Gleði og gott veður á Trékyllisheiðinni

Skrifað af:

Stefán Gíslason

Keppendur í styttra hlaupinu nýlagðir af stað á Bjarnarfjarðarhálsi í gær. Fremst er sigurvegarinn Sigþóra Brynja Kristjánsd. Mynd: Aðalbjörg Óskarsdóttir

Búi Steinn Kárason og Valdís Sigurvinsdóttir voru sigurvegar í fyrsta Trékyllisheiðarhlaupinu, sem fram fór í gær á vegum Skíðafélags Strandamanna. Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir kom hins vegar fyrst allra í mark í styttra hlaupinu, Trékyllisheiðinni mini. Hlaupin fóru fram í einstakri veðurblíðu; sólin skein allan daginn og hitinn var 20°C þegar hlaupararnir komu í mark við skíðaskálann í Selárdal síðdegis í gær.

Hlaupararnir nýlagðir af stað upp á Eyrarháls við Mela. Reykjaneshyrnan í baksýn. Mynd: Stefán Gíslason

Lengra Trékyllisheiðarhlaupið var ræst við Félagsheimilið í Árnesi stundvíslega kl. 10 í gærmorgun og þaðan lögðu samtals 18 hlauparar af stað, þar af 15 karlar og 3 konur. Hlaupið var til norðurs framhjá Melum og síðan upp á Eyrarháls, áleiðis til Ingólfsfjarðar. Hæst uppi á hálsinum var svo beygt til vinstri inn á jeppaslóða sem liggur inn á Trékyllisheiði norðan við fjallið Glissu. Slóðanum var fylgt til suðurs um brúnirnar inn af Reykjarfirði, framhjá Búrfelli og áfram yfir Goðdalsá, allt niður að Bólstað í Selárdal. Þar var vaðið yfir Selá og hlaupið áleiðis inn dalinn, allt þar til hlaupið endaði við skíðaskálann eins og fyrr segir. Samtals var hlaupaleiðin rúmir 48 km og samanlögð heildarhækkun um 1.200 m.

Syðst á Eyrarhálsi, inn af Eyrardal í Ingólfsfirði. Eyrarfell framundan. Mynd: Stefán Gíslason

Búi Steinn Kárason tók forystu í hlaupinu strax í upphafi, hélt henni alla leið og kom langfyrstur í mark á 4:28:48 klst. Búi er enginn byrjandi í hlaupum, en hann vann m.a. 100 mílna (rúmlega 160 km) hlaup á Hengilssvæðinu (Hengill Ultra) fyrr í sumar. Valdís Sigurvinsdóttir frá Akranesi var fyrst í mark í kvennaflokki á 6:01:06 klst. Samtals skiluðu 17 hlauparar sér í mark, en einn neyddist til að hætta á leiðinni vegna meiðsla.

Horft út Eyrardal og út Ingólfsfjörð. Mynd: Stefán Gíslason

Styttra hlaupið (Trékyllisheiðin mini) var ræst á Bjarnarfjarðarhálsi kl. 13:00 og hlaupið eftir jeppaslóða áleiðis inn á heiðina, að vegamótum inn af Sunndal, þar sem leiðin mætir aðalleiðinni norðan af Trékyllisheiðinni. Þaðan var svo fylgt sömu leið og í lengra hlaupinu, niður í Selárdal og í mark við skíðaskálann, samtals um 16,5 km. Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir frá Akureyri tók strax forystu í hlaupinu og kom fyrst allra í mark á 1:18:28 klst. Sigþóra er í hópi sterkustu langhlaupara á Íslandi, landsliðskona í frjálsum íþróttum og m.a. Íslandsmeistari í 10.000 m hlaupi á braut. Samúel Orri Stefánsson kom fyrstur í mark í karlaflokki á 1:20:11 klst og Grétar Smári, 14 ára sonur hans, varð í öðru sæti. Samtals lagði 41 hlaupari af stað af Bjarnarfjarðarhálsinum, þar af 16 karlar og 25 konur. Öll skiluðu þau sér í mark.

Við rásmark lengra hlaupsins í Trékyllisvík í gærmorgun. Mynd: Vilberg Þráinsson

Þrjú fyrstu í hvorri vegalengd og hvorum flokki voru eftirtalin:

Trékyllisheiðin (48 km):

KarlarKonur 
Búi Steinn Kárason4:28:48 klst.Valdís Sigurvinsdóttir6:01:06 klst.
Viktor Vigfússon4:54:36 klst.Rakel Steingrímsdóttir6:49:12 klst.
Birkir Þór Stefánsson4:54:53 klst.Guðmunda Smáradóttir6:56:11 klst.
Verðlaunahafar 48 km karlar: F.v. Birkir Þór Stefánsson (nr. 3), Búi Steinn Kárason (nr. 1) og Viktor Vigfússon (nr. 2). Mynd: Aðalbjörg Óskarsdóttir
Verðlaunahafar 48 km konur: F.v. Guðmunda Smáradóttir (3. sæti), Valdís Sigurvinsdóttir (1. sæti) og Rakel Steingrímsdóttir (2. sæti). Mynd: Aðalbjörg Óskarsdóttir

Trékyllisheiðin mini (16,5 km):

Karlar Konur 
Samúel Orri Stefánsson1:20:11 klst.Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir1:18:28 klst.
Grétar Smári Samúelsson1:20:21 klst.Hulda Elma Eysteinsdóttir1:24:52 klst.
Hilmar Hilmarsson1:25:28 klst.Bryndís María Davíðsdóttir1:34:37 klst.
Verðlaunahafar 16 km konur: F.v. Bryndís María Davíðsdóttir (nr. 3), Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (nr. 1) og Hulda Elma Eysteinsdóttir (nr. 2). Mynd: Aðalbjörg Óskarsdóttir
Verðlaunahafar 16 km karlar: F.v. Grétar Smári Samúelsson (nr. 2), Samúel Orri Stefánsson (nr. 1) og Hilmar Hilmarsson (nr. 3). Mynd: Aðalbjörg Óskarsdóttir

Heildarúrslitin í hlaupinu má sjá hér.

Þátttakendur í Trékyllisheiðarhlaupinu virtust á einu máli um að hlaupið hefði heppnast einstaklega vel og að vel hefði verið staðið að öllum undirbúningi og framkvæmd. Stjórn skíðafélagsins bar hitann og þungann af öllu því starfi, en Björgunarsveitin Strandasól í Árneshreppi, Björgunarsveitin Björg á Drangsnesi og Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík lögðu einnig gjörva hönd á plóg við öryggisgæslu, auk þess sem sveitirnar sáu um drykkjarstöðvar á hlaupaleiðinni. Margir fleiri aðstoðuðu einnig við framkvæmdina á einn eða annan hátt.

Gera má ráð fyrir að Trékyllisheiðarhlaupið verði árlegur viðburður héðan í frá. Fylgist með á Facebook síðu hlaupsins.

Brött brekka utan í Eyrarfelli. Mynd: Stefán Gíslason
Rúmir 43 km að baki og tekið að halla niður í Steingrímsfjörð. Mynd: Stefán Gíslason
Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.
Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Skúla Gautason.

Aðrar fréttir

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.