Dýrslegt málþing á Galdrasýningunni

Skrifað af:

Ritstjórn

Furðudýr
Myndskreyting eftir nemanda í Grunnskólanum á Hólmavík.

Sum dýr eru jafnari en önnur … Um þjóðfræði og dýrin stór og smá!

Þriðjudaginn 19. október verður haldið opið málþing á Galdrasýningu á Ströndum á Hólmavík. Málþingið er haldið af Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu í samstarfi við Galdrasýninguna.

Það eru nemendur í hagnýtri þjóðfræði við HÍ sem flytja erindi sín en þau hafa verið á Hólmavík í vinnulotu undanfarið. Erindin eru afar fjölbreytt og eru öll heimsins dýr viðfangsefnið og verður veröld þeirra skoðuð frá þjóðfræðilegu sjónarhorni. Erindin fjalla um dýr og furðuskepnur í víðu samhengi og stundum sambúð þeirra við menn.

Málþingið byrjar kl.18:00 og stendur til u.þ.b. 21:00. Á Kaffi Galdri verður súpa á tilboði og drykkir fyrir þá sem vilja. Öll sem áhuga hafa eru hjartanlega velkomin.

Fyrirlestrarnir á málþinginu eru eftirfarandi:

Prestalóa, pokaönd og peningafugl!

Anna Sigríður Melsted

Æðarfuglar hafa verið friðaðir á Íslandi frá 1847 en textaheimildir um æðarfugla og æðarvarp má finna í Grágás og Jónsbók. Fuglinn er sagður nytsömust íslenskra anda. Í heimildum um æðarfuglinn og æðarrækt er tíðrætt um tengsl æðar og manns. Í þessu erindi verður rýnt í texta um æðarfugl með þjóðfræðigleraugunum og leitast við að bregða upp mynd af blikum og kollum í því ljósi.

„Í myrkri eru allir kettir eins á litinn.“ Kettir, hjátrú og þjóðtrú

Ragnheiður Ingibjörg Einarsdóttir

Stiklað á stóru um sögu kattarins í tengslum við hjátrú og þjóðtrú. Uppruni og mismunandi skoðanir tengdar kettinum sem í gegnum tíðina hefur verið bæði tilbeðinn og kenndur við djöfulinn.

Furðudýr
Myndskreyting eftir nemanda í Grunnskólanum á Hólmavík

„Þú ert feitur og latur og heimskur eins og hann pabbi þinn!“ – Orðræða um forystufé

Guðlaug G. I. Bergsveinsdóttir

Sauðfjárbændur sem rækta forystufé elska að tala um það og hefur orðræðan um það gegnum árin, eða jafnvel aldirnar, verið áhugaverð og breytileg. Hér verður stiklað á stóru gegnum hana, með sérstaka áherslu á tvo gilsfirska bændur.

Mál er að mæla

Sandra Björk Jónasdóttir

Nautgripir og sérstaklega kýr hafa verið einn af þeim stofnum dýra sem Íslendingar hafa verið hvað mest háðir í gegnum árin. Þetta samband er að mörgu leyti einstakt og á sér langa sögu, bæði í okkar veröld sem og heimi ævintýranna þar sem að þær eru oft gæddar töframætti og einhverskonar yfirnáttúrulegri hæfni. Hvernig birtast kýr og samband þeirra við okkur mannfólkið í þjóðtrú Íslendinga og hvað getur það sagt til um okkar viðhorf til þeirra?

Furðudýr
Myndskreyting eftir nemanda í Grunnskólanum á Hólmavík

Af búfé manna og þjóðsagnavætta

Þór Fjalar Hallgrímsson

Í gömlum sögnum segir svo frá, að bæði huldufólk og sæbúar rækti sín eigin kyn af búfénaði. Að sumu leyti ólík bústofnum manna en þó nógu skyld til að geta átt afkvæmi. Stundum hefur slík blöndun þótt vera kynbætur, en stundum erfðamengun.

Drekar: Hvaðan koma þeir og hvert eru þeir að fara?

Anna Ragnheiður Jörundardóttir

Drekar! Allflestir geta örugglega nefnt einn til tvo dreka úr vinsælu afþreyingarefni, nýju og gömlu, án mikilla vandræða. En hvaðan kemur hugmyndin um dreka? Og hvað er verið að gera nýtt með svona goðsagnakennda skepnu í dag? Í þessu erindi verður farið lauslega yfir kenningar um uppruna dreka og við munum skoða hvað er nýtt af nálinni hjá þessari ævintýralegu veru.

Myndskreyting eftir nemanda í Grunnskólanum á Hólmavík

„Ég pissa bara á þig, svo borðum við hana!“

Bergþóra Ólöf Bjönsdóttir

Um gómsætar glyttur og göfug ráð.Marglyttan fær lítið pláss í okkar daglega tali enda kannski ekki mikið að þvælast fyrir okkur landkröbbunum. En takist henni að minna á sig eru góð ráð dýr. Enda er hún sjálf mjög dýr. Hér verður fjallað um marglyttuna sem stingandi sársauka en líka linandi lostæti.

