Fermd undir berum himni

Skrifað af:

Guðbjörg Guðmundsdóttir

Árný Helga var fermd undir berum himni í árlegri útimessu. Myndir: Stefán Þór Birkisson

Tröllatunga er bær sem stendur við Steingrímsfjörð á Ströndum. Þar var einnig kirkjustaður til ársins 1909 og er Tröllatungukirkju getið í kirknatali frá því um 1200 sem er ein elsta ritaða heimildin um kirkjur á Íslandi. Útimessa hefur verið haldin í Tröllatungu á Hamingjudögum undanfarin átta ár en það má með sanni segja að messan síðasta sunnudag hafi verið sérstök. 

Í messunni síðasta sunnudag, þann 27. júlí, var Árný Helga, dóttir ábúenda í Tröllatungu, þeirra Sigríðar Drífu Þórólfsdóttur og Birkis Þórs Stefánssonar, fermd undir berum himni í gamla kirkjugarðinum á staðnum. 

Eins og áður kom fram er Tröllatunga gamall kirkjustaður. Það eru þó mörg ár síðan messað var innanhúss á staðnum. Síðasta kirkjan þar var frá árinu 1848 en samkvæmt heimildum var ástand hennar orðið slæmt rúmum 50 árum síðar þegar kirkjan var aflögð. Sóknir í Tröllatungu og á Felli í Kollafirði sameinuðust snemma á 20. öld og ný kirkja var byggð skömmu síðar á Kollafjarðarnesi. Þess má geta að forn klukka úr Tröllatungukirkju er varðveitt á Þjóðminjasafninu.

Skírð og fermd á Hamingjudögum

Gamli kirkjugarðurinn í Tröllatungu stendur þó enn og innan hans hafa messurnar verið haldnar á Hamingjudögum. Sigríður Drífa og Birkir hafa lagt mikla vinnu í að halda garðinum í góðu ásigkomulagi og eru ótal handtökin þar á bak við. Garðurinn á mikilvægan sess í fjölskyldulífinu á Tröllatungu því fyrir utan að vera uppspretta ótal verkefna fyrir heimilisfólkið var dóttirin Árný Helga skírð í garðinum fyrir nákvæmlega 14 árum síðan, á Hamingjudögum árið 2007, og það var hún sem fermdist á sama stað síðasta sunnudag. Þetta var sannkölluð gleðistund og mæting með ágætum. Gestir þáðu kaffiveitingar og tónlist var flutt af Gunnlaugi Bjarnasyni sem spilaði á gítar ásamt sr. Sigríði Óladóttur og gestir tóku vel undir. Fermingarbarnið sjálft hefur verið liðtæk í tónlistarflutningi í hamingjumessum í gegnum tíðina þar sem hún hefur spilað á þverflautu. 

Fjölskyldan í Tröllatungu: Stefán Þór, Sigríður Drífa, fermingarbarnið Árný Helga, Birkir Þór og Agnes Sif, dóttir Birkis. Mynd: Denise Lucile Rix

Ekki jafn hrifin af garðinum fyrst

Sigríður Drífa var ánægð með daginn. „Þetta gekk bara ótrúlega vel og var gaman. Þegar ég kom fyrst í Tröllatungu í nóvember 2005 vakti garðurinn svona blendnar tilfinningar hjá mér. En þetta er nú minn uppáhaldsstaður segir Sigríður. Þau hjónin fluttu á staðinn að vetri til og Sigríður segir gamla kirkjugarðinn ekki hafa vakið jafn hlýjar tilfinningar þá og hann gerir núna. „Ég skal alveg viðurkenna það að ég bara þorði varla inn í garðinn og hann hreinlega vakti hjá mér ugg! Núna er þetta einn uppáhaldsstaðurinn minn. Það er einstök ró og kyrrð hérna og ég kem hingað með kaffibollann til að hlaða batteríin.“ Sjálf er Sigríður Drífa úr Þingeyjarsveit.

