23 myndlistarmenn með sýningaropnun á Ströndum í dag

Skrifað af:

Ritstjórn

Verk Lilju Sigrúnar, Fiskinesi. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Í dag, laugardag, opnar Nr. 4 Umhverfing, fjölmennasta og víðfeðmasta myndlistarsýning sem haldin hefur verið á Íslandi. Sýningin nær yfir Strandir, Dalabyggð og Vestfirði í heild sinni. 23 myndlistarmenn sýna verkin sín á Ströndum. Strandir.is hefur fengið upplýsingar frá öllum sýnendum á Ströndum og má lesa um þá hér að neðan.

Markmið verkefnisins Nr. 4 Umhverfing er ferðalag um Dali, Strandir og Vestfirði til að kynna menningu og náttúru með myndlist á hefðbundnum og óhefðbundum sýningastöðum og í samstarfi við nærsamfélagið á hverjum stað og skapa umræðu um tilgang lífs og lista. Grunnhugmyndin er að sýna verk eftir myndlistarmenn sem búa eða eiga ættir eða tengsl að rekja til þessa landshluta.

Skapararnir tengja sig á svæðinu

Myndlistarmennirnir tengja sig ákveðnum stöðum, en á margvíslegum forsendum; Þeir ýmist eiga þar beinar rætur, forfeður þeirra og mæður eiga þar einhverja sögu, jafnvel langt aftur í aldir, eða þá að þeir sjálfir hafa sótt þangað innblástur. Í þannig ferli verða til ólík listaverk með vísun til einstakrar sögu eða staðhátta eða sem sprottin eru úr ímyndunaraflinu sjálfu. Mörg þeirra verka eru algerlega staðbundin og gætu aldrei verið annarsstaðar. Þátttakendur hafa mjög mismunandi bakgrunn í myndlistinni og má segja að í þessum mikla fjölda megi finna fulltrúa margra helstu strauma og stefna í myndlist samtímans. Hér er hún aðgengileg fyrir alla á hringferð um menningarlandslag Vestfjarða, Dala og Stranda.

Hér má sjá kort yfir alla sýningarstaði.

Listi yfir alla sýnendur á Ströndum

Strandabyggð

Þóra Þórisdóttir

Matarsjálfsmyndin fyrr og nú, 2022, Blönduð tækni, gjörningur.
Kópnes eyðibýli, Kópnesbraut, Hólmavík.

Þóra Þórisdóttir sýnir verkið Matarsjálfsmynd Íslendinga sem byggir á innsýn inn í eyðibýlið Kópnes á Hólmavík þar sem stundaður var sjálfþurftarbúskapur hér áður fyrr. Þetta er verk í vinnslu, þar sem unnið er að skipulagningu um varðveislu og endurgerð húsanna, skráning sögu bæjarins, tilrauna með fortíðatengda matargerð í opnum samskiptum við áhorfendur og almenning. Fyrsti áfanginn snýr að því að grafa upp gamalt hlóðaeldhús, sópa bæinn og mæla fyrir viðgerðum. Á facebook má fylgjast með framvindu verkefnisins sem stendur yfir í allt sumar. Þar verður tilkynnt um hvenær listamaðurinn er á staðnum til að sýna býlið og segja frá verkefninu og fagurfræðilegum forsendum þess. Opnunin er á laugardaginn 2. júlí, kl 14:00.

Eyðibýlið Kópnes. Mynd: Þóra Þórisdóttir

Verkið er nokkurskonar fyrirlestur um mat sem part af sjálfsmynd þjóðar. Bakgrunnur og partur af verkinu er eyði-kotbýlið Kópnes sem vísar í sjálfþurftarbúskap fyrripart tuttugustu aldar, hvernig matarsjálfsmyndin í dag tengist ekki aðeins efnahag, stjórnmálum, trúmálum, þjóðernis- eða alþjóðahyggju, heldur einnig kapítalískum matvælaiðnaði, heilsu, umhverfismálum, siðferði, kvenréttindum samfélagsmiðlum og tísku.

