Bólusetningar á morgun fyrir 12-15 ára og örvunarskammtar

Skrifað af:

Ritstjórn

Pfizer bóluefni. Mynd: Lisa Ferdinando/CC

Bólusett verður á morgun í Búðardal; seinni bólusetning, örvunarskammtar og fyrsta bólusetning fyrir 12-15 ára börn. Þessi bólusetning er einnig fyrir Strandir og Reykhóla.

Heilbrigðisráðherra féllst á dögunum á tillögu sóttvarnalæknis um að gefa börnum á aldrinum 12 til 15 ára kost á bólusetningu við Covid-19 með það að markmiði að veita þeim vörn gegn sjúkdómnum. Einnig verður boðið upp á örvunarskammt fyrir þau sem hafa fengið Jansen bólusetningu og þau sem eiga eftir að fá seinni skammt af Pfizer. Hægt er að sjá hér fyrir neðan nánari upplýsingar um bólusetningarnar á morgun.

Á vef Stjórnarráðs Íslands er sagt að 12-15 ára verði bólusett með bóluefni Pfizer „þar sem meiri reynsla er fyrirliggjandi um bólusetningar þessa aldurshóps með því efni en bóluefni Moderna sem einnig hefur fengið markaðsleyfi til notkunar fyrir börn á þessum aldri.“

Smá vegalengd fyrir suma en þjónustan góð

Í þetta skiptið þarf fólk á Ströndum og Reykhólum að fara í Búðardal til að fá bólusetningu. Það getur verið langt ferðalag sé fólk t.d. að koma úr Árneshreppi, það er þó ekki óalgengt að fólk þurfi að fara nokkurn veg fyrir bólusetningu og þakka má fyrir að ekki sé komin vetrarfærð. Þura B. Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HVE, segist gera sér fulla grein fyrir að þetta geti verið miklar vegalengdir sem fólk þarf að fara um hásumar og fólk þurfi jafnvel að missa úr vinnu til að fara sjálft eða með börnunum sínum „en ef þú vilt fá bólusetninguna og ætlar að þiggja hana þá er þetta kannski ekki það svakalegasta sem þú þarft að gera til að fá hana.“ Hún nefnir að þó fólk sé ekki að fá sprautuna upp að dyrum sé Ísland búið að bjóða upp á gríðarlega góða þjónustu í bólusetningum. Að sama skapi bendir hún á að á öllu Reykjavíkursvæðinu sé líka einungis bólusett á einum stað og að erlendis þurfi fólk oft að ferðast langar vegalengdir til að fá bólusetningu.

Lítið fjallað um það jákvæða

Þura tekur sérstaklega fram að heilsugæslurnar og starfsfólk þeirra hafi staðið sig ótrúlega vel alveg frá upphafi, álagið hafi verið gríðarlegt í þessari stétt í að verða tvö ár. Nú sé verið að bólusetja í miðjum sumarfrístíma og því enn færri að störfum en venjulega. Þuru þykir umfjöllun um jákvæðar hliðar bólusetninga í landinu vera verulega ábótavant og nefnir þar ábyrgð fjölmiðla. Telur hún að Ísland sé líklegast með þeim fremstu í heiminum þegar kemur að bólusetningum og að vel hafi gengið, miðað við mjög krefjandi aðstæður. Fréttamiðlar megi vera duglegri að fjalla um það í stað þess að einblína mest megnis á það neikvæða eða það sem betur má fara.

Bóluefnið blandað á Akranesi

Pfizer bóluefnið fyrir morgundaginn er allt blandað á Akranesi og því þarf að reyna að áætla vel hve marga skammta mun þurfa áður en haldið er af stað með það á starfsstöðvar HVE, enda dugir það einungis í um 6 klst eftir að það hefur verið blandað. Þura segir að renna þurfi svolítið blint í sjóinn með hve margir mæta hverju sinni og ekki sé hægt að blanda fullt af bóluefni sem þurfi svo kannski að henda. Ekki sé heldur hægt að boða börn beint í bólusetningu og því séu aðrar leiðir farnar, t.a.m. að auglýsa eða tilkynna í gegnum skólana. HVE munu bjóða upp á fleiri bólusetningardaga, en ekki er komin dagsetning á þá.

Flest smit af Delta-afbrigðinu

Á upplýsingafundi Almannavarna í dag kl. 11 kom fram að það eru 1.293 sjúklingar á COVID-göngudeild, þar af 45 „gulir“ sem þýðir að veikindi eru talsverð og þeir einstaklingar gætu þurft á innlögn að halda eftir frekari skoðanir. Þrír af níu sem hafa lagst inn á gjörgæslu hafa komið beint inn af götunni og í framhaldi þurft að fara beint á gjörgæslu.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir sagði á fundinum að 4-5 afbrigði hafi borið upp þessa bylgju en að nær öll smit hafi verið af Delta-afbrigðinu. „Við sjáum að bólusetningarnar eru að vernda gegn smiti og alvarlegum veikindum sem ætti að vera hvatning til að mæta í bólusetningu,“ segir Þórólfur.

Í gær greindust 119 smitaðir af kórónuveirunni. 1.302 eru nú í einangrun og 1.731 í sóttkví.

Bólusetningarnar á morgun

Föstudaginn 13. ágúst verður í boði að fá bólusetningu með bóluefni frá Pfizer fyrir eftirfarandi hópa:

  • Seinni bólusetning hjá þeim sem hafa fengið fyrri skammt af Pfizer.
  • Örvunarskammtur fyrir þau sem hafa fengið Janssen bólusetningu fyrir a.m.k. 28 dögum.
    Þau sem eru með mótefni eftir covid-19 sýkingu og hafa fengið Janssen örvunarskammt þurfa ekki að mæta í annan pfizer örvunarskammt.

Það hafa verið send út boð fyrir þessa hópa til þeirra sem áður hafa fengið bólusetningu í Búðardal eða á Hólmavík. Fólk er vinsamlegast beðið um að mæta á þeim tíma sem boðið segir til um. 

Milli kl. 12 og 13 er óbólusett fólk velkomið og einnig 12-15 ára börn á starfssvæði HVE Búðardals og HVE Hólmavíkur. Þar er átt við börn sem fædd eru á árunum 2006, 2007, 2008 og börn sem fædd eru 13. ágúst eða fyrr á árinu 2009. Foreldrar sem þiggja bólusetningu fyrir börn sín eru beðnir um að fylgja börnum sínum og þannig veita samþykki fyrir bólusetningunni. Foreldrar sitja við hlið barna sinna í bólusetningunni. Ath. að boð verða ekki send út vegna barna.

Bólusetning fer fram í sjúkrabílaskýlinu við Heilsugæslustöðina í Búðardal. Minnt er á grímuskyldu á bólusetningarstað og að allir þurfa að bíða í um 15 mínútur eftir að bólusetning hefur verið gefin.

Fyrir frekari upplýsingar má hafa samband í síma 432-1450 hjá HVE Búðardal.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.
Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Skúla Gautason.

Aðrar fréttir

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.