Verk þriggja kynslóða

En voru þau hjón alltaf ákveðin í að rækta gamla kirkjugarðinn? „Já, amma Birkis gróðursetti mikið af plöntum á sínum tíma og sinnti umhirðu garðsins til fleiri ára og Stefán sonur hennar hélt svo áfram að hirða garðinn eða allt þar til hann hafði ekki þrek til þess vegna veikinda. Plönturnar stækkuðu og erfiðara varð fyrir Stefán að hirða garðinn en hann lést í nóvember 2004. Birkir, sem er sonur Stefáns, tók svo við og óskaði eftir því að garðurinn yrði girtur af sem var svo gert annað hvort 2009 eða 2010. Þá var tekið í burtu mikið af trjánum til að koma girðingunni fyrir og notuð voru þau tæki sem strákarnir komu með til að grisja úr garðinum.“ Eftir það var farið í að jafna og slétta garðinn. Núna í dag tekur sláttur bara brot úr degi en hjónin fjárfestu í litlum sláttutraktor til að auðvelda umhirðuna. Stefán, sonur þeirra, er núna farinn að sjá um garðinn. „Við höfum átt góð samskipti við Biskupsstofu og við fáum alveg frjálsar hendur með allri umhirðu garðsins. Okkur finnst reyndar að sóknarnefndirnar mættu sýna meiri áhuga á Hamingjumessunni og umhirðu kirkjugarðanna í sveitarfélaginu. 

Hlaupa á heiðinni

Lífið í Tröllatungu er ansi fjölbreytt að sögn Sigríðar Drífu og mikið um að vera en þar er stundaður sauðfjárbúskapur. Þau hjón eiga börnin Árnýju Helgu sem er 14 ára og Stefán Þór sem er að verða 13 ára og fermist á næsta ári. Fyrir á Birkir dótturina Agnesi Sif sem býr í Reykjavík. Þessi orkumikla fjölskylda er jafnframt virk í íþróttalífinu á staðnum. Þau hjónin féllu fyrir fjallvegahlaupum fyrir nokkrum árum og gera mikið af því að stunda þau enda vel í sveit sett með Tröllatunguheiðina í næsta nágrenni. „Það eru svo miklir útivistarmöguleikar hérna. Við erum að hlaupa og að hjóla. Svo erum við að stunda gönguskíðin líka. Eiginlega bara það sem okkur dettur í hug að gera!“ 

Öll í útimessu

Leiða má líkur að því að útimessa og önnur ferming verði haldin á næsta ári á Hamingjudögum og eru sveitungar hvattir til að merkja við viðburðinn í dagatalinu. Það er jú sérstök stund þegar komið er saman í gömlum og fallegum kirkjugarði til að fagna lífinu og hamingjunni.

Þjóðfræðimolar um Tröllatungu

Eftir Jón Jónsson, þjóðfræðing á Ströndum

Sagt er að Steingrímur trölli, landnámsmaður í Steingrímsfirði, hafi búið í Tröllatungu. Þar var prestsetur til ársins 1886, en kirkjustaður til 1909. Á Þjóðminjasafni Íslands er varðveitt forn klukka úr Tröllatungukirkju. Síðasti presturinn sem sat í Tröllatungu var séra Halldór Jónsson. Hann stofnaði, ásamt bræðrunum Ásgeiri og Torfa Einarssonum á Kollafjarðarnesi, lestrarfélag árið 1843 sem vann að framfara- og menningarmálum í prestakallinu með góðum árangri. Nafn bæjarins er líklega dregið af hárri fjallstungu milli Arnkötludals og Tungudals.