Uppalin á Drangsnesi, eigandi að eyðibýlinu Kópnesi á Hólmavík.

Facebook

Ásta Þórisdóttir

Fléttur og flækjur, 2022. Blönduð tækni
Sýslið verkstöð, Hafnarbraut 2 (við veginn), útiverk.

Fléttur og flækjur er verk sem fjallar um tíma og forgengileika. Fjörurnar á Ströndum eru leiksvæði æsku minnar og í minningunni eru þær fjársjóðskistur, fullar af litfögrum netakúlum og skrítnu dótaríi úr plasti, plasti sem aldrei hverfur og brotnar niður í örplast á löngum tíma. Á sama tíma eru fléttur og skófir óratíma að vaxa og eru líka viðkvæmar fyrir mengun og í æsku fannst mér þær ekkert sérstaklega fallegar.

Fléttur og flækjur, Ásta Þórisdóttir. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Að tefla saman fallega plastinu og ljótu fléttunum langar mig að vekja hughrif hjá áhorfandanum um eitthvað fallegt sem felur í sér ljótleika og öfugt. Við nánari skoðun eru það kannski flétturnar sem eru fallegar í viðjum ljóta nylonsins. Í verkinu má einnig finna „gerfifléttur“ sem eru þrívíddarprentaðar úr plastþræði sem er búinn til úr netakúlu. Myndlíking fyrir hvernig plastið smýgur út í náttúruna og einn daginn veit maður ekki skilin á milli plasts og plöntu.

Verkið er pæling um samlífi í náttúrunni. Unnið er með staðbundið rusl og lífverur. Verkið er útiverk.
Ásta er uppalin á Drangsnesi í Kaldrananeshreppi. Býr og starfar á Hólmavík síðan 2005.

Facebook
Instagram
Vefsíða

Didda Leaman

Sesselja, 2021 -2022, Vax og gler
Neðan við kirkjuna, Hólmavík. Útiverk.

Kveikt verður á kerti daglega á meðan sýningin stendur yfir. Verkið Sesselja er byggt á frásögn Gríms Benediktssonar frá Kirkjubóli í óbirtri örnefnaskrá: Fyrir langa löngu sendu sveitayfirvöld á Selströnd/nú Kaldrananeshreppi, menn með sveitarómaga, stelpu að nafni Sesselja á báti yfir Steingrímsfjörð að Kirkjubóli, þar sem yfirvöld á Selströnd töldu hana eiga að vera á framfæri Tungusveitar. Sveitayfirvöld í Tungusveit neituðu að taka við henni, ráku mennina aftur út í bátinn og skipuðu þeim að róa til baka. Í bátnum ræddu mennirnir vanda sinn, að hafa ekki getað rekið erindi sitt og koma með stelpuna til baka. Þegar þeir komu að flæðiskeri um sex til sjöhundruð metra frá landi ákváðu þeir að skilja stelpuna þar eftir. Með aðfallinu fór skerið á kaf og drukknaði stelpan þar. Heitir skerið síðan Sesselja.

Sesselja. Mynd: Didda H. Leaman

Þegar ég fékk hugmyndina að því að vinna með Steingrímsfjörð, skerið og stelpuna Sesselju í formi logandi kertis, veitti titill ljóðasafns Charles Bukowskis mér innblástur: Burning in Water Drowning in Flame / Brennandi í vatni drukknandi í loga (þýð. DHL). Með því að brenna kerti í minningu hinnar ógæfusömu Sesselju sem var drekkt í Steingrímsfirði, þá breytist afsteypan með bráðnun, í flatneskju, eins og hafflöturinn, sem flæðir yfir skerið og felur öll ummerki. Munurinn er að bráðnunin verður ofanfrá og niður, en ekki neðanfrá og upp eins og þegar sjórinn fellur að.

