Fallið frá áfrýjun í dómsmáli Þorgeirs gegn Strandabyggð

Skrifað af:

Ritstjórn

Sveitarstjórnarskrifstofa Strandabyggðar. Mynd: Silja Ástudóttir

Ný sveitarstjórn Strandabyggðar ákvað í dag að falla frá áfrýjun í dómsmáli Þorgeirs Pálssonar gegn sveitarfélaginu sem fyrri sveitarstjórn sótti um leyfi til. Landsréttur er nýbúinn að fallast á áfrýjunarbeiðnina þar sem úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi.

Sveitarstjórnarfundur 1333 í Strandabyggð var haldinn í dag og er það annar fundur nýrrar sveitarstjórnar. Fyrsta mál á dagskrá var áfrýjunarbeiðni í dómsmáli Þorgeirs Pálssonar gegn Strandabyggð. Fyrrverandi sveitarstjórn sótti um leyfi til áfrýjunar dómsins til Landsréttar. Landsréttur féllst á áfrýjunarbeiðnina þar sem úrslit málsins hefur verulegt almennt gildi auk þess að ekki er útilokað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að dómi héraðsdóms kunni að vera breytt sem einhverju nemi.

Ekki var eining um þetta mál í nýrri sveitarstjórn og létu báðir listarnir, A listi og T listi gera bókanir þar sem sjónarhorn þeirra komu fram. Ný sveitarstjórn samanstendur af Þorgeiri Pálssyni oddvita T-lista, Sigríði G Jónsdóttur varaoddvita T-lista, Jóni Sigmundssyni T-lista, Matthíasi S Lýðssyni A-lista og Hlíf Hrólfsdóttur A-lista. Þorgeir Pálsson vék af fundi og Guðfinna M Sævarsdóttir kom inn sem varamaður og Sigríður G Jónsdóttir tók við fundarstjórn.
A-listi lagði til að dómsmálið yrði lagt fram til áfrýjunar í Landsrétti og telja það mikilvægt að fá úr því skorið á æðra dómstigi fyrir báða málsaðila vegna fordæmisgefandi úrskurðar. Tillagan var felld með 3 atkvæðum T-lista gegn 2 atkvæðum A-lista.

Listarnir tveir lögðu fram eftirfarandi bókanir um málið:

Bókun T- lista

“Lagt er til að sveitarfélagið falli frá áfrýjun til Landsréttar á dómi héraðsdóms Vestfjarða í héraðsdómsmálinu nr. E-136/2021; Þorgeir Pálsson gegn Strandabyggð. Með fyrrgreindum dómi héraðsdóms var sveitarfélagið alfarið sýknað af kröfu Þorgeirs vegna greiðslu biðlauna vegna starfsloka hans hjá sveitarfélaginu í apríl 2021 en gert að greiða honum kr. 500.000.- í miskabætur vegna framkvæmdar uppsagnarinnar. 

Frá því að fyrri sveitarstjórn Strandabyggðar tók ákvörðun um að óska eftir leyfi Landsréttar til áfrýjunar á fyrrgreindum dómi hafa orðið breytingar á skipan sveitarstjórnar, m.a. er fyrrverandi sveitarstjóri nú oddviti nýrrar sveitarstjórnar. Framhjá þessari staðreynd verður ekki litið en telja verður það afar óeðlilegt að sveitarfélagið standi í kostnaðarsömum málaferlum við kjörna fulltrúa sína.

Þá er einnig til þess að líta að þeir fjárhagslegu hagsmunir sem undir eru í málinu eru í sjálfu sér óverulegir og réttlæta einir og sér ekki áfrýjun málsins. Viðbúið er, óháð hugsanlegri niðurstöðu málsins fyrir Landsrétti, að kostnaður sveitarfélagsins af frekari málaferlum geti orðið hærri en dæmd krafa í málinu.

Með ákvörðun um að una niðurstöðu héraðsdóms í málinu og láta þar með staðar numið varðandi fyrrgreindan ágreining fyrrverandi sveitarstjóra og fráfarandi sveitarstjórnar er jafnframt horft til mikilvægis þess að ákvörðunin stuðli að sátt og einingu í sveitarfélaginu. Öllum má vera ljóst að mikilvægt er að eining og gott samstarf ríki við stjórn sveitarfélagsins og að horft verði til framtíðar í stað þess að dvelja við ágreining fortíðar.“

Bókun A-lista

“Við teljum mjög mikilvægt fyrir báða aðila máls, sem Þorgeir Pálsson höfðaði gegn Strandabyggð, að fá endanlegan úrskurð á æðra dómstigi. Sá dómur kynni einnig að hafa fordæmisgildi til að skýra réttarstöðu stjórnenda sveitarfélaga gagnvart vinnuveitenda sínum. Við teljum að afstaða meirihlutans fari í bága við siðareglur fyrir kjörna fulltrúa í Strandabyggð, þ.e. 2. og 5. grein, og við áskiljum okkur rétt til að leita álits nefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga samkvæmt 4. m.g.r 29. gr. sveitarstjórnarlaga 138/2011.”


Þetta kemur fram í fundargerð Strandabyggðar.

Strandir.is hefur áður birt frétt um niðurstöðu dómsmálsins má sjá hér og um áfrýjun dómsmálsins hér. Þá má lesa dóminn í heild sinni hér.

auglýsingar

Nýjustu fréttir og greinar

Í dag opnar fjölmennasta og víðfeðmasta myndlistarsýning sem haldin hefur verið á Íslandi. 23 myndlistarmenn sýna verkin sín á Ströndum.
Það styttist óðfluga í Náttúrubarnahátíð á Ströndum sem verður haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi helgina 8.-10. júlí næstkomandi.
Sjoppan á Hólmavík á 40 ára byggingarafmæli í ár, það markar einnig endalok hennar þar sem verið er að rífa hana niður þessa dagana.
Strandabyggð auglýsir þrjár lausar stöður í Grunnskólanum á Hólmavík og í Leikskólanum Lækjarbrekku á Hólmavík.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Í dag opnar fjölmennasta og víðfeðmasta myndlistarsýning sem haldin hefur verið á Íslandi. 23 myndlistarmenn sýna verkin sín á Ströndum.
Það styttist óðfluga í Náttúrubarnahátíð á Ströndum sem verður haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi helgina 8.-10. júlí næstkomandi.
Sjoppan á Hólmavík á 40 ára byggingarafmæli í ár, það markar einnig endalok hennar þar sem verið er að rífa hana niður þessa dagana.
Opinn kynningarfundur um verkefnið Verndarsvæði í byggð á Hólmavík verður haldinn á Kaffi Galdri nk. fimmtudag, 30. júní og hefst kl. 20:00.