Í Tröllatungu hafði verið kirkjustaður frá því snemma á öldum. Tröllatungukirkju er getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 sem er ein elsta ritaða heimildin um kirkjur á Íslandi. Þar var Maríukirkja í kaþólskum sið sem þýðir að hún var helguð Maríu mey. Samkvæmt máldaga frá um 1274 átti að vera þar heimilisprestur og djákni en ella tveir prestar. Áttu þeir að syngja allar heimilistíðir og messa 2 daga í viku og dag hvern um jólaföstu. Í máldaga 1317 er aðeins talað um einn prest. Tröllatungukirkja átti samkvæmt máldögum og jarðabókum nokkrar jarðeignir, m.a. Tungugröf, Arnkötludal og Einfætingsgil í Bitru. Einnig timbur- og hvalreka og ítök í öðrum hlunnindum á mörgum jörðum til viðbótar.

Síðasta kirkjan í Tröllatungu var timburkirkja, reist árið 1848, en á Felli í Kollafirði stóð síðast timburkirkja sem var reist 1872. Árið 1906 var samþykkt að sameina sóknir þessara kirkna og tveimur árum síðar var Kollafjarðarnes keypt undir kirkjustað og prestsetur. Þar var svo reist ný kirkja sumarið 1909 og vígð um haustið. Síðasta kirkjan í Tröllatungu var byggð úr rekaviði. Yfirsmiður var Magnús Gunnlaugsson (1794-1876) skipasmiður og beykir og með honum störfuðu Sakarías Jóhannsson á Heydalsá og Hjálmar Jónsson. Magnús var einnig yfirsmiður þegar Árneskirkja í Trékyllisvík sem enn stendur var reist tveimur árum seinna. Á hvorri hlið kirkjunnar voru þrír níu rúðu gluggar og hlerar fyrir þeim. Þakið og stafnarnir voru tjörguð í upphafi. Hún var snemma máluð að utan og þótti mikil nýjung í kirkjubyggingum, listar um glugga voru ljósbáir og súgborð undir þakskeggi rautt. Veggirnir voru málaðir hvítir. Á þessum tíma voru örfá hús máluð að utan í Reykjavík. Ástand kirkjunnar á Tröllatungu var bágborið þegar hún var aflögð, árið 1899 var hún sögð hrörleg, lek og tæpast fokheld.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið

Nýjast

Útsýnið frá Malarhorni er einstakt: þar sést perla fjarðarins, Grímsey. Þaðan er hægt að fara í eyjuna, skoða lunda og fara á sjóstöng.
Nábrókin er smáhátíð sem haldin er um verslunarmannahelgina í Trékyllisvík í Árneshreppi. Mýrarbolti og fjárhústónleikar.
Kaldalónstónleikar og útgáfuhóf bókarinnar Minningarrit um Jón Hallfreð Ingvarsson verður í Dalbæ á Snæfjallaströnd um verslunarmannahelgina.
Starfsfólk Strandabyggðar er nú margt komið í sumarfrí eins og margur landinn. Hér er hægt að sjá sumarlokanir stofnana sveitarfélagsins.
Í gær voru veittar auknar strandveiðiheimildir sem þýðir að tryggt er að kvótinn klárist ekki á tímabilinu en sumarið hefur verið ótíðasamt.
Sögurölt safnanna í Dölum og á Ströndum halda áfram. Á fimmtudag kl. 20, verður rölt um Tungugröf á Ströndum. Öll eru hjartanlega velkomin.

Aðrar fréttir

Strandir.is er fyrst og fremst vefur alls Strandafólks en einnig fyrir ferðafólk og aðra velunnara sem upplýsinga- og fréttamiðill.
Jón Geir Ásgeirsson, skipstjóri Strandferða segir að sumarið líti vel út og að nú þegar sé talsvert búið að bóka ferðir hjá þeim.
Kyrrðarkraftur er nýtt endurhleðslusetur á Hólmavík fyrir fólk sem vill byggja sig upp og temja sér jákvætt hegðunarmunstur.
Nú um páskana hefjast framkvæmdir að nýju við Krossneslaug í Árneshreppi en verið er að stórbæta aðstöðu við laugina.
Scroll Up