Bjóða upp á ferskt grænmeti beint frá býli á Ströndum

Skrifað af:

Ritstjórn

Fjölskyldan í grænmetisgarðinum
Ágúst með Veigar Þorra, Guðfinna Lára og Íris Jökulrós í nýja grænmetisgarðinum. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Í Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði er sauðfjárrækt en þar er nú einnig ræktað grænmeti og selt í nærsveitum. Það er eini staðurinn sem býður upp á útiræktað grænmeti til sölu á Vestfjörðum.

Hjónin Guðfinna Lára Hávarðardóttir og Ágúst Helgi Sigurðsson eru sauðfjárbændur í Stóra-Fjarðarhorni en þau fluttu með fjölskylduna þangað árið 2016. Guðfinna er frá Kjörvogi í Árneshreppi og lærði búvísindi í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Ágúst lærði húsasmíði og búfræði frá Hvanneyri en hann er frá Birtingaholti í Hrunamannahreppi en þar bjuggu þau búi áður en þau fluttu norður. Guðfinna og Ágúst höfðu um nokkurt skeið verið að svipast um eftir jörð til sölu og voru með nokkrar í sigtinu en þegar Stóra-Fjarðarhorn kom á sölu stóð hún upp úr. Allt gekk mjög hratt með kaup á jörðinni, þau komu að skoða jörðina í september og voru flutt þangað í desember.

Stóra-Fjarðarhorn í Kollafirði á Ströndum. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Grænmetisrækt talin erfið svona norðarlega

Í Stóra-Fjarðarhorni er sauðfjárbúskapurinn fyrirferðamestur en þau eru með 700 kindur og 2 holdakýr og ala upp kálfa í nautakjötsframleiðslu. Þá eru 2 hestar, smalahundar og köttur í bústofninum. Guðfinna og Ágúst fóru að velta fyrir sér hvort ekki væri hægt að nýta betur vélakost búsins og hvort möguleiki væri á að stunda einhverjar hliðarbúgreinar. Margt var spáð og spekúlerað og meðal annars hvort hægt væri að fara út í grænmetisrækt. Það var reyndar kannski mest krefjandi hugmyndin og ekki sú auðveldasta.

Veigar Þorri, yngsta barnið í fjölskyldunni fær að koma með í garðinn. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Ráðgjafar bentu þeim á að flestir grænmetisbændur sem stunda útiræktun á grænmeti eru á Suðurlandi og ekki mikil reynsla af ræktun á þessum landshluta. En Guðfinna og Ágúst láta nú ekki segja sér hvað sé hægt og hvað ekki og þetta varð að áskorun en fleira kom til. Guðfinna segir að það hafi skipt sköpum að þau fengu styrk úr byggðaþróunarverkefninu Sterkar Strandir í fyrrasumar. Styrkurinn var til að koma upp aðstöðu til matvælavinnslu og pökkunar. „Ef ekki væri fyrir þennan styrk þá værum við ekki með pökkunaraðstöðu fyrir grænmetið.“ segir Guðfinna. Aðstaðan er einnig hugsuð fyrir vinnslu og pökkun á kjöti og kjötafurðum.

Garðurinn á Selatanga er hálfur hektari. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Uppskeran góð strax fyrsta haustið

Í fyrravor, í miðju covid, ákváðu þau að slá til og byggðu sér 12 m² gróðurhús til að forrækta í. Það var að vísu ekki fyrr en eftir sauðburð að þau fóru að sá fyrir grænmetinu þannig að væntingarnar voru ekki miklar. Þrátt fyrir hversu seint var farið af stað fengu þau uppskeru um haustið af gulrótum, blómkáli og spergilkáli en rósakálið þurfti lengri tíma. Þetta gaf ákveðnar vísbendingar og ákváðu þau í framhaldinu að skipuleggja ræktunina betur. Í vor var hafist handa við að sá og forrækta fyrir sauðburð, svo sett niður eftir sauðburð.

Gróðurhúsið fyrir forræktun á grænmetinu. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Talsvert þurfti að vinna jarðveginn fyrir garðinn en hann er á hálfum hektara á Selatanga sem er niður við sjó í sunnanverðum Kollafirði. Guðfinna segir að allt hafi sprottið mjög vel og má varla á milli sjá hvaða tegundir vaxa best í garðinum. Í ár settu þau einnig niður kartöflur. Þótt sumarið hafi verið hlýtt hefur það einnig verið þurrt svo að magn og gæði uppskerunnar kom örlítið á óvart. Þau byrjuðu að uppskera um miðjan ágúst og telja að þau verði út september, jafnvel fram í október að taka upp.

Það eru mörg handtökin við uppskeruna. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Ferskt grænmeti beint frá býli

Nú í ágúst auglýstu þau grænmeti sitt til sölu og má segja að viðtökurnar hafi verið afar góðar. Þau bjóða fólki að panta grænmetið í kílóavís á Facebook síðu sinni og keyra vörunum heim til fólks. Þau selja alla uppskeru á svæðinu Strandir og Reykhólar og eru þau einu sem bjóða útiræktað grænmeti á öllum Vestfjörðum.

Brakandi ferskt grænmeti. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Grænmetið er tekið upp í höndum og talsverð vinna við það ásamt að hreinsa og pakka og ekki síst að koma grænmetinu til kaupenda. En væri ekki hagkvæmara að selja stórverslunum í Reykjavík? „Það eru kostir við að selja stórum kúnnum í Reykjavík en það er líka skemmtilegt að vera svona nærri kúnnanum hér á svæðinu.“ segir Guðfinna. Þau hjónin eru bjartsýn á framhaldið og stefna á að prófa fleiri tegundir næsta sumar, s.s. grænkál, rófur, hnúðkál og kínakál.

Ágúst Helgi með vænan blómkálshaus. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Beint frá býli og aukin vöruþróun

En eru fleiri hliðarbúgreinar í burðarliðnum? „Já, við viljum bjóða afurðir okkar beint frá býlinu og auka vöruþróun. Við erum að gera matvælavinnsluna líka klára fyrir kjötafurðir svo það eru margar hugmyndir í gangi. Þetta styður líka hvað annað, allur afskurður og kál frá ræktuninni nýtist sem fóður fyrir kindur og kýr og ekkert fer til spillis.“ segir Guðfinna. Fjölskyldan borðar nú mun meira grænmeti en áður og krakkarnir eru líka hrifnir af nýuppteknu grænmetinu. Það má með sanni segja að fjölskyldan í Stóra-Fjarðarhorni hafi í nógu að snúast en Guðfinna og Ágúst eiga 4 börn á aldrinum 1-10 ára og fimmta barnið á leiðinni í október, svona um það leyti sem allt grænmetið er komið úr garðinum.

Hægt er að panta sér brakandi nýupptekið grænmetið á Facebook síðu Stóra-Fjarðarhorns: Úr sveitinni.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.
Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Skúla Gautason.

Aðrar fréttir

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.