Tenging mín við svæðið er í gegnum búsetu og störf á svæðinu, auk þess sem fjölskylda mín á ættir að rekja til Stranda.

Vefsíða

Solveig Edda Söebeck Vilhjálmsdóttir

Andans Umbreyting, Olía á striga, 100x140cm
Café Riis, Hólmavík.

Bæði verkin eru máluð á Ísafirði þar sem ég bjó í 5 af 9 árum mínum á Vestfjörðum. Vestfirðir eru magnaðir. Mikil náttúruorka og sköpunarkrafturinn gífurlegur. Fólkið er eins. Hrikalegt, kröftugt og umvefjandi.

Tenging mín við Vestfirðina er öll í blóði. Í móðurætt er ég frá Hólmavík á Ströndum og þykir mér undurþægilegt að stíga á jörð þar. Enn þar sem ég er ættleidd af föður komst ég að þvi að föðurblóð mitt er frá Ísafirði og Flateyri. Þangað flutti ég (til Ísafjarðar) árið 2012 og bjó í 5 ár á Ísafirði og rúm 4 ár í Bolungarvík. Kynntist ættingjum og eignaðist son.

Andans umbreyting, Solveig Edda Söbeck Vilhjálmsdóttir. Mynd: Aðsend

Vestfirðir eru magnaðir. Mikil náttúruorka og sköpunarkrafturinn gífurlegur. Fólkið er eins. Hrikalegt, kröftugt og skapandi. Myndirnar á sýningunni eru allar til sölu. 

Vefsíða

Ragnheiður Ragnarsdóttir

Minning um móður, 2022
Steinhúsið gistihús, Hólmavík.

Sýningin á Hólmavík er tenging mín við svæðið þar sem móðir mín, Svanlaug Gunnlaugsdóttir sleit barnsskónum. Hólmavík varð fyrir valinu þar sem Ósdalurinn og bærinn Ytri-Ós eru skammt undan, en þangað var henni komið í fóstur tæplega tveggja ára og þar ólst hún upp. Mamma er því komin langleiðina heim.

Vefsíða

Minning um móður, Ragnheiður Ragnarsdóttir. Mynd: Aðsend

Anna Andrea Winther og Berglind Erna Tryggvadóttir

Deig/leir: Lágmyndir
Gluggarými í Hnyðju, Þróunarsetrið á Hólmavík

Er það eitthvað ofan á brauð?, 2020 – 2022,
Þverfaglegt myndlistarverkefni um menningargildi og efniskennd brauðs á Íslandi:
pop-up bakarí, vinnusmiðjur og innsetning.

Deig/leir: Lágmyndir er hluti af þverfaglega verkefninu Er það eitthvað ofan á brauð? sem Anna og Berglind hafa unnið að síðastliðin tvö ár og er þeirra framlag til Umhverfing nr. 4. Verkið samanstendur af lágmyndum og skúlptúrum af náttúru og bæjarlandslagi Hólmavíkur sem mótuð eru í brauð. Verkin verða til á meðan á dvöl listamannanna yfir Hamingjudaga stendur. Laugardaginn 25. júní 2022 opnar sýningin og gestum verður boðið að skoða verkin og gleðjast með listamönnunum.

Umhverfing sýning
Deig/Leir: Lágmyndir. Mynd: Aðsend

„Er það eitthvað ofan á brauð?“ er þverfaglegt verkefni sem Anna Andrea og Berglind Erna hafa verið að vinna að frá árinu 2020. Í gegnum listrannsóknir skoða þær birtingarmyndir brauðs á Íslandi í samhengi við listrænt gildi þess, inntak og sögu, efniskennd og vinsældir í áranna rás. Með að vinna á mörkum myndlistar og matarlystar sýna þær fram á að brauð er menningararfur og efniviður sem hverfur stundum í hversdagsleikanum en er sannarlega þess virði að draga fram í sviðsljósið.

Anna Andrea Winther er ættuð frá Ísafirði í móðurætt og hlaut styrk frá Vestfjarðarstofu árið 2019 fyrir einkasýninguna ,,Pönnukökuverkunin“ sem var sýnd í Gallerí Úthverfu.

Berglind Erna Tryggvadóttir hefur ferðast mikið um Vestfirði og eytt tíma þar. Árið 2019 vann hún rannsóknarverkefni á íslensku hnallþórunni og dvaldi þá meðal annars um skeið á Patreksfirði við rannsóknir og sýningahald.

Guðjón Ketilsson

TÍMI – MINNING
Sauðfjársetrið á Ströndum, útiverk.

Borgarlífið einkenndist af hraða og erli. Fyrir lítinn dreng úr Reykjavík var lífið á sveitabæ innarlega í dal norður á Ströndum hinsvegar í algerum hægagangi í sumardvöl áranna 1964-1970. En tíminn þar stóð þó ekki í stað. Vitundin um tímann vaknaði. Hún tengdist bústörfunum, sólargangi, dagsljósinu, sauðburði, rúningi og öðru því er stjórnast af náttúrunni. Dagarnir og störfin á Gestsstöðum í Tungusveit voru í föstum skorðum. Eftir mjaltir voru kýrnar reknar inn á dal og önnur verkefni tóku við, hvert af öðru. Öllum störfum þurfti að sinna.

Umhverfing sýning
Tími – Minning, Guðjón Ketilsson. Mynd: Aðsend

Bærinn var einfalt hvítt, lítið steinhús með grænu bárujárnsþaki. Þar bjó, auk fjölskyldunnar, aldraður blindur maður. Gamli maðurinn hafði það fyrir reglu að ganga réttsælis hringinn í kringum húsið, kvölds og morgna, sér til heilsubótar. Á höndum bar hann þykka lopavettlinga. Blindu sinnar vegna þurfti hann að styðja sig við húsvegginn á göngu sinni.

Þessa hversdagslegu athöfn endurtók hann alla daga vikunnar, mánuðum og árum saman. Með tímanum setti hann mark sitt á hvíta húsveggina og brún línan eftir vettlinginn í brjósthæð varð sífellt dekkri og skýrari. Fyrir drengnum var línan afar forvitnileg og hann beið spenntur á hverju vori á leið í sveitina eftir því að sjá hvernig línan liti út þetta árið og hvort votta færi fyrir dæld í húsveggnum.

Báðir foreldrar fæddust og ólust upp á Hólmavík og í nágrenni. Var sjálfur í sveit hjá ættingjum á Gestsstöðum í Miðdal, Kirkjubólshreppi á árunum 1964-1968.

www.gudjonketilsson.com

Inga Þórey Jóhannsdóttir

Lóðrétt loftrými, 2022, Blönduð tækni
Flugstöðin á Hólmavík.

Verkið fjallar um mæri, þó ekki landamæri heldur loftmæri. Þegar farið er lóðrétt upp í ákveðna hæð, að þeim mærum sem lofthelgin nær til, tekur við einskismanns-rými. Rými sem engin þjóð getur gert tilkall til. Verkið vísar í ákveðna formfræði mannlega skilgreindrar mælieiningar, sem hefur jafnframt lagalegt gildi.

Tengsl mín við Strandir eru af tilfinningalegum toga, auk þess að vera meðeigandi í húseign á Hólmavík.

www.arkiv.is/artist/440

Lóðrétt loftrými, Inga Þórey Jóhannsdóttir. Mynd: Aðsend

Freyja Eilíf

Fylgigaldur, 2022, Eldur, viður & blandaðir miðlar
Galdrasýning á Ströndum

Glæringar af óútskýrðum fylgigaldri.

Ég er meðal annars ættuð af Jóni Magnússyni f. 1650 hreppstjóra á Reykjanesi í Trékyllisvíkurhreppi og Guðrúnu Bjarnadóttur f. 1760 sem var húsfreyja í Stóru-Ávík. Árið 2006 vann ég yfir sumartímann í Bjarnafirði á Ströndum og kom reglulega yfir á Hólmavík til að senda sms til vina og fara á dansiböll.

