Vöffluhlaðborð og fróðlegir fyrirlestrar um sveitadvöl barna

Sunnudaginn 30. apríl kl. 15:00 heimsækja tveir fræðimenn Sauðfjársetur á Ströndum til að segja frá rannsóknum á siðnum að senda börn til sumardvalar í sveit. Þetta eru Jónína Einarsdóttir prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands sem flytur erindið Úr borgarsollinum í sveitasæluna, þar sem hún rekur sögu siðarins. Jónína hefur leitt umfangsmikið rannsóknaverkefni á þessu sviði sem fjöldi fræðimanna hefur unnið að. Þá flytur Geir Gunnlaugsson prófessor í hnattrænni heilsu erindið: Varst þú sendur í sveit? Fékkstu að keyra dráttarvél? þar sem hann segir frá niðurstöðum spurningakönnunar um umfang sveitadvalar barna og reynslu þeirra af henni.

Síðastliðið haust opnuðu Esther Ösp Valdimarsdóttir mannfræðingur og Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur sýningu með yfirskriftinni Sumardvöl í sveit á Sauðfjársetrinu og er sú sýning einnig hluti af stóra rannsóknaverkefninu. