Nú styttist í vorið og einungis 20 dagar í sumardaginn fyrsta sem er 22. apríl.
Með hækkandi sól eru farfuglarnir byrjaðir að tínast til landsins. Heiðlóan sást í fjörunni á Stokkseyri 28. mars sl., pálmasunnudag og í dag heyrðist í henni hér á Ströndum, í Bakkagerði í Kaldrananeshreppi. Koma lóunnar hefur löngum verið talinn vorboði mikill.
Tjaldurinn kom fyrir nokkru síðan og hefur sést víða á Ströndum. Grágæs, álftir, þrestir og ritur hafa sést á svæðinu undanfarið og nokkrir lundar eru mættir í Grímsey.
Hafdís Sturlaugsdóttir, bóndi í Húsavík sá brandönd í morgun á Tungugrafarvogunum og ein grágæs var komin í túnið í Húsavík, ásamt því að fleiri gæsir hafa sést þar á sjónum. Í gær voru svo tveir þrestir í kringum Húsavíkurbæinn.
Það er greinilegt að vorið er rétt handan við hornið.