Fylgigaldur, Freyja Eylíf. Mynd: Aðsend

Vefsíða

Anton Logi Ólafsson

Brennuöld, 2022, Málning og Krumpustrigar (akrýldúkur, viður dagblöð, málning og hefti)
Málverkasería, mismunandi stærðir.

Galdrasýning á Ströndum, Hólmavík.

Formóðir mín og forfaðir minn voru brennd á báli í Selárdal árið 1678. Þuríður Ólafsdóttir og sonur hennar Jón Helgason. Þau voru ný flutt í Selárdal, úr Skagafirði. Lítið er til af heimildum er varða ástæður brennunnar, en það hefur eitthvað verið talað um að fara yfir erfiða á án þess að nota hest, með göldrum.

Brennuöld, Anton Logi Ólafsson. Mynd: Aðsend

Ég fékk að taka þátt í Nr. 4 Umhverfing vegna ættartengsla minna við Vestfirði og ég hugsaði strax til ömmu minnar Ólafar Marínar. Hún var að vestan og sagði okkur að við værum komin af nornum. Málverkin mín eru helguð minningu hennar, Þuríði Ólafsdóttur, Jóni Helgasyni og öllum fórnarlömbum Brennualdar.”

Vefsíða

Kaldrananeshreppur

Rut Bjarnadóttir

Snjóalög, 2021, Ull og akríl á striga
Hótel Laugarhóll, Bjarnarfjörður.

Verkið er í þremur hlutum (triptyk) og er um blæbrigði lífsins sem birtist í lögum sem hafa þjappast og elst, sum léttari en önnur.

Tengsl mín við svæðið: Er fædd og uppalin á Hólmavík og á þar húseign. Úr Bjarnarfirði og Laugrhóli á ég margar góðar minningar; fyrsta sundferðin, busl í Gvendarlaug, yndislegir vinir.

Vefsíða

Snjóalög, Rut Bjarnadóttir. Mynd: Aðsend

Jóhanna Þórhallsdóttir

Aurvangur, 2022, Akrýl á striga 80×120 cm
Hótel Laugarhóll, Bjarnarfjörður.

Litasinfónía náttúrunnar og galdur í morgunroðanum. 

Ég tengist Ströndum sterkum fjölskyldu-og vinaböndum. Þessi landshluti og lífsbarátta íbúanna við óblíða náttúruna hefur alltaf heillað mig.

Vefsíða

Aurvangur, Jóhanna Þórhallsdóttir. Mynd: Aðsend

Ingrid Ogenstedt

Eyri, 2022, 350 x 100 x 100 cm, Unnið í náttúruleg efni úr umhverfinu
Í landi Svanshóls, Hvíteyrarbakki, Bjarnarfjörður, útiverk.

Landslagið mótast af veðri, vindi og vötnum. Saga og umbreytingarferli landsins er sýnilegt. Til að nálgast vitund náttúrunnar þarf maðurinn að hægja á sér og vera líkamlega meðvitaður um tungumál landslagsins. Jarðvegurinn er lagskiptur og inniheldur sögur um náttúruna og fortíð mannsins . Undir yfirborðinu er stöðugt ferli, alltaf á hreyfingu, allt er í mótun.

Í stað þess að finna fyrir rómantík þegar verk eru unnin í íslensku landslagi gerir það mann frekar meðvitaðan um erfiðleika og raunir fyrri kynslóða og hversu berskjaldaður maður getur orðið fyrir afskiptaleysi náttúrunnar um líðan sína.

Eyri, Ingrid Ogenstedt. Mynd: Aðsend

Þegar unnið er með náttúruleg efni sem breytast með tímanum, rotna, vaxa eða leysast upp, getur það skapað ýmsa möguleika og um leið mörg vandamál.

Þar sem ég geri mér grein fyrir að verkið breytist með tímanum leyfi ég efninu að taka þátt í söpuninni hvað varðar form, tjáningu og tilfinningu. Hvert nýtt verk er lærdómsrík reynsla og fær mig til að skilja meira um sjálfan mig og samband mitt við.

Hefur búið á Drangsnesi í nálægð fjölskyldunnar á Svanshóli en frá árinu 2016 hefur hún unnið nokkur verk á Hólmavík. Hún lítur á svæðið sem sitt annað heimili og eignaðist sitt fyrsta barn á Íslandi.

Vefsíða

Þórunn Björnsdóttir

ROP, 2022, hljóðverk

Kaldraneskirkja, Kaldrananeshreppur

Á 17.öld voru sögusagnir um sérstakan sjúkleika hjá íbúum í Strandasýslu þegar það fór til kirkju. Ungar og ólofaðar konur urðu verst fyrir þessum óárann en hann lýsti sér m.a. í því að þær fóru að haga sér undarlega og ropa. Talið var að þessi sjúkleiki stafaði af álögum galdra. Í verkinu er leitast við að hefja upp þessa innri rödd, þennan kjarna sálarinnar sem er svo kunnuglegur en um leið svo framandi.

Fyrir nokkrum árum fékk fjölskyldan óvænt stað í hendur í fallegri vík á Ströndum. Ég hef því dvalið reglulega á svæðinu síðustu ár og kynnst ýmsu fólki en þau tengsl hafa m.a. leitt til stofnunar listafélagsins Steingrímur árið 2020. 

Þórunn Björnsdóttir. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Mireya Samper

Drangsnes, við heitu pottana útiverk.

Amma mín og afi eru bæði frá Dýrafirði.

Mireya Samper útskrifaðist með meistaragráðu frá Ecole d’Art de Luminy, Frakklandi, 1993. Hún stofnaði alþjóðlegu listahátíðina Fresh Winds 2010.

Ath. verkið verður til sýnis frá 10. júlí.

Vefsíða
mireya@mireya.is
http://fresh-winds.com/
Ljósmyndari ©Ómar Sverrisson

Verk í vinnslu. Mireya Samper. Mynd: Aðsend

Asra Rán Björt Z. Samper

Drangsnes, útiverk.

Langamma og langafi eru bæði ættuð að Vestan úr Dýrafirði.

Asra Rán Björt hefur lokið BA prófi í bókmenntafræði í Tokyo og stefnir á meistaranám i Paris.

Ath. verkið verður til sýnis frá 10. júlí.

Asra Rán Björt Z. Samper. Mynd: Aðsend

Vefsíða
asraranbjort@gmail.com
Ljósmyndari ©bozzo

Guðný Rúnarsdóttir

Hér er steinn, um stein, frá steini, til steins, 2022, jarðleir úr Bjarnarfirði, glerungur
Búðin, Drangsnes.

Fínkorna jökulleir varð til á löngum tíma, milljónum ára, við það að aldagamlir jöklar skriðu um landið. Í þeim voru steinar, hraunmolar og aska sem í tímans rás varð að dufti. Þegar jöklarnir bráðnuðu stóðu vötn eftir, sem svo þornuðu upp og eftir stendur fínkorna jökulleir.

Hér er steinn, um stein, frá steini til steins (verk í vinnslu), Guðný Rúnarsdóttir. Mynd: Aðsend

Guðný er heilluð af ferlinu sem jarðefnin fara í gegnum í tímans rás, breytast úr steinum í fínkorna jökulleir á milljónum ára sem svo er hægt að grafa upp úr jörðu og breyta aftur í stein – Guðný hefur undanfarin misseri unnið með leir af svæðinu og verk hennar á sýningunni prýðir flísar úr þeim leir.

Býr og starfar á Drangsnesi. Leirinn sem ég nota er af svæðinu (úr jörðu í Bjarnarfirði).

