Frá Ströndum til Ítalíu í ungmennaskipti

Skrifað af:

Ritstjórn

Ungmenni úr Strandabyggð á Ítalíu. Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Ungmenni úr félagsmiðstöðinni Ozon fóru nýverið í 9 daga ungmennaskipti til Ítalíu. Erasmus+ veitti styrk til ungmennaskiptanna. Verkefnið er til þess fallið að gefa ungmennum á Ströndum tækifæri til að kynnast jafnöldrum í öðru Evrópulandi og varð Ítalía fyrir valinu.

Esther Ösp Valdimarsdóttir fyrrum tómstundafulltrúi stóð að því að fá Óla Örn Atlason frá Rannís og starfsmann Erasmus+ á Íslandi til að halda ungmennaþing á Ströndum þar sem verkefnahugmyndin var mótuð. Esther studdi ungmennin svo áfram en þau skrifuðu umsóknina alfarið sjálf.

Verkefnið heitir Small Places, Big Ideas og er hugmyndin sú að ungt fólk frá dreifbýlum svæðum, skapi svipaðar aðstæður annars staðar og hjálpist að við að móta hugmyndir og aðgerðir til að gera heimkynni sín að spennandi kosti fyrir framtíðarbúsetu eftir nám.

Ungmennaskipti á Ítalíu. Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Hrafnhildur Skúladóttir, núverandi tómstundafulltrúi fór með ungmennunum ásamt Gunnari Braga Magnússyni sem starfar hjá Ozon. Ungmennin sem fóru með í ferðina eru Kristjana Kría Lovísa Bjarnadóttir, Guðbjörg Halldórsdóttir, Valdimar Kolka Eiríksson, Ólöf Katrín Reynisdóttir, Unnur Erna Viðarsdóttir, Jóhanna Rannveig Jánsdóttir, Þorsteinn Óli Viðarsson og Árný Helga Birkisdóttir.

Um tilgang ferðarinnar sögðu ungmennin eftirfarandi í umsókninni, sem þau unnu sjálf og lærðu heilmikið af:

„Við viljum upplifa önnur samfélög, kynnast allskonar krökkum á okkar aldri úti í heimi sem búa við svipaðar aðstæður og við (í litlum bæjum). Að kynnast öðrum krökkum er mjög gott fyrir ungmenni og getur kennt okkur mikið, bæði með samskipti og tjáningu. Við viljum skoða landið, menninguna og þjóðina og ekki bara sem ferðafólk. Margir hafa ekki fengið tækifæri til að fara til útlanda og vilja fá að gera það með vinum sínum. Við höldum að ef við förum í ungmennaskipti þá munum við læra mikið af því…“

„Og sú varð raunin“, segir Hrafnhildur. „Samstarfsaðilar á Sardiniu voru Elda Mazzocchi Scarzella samtökin í Domusnovas. Góðgerðarsamtök sem hafa það hlutverk að hlúa að barna- og unglingastarfi með margvíslegum hætti í bænum. Þau halda sumarbúðir, bókmenntahátíðir, standa fyrir allrahanda vinnustofum og skipuleggja margvíslegar ferðir og keppnir.“

Ferðalagið

Hrafnhildur Skúladóttir skrifar um ferðalagið:

Við flugum beint til Rómar, átta ungmenni og tveir fararstjórar, þar sem við gistum í íbúð í miðbænum og skoðuðum eldsnöggt margt af því allra helsta sem Róm hefur upp á að bjóða. Colosseum, Spænsku tröppurnar, Péturstorgið (og Péturskirkjuna og Vatíkanið að utan), Sant‘Angelo kastalann, Pantheon og Trevi gosbrunninn. Röltum um göturnar, hlupum undan bílum sem ætluðu að keyra yfir okkur eða stungum af svartamarkaðsbraskara sem ætluðu að okra á okkur með sölu aðgöngumiða og borðuðum góðan mat!

Hópurinn á Ítalíu. Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Að því loknu flugum við til Cagliari á Sardiniu, vorum sótt á flugvöllinn af gestgjöfum okkar og eyddum næstu dögum við leik og störf með 12 manna hópi ungmenna og fylgdarfólks. Ýmiss konar hópefli og smiðjuvinna, afþreying, ævintýri og fræðsla einkenndu dagana sem voru pakkaðir dagskrá frá morgni til kvölds í hitanum sem hæst fór í 37 gráður.

Smiðjuvinna. Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Við fórum í skoðunaferðir og á ströndina, í ævintýragarð og hellaskoðun, á tónlistarhátíð og á bæjarrölt. Borðuðum góðan venjulegan ítalskan heimilismat í mötuneytinu sem komið var upp í kjallaranum hjá henni Maríu og síðast en ekki síst eignuðumst ógrynni af nýjum vinum sem munu fylgja okkur inn í framtíðina. Reynslunni ríkari og heilli Ítalíu víðsýnni.

Á ströndinni. Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Himinsæl komum við heim og hlökkum til að taka á móti þessum sama hópi fólks þann 30. ágúst nk. En þá ætlum við að fá að sýna þeim allt það besta sem Strandirnar okkar hafa upp á að bjóða.

Um Hamingjudaga, nk. föstudag og laugardag, frá kl 13 til 18, verður hægt að sjá myndir úr ferðinni okkar í félagsmiðstöðinni Ozon sem staðsett er í kjallara Félagsheimilisins, gengið inn um hliðardyrnar upp í horninu sem snýr að Íþróttamiðstöðinni. Við vonumst svo sannarlega til að fá að deila ferðahamingjunni með sem flestum svo verið hjartanlega velkomin!

Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Nýjustu fréttir og greinar

Öll sem þekkja til Steinu í Gröf vita að hún er mikið jólabarn og bókstaflega umbreytir húsinu í Gröf í fallegt jólahús á hverju ári.
„Í síðustu viku áskotnaðist undirrituðum sá heiður að taka sæti á Alþingi íslendinga fyrir Miðflokkinn.“ skrifar Högni Elfar Gylfason.
Fyrsti í aðventu er núna á sunnudaginn. Fólk er farið að hlakka til jólastússins og jólamarkaðir eru fyrir mörgum mikilvægur liður í því.
Dúllurnar verða með jólatónleika í Sævangi 19. desember. Þar ætla þær að flytja ýmis jólalög og skemmta ásamt því að góðir gestir koma.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Fyrsti í aðventu er núna á sunnudaginn. Fólk er farið að hlakka til jólastússins og jólamarkaðir eru fyrir mörgum mikilvægur liður í því.
Dúllurnar verða með jólatónleika í Sævangi 19. desember. Þar ætla þær að flytja ýmis jólalög og skemmta ásamt því að góðir gestir koma.
Laugardaginn 19. nóvember tóku nemendur Grunnskóla Drangsness þátt í tækni- og hönnunarkeppninni First Lego League í Háskólabíó.
Daníel Haraldsson sinnir hreinsun á hundum og köttum mánudaginn 28. nóvember n.k. í Áhaldahúsinu á Hólmavík milli kl. 16:00 og 18:00.