Bókavík lýkur um helgina

Skrifað af:

Ritstjórn

Mynd: Tom Hermans

Bókavík – bókmennta- og ljóðavika hefur verið í gangi í Strandabyggð þessa vikuna og lýkur á morgun sunnudag. Dagskráin fer að mestu fram á netinu vegna covid og samgöngutakmarkana.

Í vikunni hafa farið fram ýmsir upplestrar úr bókum, bókakynningar á nýjum bókum, viðtöl um uppáhaldsbækur og þar fram eftir götunum. Ekki er þó öll dagskrá búin og í dag spjölluðu þau Hallgrímur Helgasón og Dagrún Ósk Jónsdóttir um bók Hallgríms Koma jól? Alls kyns jólahefðir, jólasveina, jafnrétti og jól. Hér má sjá streymi frá þessum viðburði.

Fjarsvar – Áskorun á Reykhólabúa að verja titilinn

Í kvöld kl 20:00 verður svo Fjarsvar Bókavíkur á Hólmavík. Á Fjarsvari Hamingjudaga í sumar vann lið frá Reykhólum og munu þær stýra spurningakeppni kvöldsins Eva Dögg Einarsdóttir og Jóhanna Ösp Einarsdóttir. Þema kvöldsins er að sjálfsögðu bókmenntir í víðum skilningi. Jóhanna Ösp skorar á sveitunga sína að taka þátt og verja titilinn. Hún segir að fólk hangi hvort eð er á Facebook og um að gera að nýta það í eitthvað gáfulegt eins og samfjarveru. Hér er markvisst haldið í gamlar hefðir að viðhalda hrepparígnum góða, en það er nú bara í gamni en ekki alvöru þó.

Viðburðinn má finna hér

Vinningslið Reykhóla frá Hamingjudögum. Mynd: Aðsend

Aðventa – Uppáhaldsbók upplesarans

Í kvöld kl. 21:00 les svo Eiríkur Valdimarsson sinn næstsíðasta lestur á Aðventu, sögu Gunnars Gunnarssonar. Eiríkur heldur mikið upp á þessa sögu og tengir við margt enda uppalinn á sveitabæ og horfir á söguna með augum bóndans. Upptökurnar má allar finna á Facebook-síðu Bókavíkur.

Mynd: Aðsend

Í huganum heim – Guðlaug Jónsdóttir kynnir nýja bók sína

Á sunnudag kl 13 kynnir Guðlaug Jónsdóttir, oftast kölluð Didda, bókina sína Í huganum heim. Það segir hún frá uppvaxtarárum í Strandasýslu. Streymi má finna á Facebook-síðu Bókavíkur.

Hugsum heim, bók Guðlaugar Jónsdóttur. Mynd: Aðsend

Endurvinnsla á bókum – smiðja í Sýslinu verkstöð

Á sunnudaginn milli kl. 14:00 og 16:00 er hægt að taka þátt í smiðju í Sýslinu verkstöð á Hafnarbraut 2 á Hólmavík. Í smiðjunni verður hægt að búa til bókaskrín og lítil bókahús úr gömlum bókakápum og fá hugmyndir af ýmisskonar endurvinnslu á bókum. Viðburðurinn hentar hvort sem er fyrir unga sem aldna.

Hér má sjá viðburðinn.

Endurvinnsla á bókum í Sýslinu Verkstöð. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Gamla Strandamyndin mín – kynning á verkefni Sauðfjársetursins á Ströndum

Sunnudaginn 28. nóvember kl.18:00 verður vefviðburður þar sem kynnt verður eitt af verkefnunum sem Sauðfjársetur á Ströndum ætlar að ráðast í á afmælisárinu sínu á næsta ári. Um er að ræða ljósmyndabók með gömlum Strandamyndum, þar sem Strandamönnum er boðið að gerast meðhöfundar og skrifa grein bókina í tengslum við mynd sem það velur. Sagt verður frá verkefninu og því ferli sem framundan er í tengslum við það.

Hér má sjá viðburðinn

Gamlar Strandamyndir. Mynd: Sauðfjársetur á Ströndum

Eyjan hans Ingólfs – Ásgeir Jónsson kynnir nýja bók sína

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri kynnir nýja bók sína Eyjan hans Ingólfs á sunnudagskvöldi kl. 20:00 í beinu streymi. Bókin er byggð á Landnámsbók Íslands og gerir Ásgeir tilraun til að fella margar litlar sögur hennar í eina stóra Íslandssögu. Söguþráðurinn er fjölskyldusaga Ingólfs sem nam land í Reykjarvík. Þessi kynning verður í streymi á Facebook-síðu Bókavíkur.

Ásgeir og Eyjan hans Ingólfs. Mynd: Samsett
Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Um áramótin urðu kaflaskil á Hólmavík þegar Café Riis fékk nýjan eiganda. Arkitektinn Guðrún Ásla Atladóttir hefur tekið við lyklunum.
Óskar Hafsteinn, kokkur, deilir með okkur uppskrift að spari eftirrétt, sítrónu tart, sem hann gerði m.a. í sveinsprófinu sínu.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.
Auglýst er eftir tilnefningum um íþróttamanneskju ársins 2021 í Strandabyggð. Öll sem vilja geta sent inn tilnefningu.