Vefsíða

Lilja Sigrún Jónsdóttir

Hringbroti, 2020, Ryðfrítt stál og náttúrusteinn
Fiskines, rétt utan Drangsness, útiverk.

Þrívíð brotin hringform úr ryðfríu stáli, raðað saman í endurtekningu á hæðina með stálteinum á stein eða steyptan sökkul. Hugmyndin kviknaði sem stúdía á möguleikum hrings í þrívíðu formi. Afurðin var form sem minnir á ýmsa sérkennilega sjórekna hluti, sem engin veit til hvers hafa verið notaðir.

Hringbroti, Lilja Sigrún Jónsdóttir. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Í verkinu er sama formið endurtekið og raðað saman, endurtekning sem minnir á hringrás niðurbrots og sköpunar.

Lilja Sigrún býr og starfar á Fiskinesi á Drangsnesi.

Raimonda Sereikaite

Hótel Laugarhóll, Bjarnarfjörður.

Raimonda er myndlistarmaður með aðsetur í Litháen en býr og skapar nú á Hólmavík á Íslandi. Raimonda skynjar skúlptúr sem óyrta leið til að segja flókna, marglaga sögu. Oft eru verk hennar byggð á heimspekilegri og marghliða nálgun á ólík viðfangsefni sem snúast venjulega um innri heim einstaklingsins, nútímamannsins.

Verkin fjalla um aðstæður sem erfitt er að lýsa, innri upplifun og áhrif mismunandi félagslegs og menningarlegra samhengis. Hún sækir skapandi hugmyndir úr náttúrunni og borgararkitektúr, brýtur og sundrar. Verk umorða oft listræna stíla og eiginleika hreyfinga þeirra (t.d. barokk, módernisma, popplist) og veita þannig gnægð af hlutum / skúlptúrum. Algengustu hlutir/skúlptúrinnsetningar eru gríðarstórar, óhlutbundnar, skærlitaðar, sjálfstæðar og sértækar.

Raimonda býr og starfar á Hólmavík.

Surfacing, Raimonda Sereikaite. Mynd: Aðsend

Árneshreppur

Rannveig Jónsdóttir

Feðgar, Strandir og Norðurland vestra
Verzlunarfjelag Árneshrepps, Norðurfirði.

Útsýnið nær frá Tröllakirkju á Holtavörðuheiði að Horni með Strandafjöllin á sjóndeildarhringnum; Geirólfsnúp, Reykjahyrnu, Birgisvíkurfjall, Örkina, Krossanesfjall, Kaldbakshorn og Drangajökulinn minn. Myndin sýnir samhenta feðga. Hér er ekki töluð vitleysan.

Ólst upp á Skagaströnd, þaðan er stórkostlegt útsýni á Strandafjöllin. Í æsku var Drangajökull jökullinn minn.

Feðgar, Strandir og Norðurland vestra, Rannveig Jónsdóttir. Mynd: Aðsend

Sigríður Erla Guðmundsdóttir

EINMITT, 2022, Postulín /Djúpalónsperlur
Handmótað og brennt í rafmagnsofni
Norðurfjörður, útiverk.

Um verkið: vangaveltur um sögu fólks og byggðar í Árneshreppi
Verkið verður sett upp utandyra. Á vegg ofan við hurð að gömlum vinnustað í Norðurfirði

Sigríður hefur ættartengsl við svæðið, tengd í báðar ættir til Strandasýslu, t.d. til Dranga.

Vefsíða

Einmitt, Sigríður Erla Guðmundsdóttir. Mynd: Aðsend

Stefán Karlsson

Kaffi Norðurfjörður, Norðurfirði.

Tenging mín við svæðið hefur síðastliðin ca 20 ár, verið tilfinninga og persónulegs eðlis. Ásamt endalausri aðdáun á náttúru svæðisins hef ég dvalið og starfað undanfarin átta sumur í Norðurfirði, Árneshreppi.

Urðartindur, Stefán Karlsson. Mynd: Aðsend

Nýjustu fréttir og greinar

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.