Dýralíf: Sveit í borg – Borg í sveit

Soffía Sæmundsdóttir

Hvað er það sem skilgreinir sveit og hvaða áhrif hafa dýr á þá skilgreiningu? Eru það sveitabæir og tún, hestar á beit, beljur í túni, kindur til fjalla? Eða íslenski fjárhundurinn sem eltir bílinn og geltir í sífellu þegar ekið er framhjá honum? En hvað með borgina? Hestar í girðingu inn á milli blokka í útjaðri borga og bæja? Hundar ganga við taum með eigendum sínum sem hreinsa upp skítinn frá þeim og setja í poka en önnur dýr leggja undir sig tún og vegi og skilja eftir sig ummerki sem blandast náttúrunni. Hvenær verður borg sveit og sveit borg?

Furðudýr
Myndskreyting eftir nemanda í Grunnskólanum á Hólmavík

Huldukindin sem varð eftir í Feneyjum

Sigrún Sandra Ólafsdóttir

Dýrleg innsýn í framlag Íslands til Feyneyjartvíæringsins árið 2007 þar sem Steingrímur Eyfjörð setti upp myndlistarsýninguna „Lóan er komin“. Á sýningunni léku íslensk þjóðtrú og menningararfur veigamiklu hlutverki og þar komu ýmis íslensk dýr við sögu.

Af böngsum og bændum: Samband bjarndýra við mannfólk í þjóðsögum Jóns Árnasonar

Anna Karen Unnsteinsdóttir

Bjarndýr skjóta reglulega upp kollinum hér á landi og hafa gert í fleiri ár en menn muna. Margar sögur hafa orðið til um ferðir þessara dýra um byggt land, en í þessu erindi verður farið í stuttu máli yfir hvernig samband þessa tveggja dýrategunda hefur birst okkur í gegnum þjóðsögur Jóns Árnasonar.

Ást úr fjarlægð: Um breytt viðhorf borgarastéttarinnar til dýra

Guðný Ósk Guðnadóttir

Í kjölfar nútímavæðingar 19. og 20. aldar áttu miklar samfélagslegar breytingar sér stað og varð náttúran og fyrirbæri hennar börnum borgarastéttarinnar æ fjarlægari. Nýir lifnaðarhættir kölluðu meðal annars á breytt viðhorf til dýra og dýrahalds. Á sama tíma og hin nýtilkomna millistétt reyndi að temja náttúruna gerði hún jafnframt atlögu að náttúrunni í sjálfri sér.

Furðudýr
Myndskreyting eftir nemanda í Grunnskólanum á Hólmavík

„Rödd Lúmu“

Rakel Jónsdóttir

Mjólkurkýr ræðir sitt daglega líf í iðnaðar mjólkurbúi í heimildarmyndinni Cow eftir Andreu Arnold. Myndin endurspeglar ákveðna vakningu innan fræðanna á sambandi manna og dýra þar sem maðurinn er tekinn af stalli sínum sem drottnari náttúrunnar. Rætt verður í því samhengi um auknar rannsóknir á tungumálum dýra sem gerðar eru á þeirra grundvelli. Farið er í auknum mæli að viðurkenna að dýr hafi rödd, eigi sér tungumál sem mótar félagslegt samfélag þeirra en einnig við aðrar dýrategundir eins og manninn. Maðurinn er ekki lengur álitinn vera eina hugsandi veran sem býr á jörðinni.

Dýr og daglegt líf

Andrea Diljá Edvinsdóttir

Samskipti manna og dýra hafa tekið miklum breytingum síðastliðnar aldir, en hvers vegna? Hvað gera dýr fyrir okkur og hvert er hlutverk þeirra í daglegu lífi okkar? Hvernig geta þau breytt líðan og haft áhrif á okkur? Í erindinu Dýr og daglegt líf verða hlutverk dýra í daglegu lífi fólks skoðuð.

Facebook viðburður málþingsins

Myndskreytingar með þessari frétt eru unnar af nemendum í Grunnskólanum á Hólmavík.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Jólamarkaður verður í Hveravík í dag, laugardaginn 4. des. Markaðurinn stendur frá 13-17 og þar verður ýmislegt fallegt og girnilegt til sölu.
Viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff sem brenndist alvarlega í eldsvoða árið 2019. Hún deilir reynslu sinni til að efla umræðuna á sviði forvarna.
Matkrókurinn kynnir matgæðinga á Ströndum sem deila uppáhalds uppskriftunum sínum. Helga Gunnarsdóttir deilir jarðarberja- og Baileys tertu.
Eiríkur Valdimarsson er ekki veðurfræðingur en hann hefur lengi velt fyrir sér alþýðlegum veðurspám. Kristín okkar ræddi við Eirík um veðrið.
Barnakór Strandabyggðar gefur út nýtt jólalag eftir kórstjórnandann Braga Þór Valsson. Þetta er í þriðja sinn sem kórinn gefur út jólalag.

Aðrar fréttir

Jólamarkaður verður í Hveravík í dag, laugardaginn 4. des. Markaðurinn stendur frá 13-17 og þar verður ýmislegt fallegt og girnilegt til sölu.
Viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff sem brenndist alvarlega í eldsvoða árið 2019. Hún deilir reynslu sinni til að efla umræðuna á sviði forvarna.
Barnakór Strandabyggðar gefur út nýtt jólalag eftir kórstjórnandann Braga Þór Valsson. Þetta er í þriðja sinn sem kórinn gefur út jólalag.
Einvalalið vestfirsks tónlistarfólks hefur tekið höndum saman og mun bjóða upp á jólatónleika á Hólmavík, Tálknafirði og Ísafirði í desember.