Í Galdraskólanum eru sagnalistin og ímyndunaraflið nýtt til að leiða börn inn í hugleiðslu og kenna þeim leiðir til að stjórna eigin tilfinningum og viðbrögðum.
Það voru miklir töfrar í loftinu á Ströndum dagana 8. til 10. nóvember því þá stóð yfir Galdraskóli á Hólmavík. Í skólanum komu saman grunnskólabörn úr Strandasýslu og Reykhólasveit til að skapa saman töfrandi sagnaheim með seiðkonu, sagnamanni og aðstoðarfólki þeirra.
Dulmagnaðir töfrasprotar
Afraksturinn var dulmagnaðir töfrasprotar sem börnin bjuggu til og virkjuðu við eldathöfn í lok vinnunnar. Með töfrasprotagerðinni og sögunum er börnunum hjálpað við að ná stjórn á eigin tilfinningum og viðbrögðum þar sem sprotinn er verkfæri til að velja gleði og töfra. Galdraskólinn stóð yfir í þrjá daga og var grunnskólabörnunum skipt niður á dagana eftir skólastigi. Hvert skólastig fékk einn dag af töfrum og dulmögnuðum sagnaheimi.
Læra sjálfsstyrkingu með sögum og göldrum
Galdraskólinn er samstarfsverkefni Strandagaldurs sem rekur Galdrasýningu á Ströndum, grunnskólanna þriggja sem tóku þátt og listamanna og kennara frá Reykjavík. Verkefnið fékk styrk úr Barnamenningarsjóði síðastliðið ár, en vegna Covid-faraldursins hefur framkvæmdin frestast þar til nú. Áherslur Galdraskólans eru sjálfsstyrking í gegnum sköpun og leik þar sem sagnalistin er notuð til að leiða börnin inn í hugleiðslu og kenna þeim leiðir til að finna frið og tengjast sjálfum sér.
Auka menningarlega fjölbreytni á svæðinu
„Það er eitt af mikilvægustu hlutverkum Galdrasýningar á Ströndum að vinna með lista- og fræðimönnum við að auka menningarlega fjölbreytni á svæðinu og hafa um leið jákvæð samfélagsleg áhrif,” segir Anna Björg Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Strandagaldurs. „Í nýlegri stefnumótun Strandagaldurs er lögð sérstök áhersla á að vinna með skólunum í nærumhverfinu og við erum til í allskonar skemmtilegt samstarf. Við erum mjög ánægð með hvernig til tókst með Galdraskólann. Það var sérlega ánægjulegt að vinna með börnunum á svæðinu, þau eru hugmyndarík, skýr og skemmtileg, svo framtíðin er björt.”
Áður verið með Þjóðtrúarverkefni
Árið 2019 vann Strandagaldur að Þjóðtrúarverkefni með grunnskólunum í Strandasýslu sem var líka styrkt af Barnamenningarsjóði. Þá bauð Strandagaldur börnum á grunnskólaaldri í þjóðsagnaferðir með leiðsögn um Strandir. Einnig komu Ólafur Stefánsson og Arnar Ingvarsson þá í heimsókn til að halda þjóðsögustund með krökkunum, þar sem hljóð og tónlist voru notuð til að dýpka upplifunina. Arnar var á þessum tíma að þróa hugmynd um Galdraskóla fyrir börn og því var ákveðið að sækja aftur um styrk úr Barnamenningarsjóði til að koma með þann Galdraskóla á Strandirnar.