Eyvindarfjörður

Árneshreppur

Gönugleið 1-3 dagar. Erfiðleikastig (1-3): 2-3

Næsti fjörður norðan Ófeigsfjarðar er Eyvindarfjörður, hrjóstrugur og stuttur. Í botni fjarðarins fellur Eyvindarfjarðará til sjávar í stórbrotnum flúðum og fossum sem greinast í nokkrar kvíslar og mynda undurfagurt sjónarspil vatns, kletta og gróðurs. Sem betur fer er göngubrú á ánni efst í flúðunum því hún er heldur vatnsmikil til þess
að vaða hana.

Frá göngubrúnni á Hvalá eru 6,5 km að ósum Eyvindarfjarðarár um gömlu þjóðleiðina meðfram sjónum fyrir Hrúteyjarnes. Klettabásar, víkur og vogar einkenna strandlengjuna á þessum slóðum með margvíslegu fuglalífi.Gatan er nokkuð skýr þarna og á stöku stað eru stikur eða vörður. Í Ófeigsfjarðarflóa, rétt utan við Hvalá, fellur Dagverðardalsá til sjávar og þarf að vaða hana. Áin lætur jafnan lítið yfir sér en getur vaxið hratt og mikið.

Frá Hvalá að Eyvindarfjarðará eru því 13 km fram og til baka og þess vegna hægt að fara það á einum degi. Með allan viðlegubúnað á bakinu hafa þó margir farið götuna með sjónum og síðan upp með Eyvindarfjarðará allt til heiðarbrúna. Á leið upp með ánni sjást óteljandi fossar og flúðir og svo er hentugt að gista uppi á heiðinni en koma ofan með Hvalá til baka niður að göngubrúnni, og verður þannig til tveggja eða þriggja daga hringferð.

Texti af göngukorti FÍ: Árneshreppur: Norðurstrandir & gönguleiðir við Hvalá.

Hér má nálgast göngukortið.

Facebook

Instagram

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is