Trékyllisheiðin
Trékyllisheiðin er utanvegahlaup sem fer fram á Ströndum í annað sinn laugardaginn 13. ágúst 2022. Tvær vegalengdir eru í boði, Trékyllisheiðin ultra 48 km (um 1.200 m hækkun) og Trékyllisheiðin mini 16,5 km (um 250 m hækkun).
Tímasetning
Laugardagur 13. ágúst 2022
Staðsetning
Lengra hlaupið hefst við félagsheimilið í Árnesi í Trékyllisvík og það styttra á Bjarnarfjarðarhálsi milli Steingrímsfjarðar og Bjarnarfjarðar. Skíðafélag Strandamanna stendur að hlaupinu, en Strandagöngur félagsins eru vinsæll hluti af Íslandsgöngu Skíðasambands Íslands. Bækistöðvar félagsins eru í nýlegum skíðaskála á Brandsholti í Selárdal inn af botni Steingrímsfjarðar, u.þ.b. 16 km norðvestan við Hólmavík. Sætaferðir verða frá skíðaskálanum að rásmörkum beggja hlaupanna og bæði hlaupin enda við skíðaskálann.
Trékyllisheiðin
Trékyllisheiði er fjallvegur á milli Steingrímsfjarðar og Trékyllisvíkur á Ströndum. Leiðin yfir heiðina var greiðasta leiðin á milli þessara byggðarlaga áður en vegur var lagður meðfram sjónum norðan Bjarnarfjarðar. Heiðarleiðin er mun styttri en bílvegurinn, en liggur víðast í um 400 m hæð og er afar hrjóstrug, gróðursnauð og illviðrasöm á vetrum. Heiðin verður því sjaldan fyrir valinu sem ferðaleið ef aðrar hlýlegri standa til boða. Jeppaslóði liggur yfir heiðina, en hann er mjög seinfarinn, nema helst þegar harðfenni er yfir.