Vorið er komið víst á ný

Nú er aftur vor í lofti á Ströndum, sólin skín og snjóa leysir. Fuglar, fólk og sauðir taka gleði sína á ný. Í gær voru hverfisstjórarnir Þorsteinn Sigfússon og Daníel Ingimundarson komir á stjá á Hólmavík í góða veðrinu og byrjaðir að gera skurk í sinni götu í tengslum við hreinsunardaginn sem reyndar er ekki fyrr en á sunnudag. Sögðu þeir ótækt að nota ekki blessaða blíðuna. Uppi við félagsheimili voru hrepparar komnir upp á þak í morgun, eitthvað að fást við gluggann. Líklega tengjast þær framkvæmdir dægurlagakeppni í félagsheimilinu annað kvöld þar sem Hamingjulagið fyrir Hamingjudaga á Hólmavík þetta árið verður valið.

Ljósm. Jón Jónsson