Fengu styrk til veiða og vinnslu á grjótkrabba: „Viljum skapa verðmæti“

Skrifað af:

Guðbjörg Guðmundsdóttir

Hafgustur ehf fékk styrk til að veiða og fullvinna grjótkrabba. Mynd: Aðsend

Tilkynnt var í gær um úthlutun úr Matvælasjóði. Í einum styrktarflokknum, Báru, hlaut ný útgerð á Hólmavík, Hafgustur ehf., þriggja milljóna króna styrk til fullvinnslu á grjótkrabba.

Það eru þeir Hafþór Torfason og Ágúst Óskar Vilhjálmsson sem standa að Hafgusti og er nafnið sett saman úr nöfnum þeirra. Hafþór, frá bænum Broddadalsá, er með 24 metra skipstjórnarréttindi og Ágúst, frá Hólmavík, er með vélstjórnarréttindi. Þeim félögum varð vel til vina þegar þeir voru á rækju fyrir nokkrum árum.

Byrjuðu á tilraunaveiðum

En hvernig kom þetta til allt saman? „Hafþór og Ágúst hvoru að velta fyrir sér krabbaveiðum á sama tíma og hugmynd um mögulega krabbavinnslu kom fram á fyrsta íbúaþingi Sterkra Stranda,“ segir Sigurður Líndal, verkefnisstjóri Sterkra Stranda en hann hefur verið Hafgusti innan handar við hugmyndavinnu og öflun styrkfés. „Fyrsta mál á dagskrá var að gera tilraunir á krabbaveiðum en til þess fékk Hafgustur milljón króna styrk úr Frumkvæðissjóði Sterkra Stranda.“

Ágúst Óskar Vilhjálmsson og Hafþór Torfason. Mynd: Aðsend

Báturinn Blær

Næst var fundinn bátur sem hentaði í krabbaveiðar og fékk Hafgustur lán úr nýjum sjóði Byggðastofnunar sem er ætlaður útgerðum í brothættum byggðum. Þetta var í fyrsta sinn sem var úthlutað úr sjóðnum. Báturinn Blær ST-85 var þá keyptur en að sögn Hafþórs nýtist hann einnig við veiðar á öðrum tegundum. „Á Blæ er hægt að veiða á handfæri og við erum að setja upp dragnótarbúnað. Við erum svo nýbúnir að fá bátinn, höfum farið einn ufsaróður á handfæri en þurfum að útbúa hann betur.“ Til krabbaveiða eru notaðar gildrur sem vitjað er um vikulega, um það bil.

Hafþór Torfason, annar af stofnendum Hafgusts, ásamt syni sínum. Mynd: Aðsend

Nam land fyrir 15 árum

Grjótkrabbi nam hér land í Hvalfirði árið 2006. Talið er líklegast að tegundin hafi borist hingað til lands á lirfustigi í kjölfestuvatni skipa. Vaxtarhraði íslenska stofnsins gefur til kynna að hann þrífist vel við Ísland en sífellt er verið að rannsaka hugsanleg áhrif krabbans á sjávarvistkerfin. Krabbaveiðar hafa ekki verið stundaðar í atvinnuskyni hér, nema á allra síðustu árum. Þegar skoðaður er landaður afli fyrir allt landið síðasta árið er hann rúm 33 tonn. Afurðirnar hafa verið seldar á veitingastaði en komu á markað í fyrsta sinn á síðasta ári til neytenda í verslunum og þá sem kjöt fyrir súpu.

Vantar húsnæði fyrir vinnsluna

„Fyrsta skrefið er að komast að því hvort þetta sé fýsilegt og hvort hægt sé að þróa vöru þar sem hægt er að eiga virðiskeðjuna frá byrjun til enda. Jafnvel verðmæta lúxusvöru,“ segir Sigurður. Styrkurinn úr Matvælasjóði mun helst nýtast til vöruþróunar. „Þetta er því algjör tilraunastarfsemi,“ segir Hafþór. „Það sem við vitum núna er að krabbinn er í Steingrímsfirði, mest fyrir framan höfnina, eins í víkinni niður af sveitarstjórnarhúsinu og út með firðinum að Smáhömrum,“ segir Hafþór. Það sé algjör plús að þurfa ekki að eyða of mikilli olíu í slíkar tilraunaveiðar. „Það mætti þó vera meira af honum og hann mætti vera stærri, við höfum ekki fengið marga sem við myndum flokka sem stóra. Stærstu krabbarnir eru kannski ekki komnir hingað ennþá. Kannski verðum við að bíða, en þá komumst við allavega að því.“ Hann segir verkefnið núna snúast um að skapa verðmæti. „Við viljum helst reyna að gera það á Hólmavík, ef við fáum húsnæði undir vinnsluna. Við þyrftum ekki stórt húsnæði.“

Krabbaveiðar hafa ekki verið stundaðar í atvinnuskyni hér, nema á allra síðustu árum. Mynd: Aðsend

Reykt krabbakjöt og bragðgott duft

Á Skagaströnd er starfrækt svokölluð Vörusmiðja. Sigurður segir staðinn henta vel, sérstaklega þegar siglt er með afla, og að þar sé tæknilega fullkomið tilraunaeldhús ásamt kokki og sérfræðingum til staðar sem geti aðstoðað. „Hver er neytendavaran á endanum? Það er hægt að selja kjötið til veitingastaða og það er algengt úti í heimi að selja hann í niðursuðudósum en það er mikið og langt ferli. Stefnan er tekin á að sjá hvernig gengur að þurrfrysta hann í duft sem hægt er þá að nota sem kraft í súpur og svo að reykja kjötið og selja sem álegg.“

En hvernig bragðast grjótkrabbi? Hafþór verður fyrir svörum. „Já, ég hef smakkað hann! Hann er mjög svipaður og humar en ef til vill örlítið bragðdaufari. Það er mikil fyrirhöfn að ná honum úr skelinni en þá er bara að æfa sig.“

Um styrkinn

29 verkefni hlutu styrk úr Báru af 124 umsóknum. Styrkjum úr Matvælasjóði úthlutar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Hægt er að lesa meira um sjóðinn á síðu Stjórnarráðsins: Matvælasjóður

Heimildir

Heimildir um grjótkrabba eru fengnar af vef Náttúrustofu.

Heimilidir um skráðan afla eru fengnar af vef Fiskistofu.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Þorgeir Pálsson ritari í stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða fer yfir stöðuna hvernig ferðasumarið 2021 var á Ströndum.
Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur flutti á Strandir frá Reykjavík og hefur fundið flestum áhugamálum sínum farveg í Hveravík þar sem hún býr.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.

Aðrar fréttir

Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.
Ekki var hægt að halda aðalfund í Leikfélagi Hólmavíkur vegna manneklu. Stjórnin biðlar til íbúa að taka höndum saman og mæta á aðalfund eftir viku.