbreytingar varðandi störf í íþrótta- og tómstundamálum og starf forstöðumanns í Íþróttamiðstöð og starf tómstundafulltrúa verði sameinað 1. febrúar 2022 og nýtt starf verði auglýst.

Áætluð lækkun launakostnaðar vegna breytinga í skóla og íþrótta- og æskulýðsmálum eru rúmar 24 milljónir.

Samstarfssamningar endurskoðaðir

Þá er ýmst verið að eða á döfinni að endurskoða og fara yfir ýmsa samstarfssamninga sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög með hagræðingu í huga. Þetta eru samningar um félagsþjónustu, skipulags- og byggingarmál, brunavarnir og sorpsamlag.

Framkvæmdir háðar stuðningi ráðuneytis

Í greinargerðinni segir að ákvörðun um framkvæmdir á árinu 2022 muni verða tekin við 2. umræðu um fjárhagsáætlun en þá muni vonandi liggja fyrir hvort ráðuneytið haldi áfram að veita sveitarfélaginu sérstakan stuðning.

Kallað eftir sértækum aðgerðum stjórnvalda

Þá er fjallað almennt um rekstrargrundvöll fámennra sveitarfélaga og nauðsyn þess að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Stjórnvöld verði að grípa til sértækra aðgerða og uppbyggingar sem leiði til innspýtingar í atvinnulíf á svæðum sem eiga í vök að verjast.

Greinargerðina má lesa í heild sinni hér.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Jólamarkaður verður í Hveravík í dag, laugardaginn 4. des. Markaðurinn stendur frá 13-17 og þar verður ýmislegt fallegt og girnilegt til sölu.
Viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff sem brenndist alvarlega í eldsvoða árið 2019. Hún deilir reynslu sinni til að efla umræðuna á sviði forvarna.
Matkrókurinn kynnir matgæðinga á Ströndum sem deila uppáhalds uppskriftunum sínum. Helga Gunnarsdóttir deilir jarðarberja- og Baileys tertu.
Eiríkur Valdimarsson er ekki veðurfræðingur en hann hefur lengi velt fyrir sér alþýðlegum veðurspám. Kristín okkar ræddi við Eirík um veðrið.
Barnakór Strandabyggðar gefur út nýtt jólalag eftir kórstjórnandann Braga Þór Valsson. Þetta er í þriðja sinn sem kórinn gefur út jólalag.

Aðrar fréttir

Jólamarkaður verður í Hveravík í dag, laugardaginn 4. des. Markaðurinn stendur frá 13-17 og þar verður ýmislegt fallegt og girnilegt til sölu.
Viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff sem brenndist alvarlega í eldsvoða árið 2019. Hún deilir reynslu sinni til að efla umræðuna á sviði forvarna.
Barnakór Strandabyggðar gefur út nýtt jólalag eftir kórstjórnandann Braga Þór Valsson. Þetta er í þriðja sinn sem kórinn gefur út jólalag.
Einvalalið vestfirsks tónlistarfólks hefur tekið höndum saman og mun bjóða upp á jólatónleika á Hólmavík, Tálknafirði og Ísafirði í desember.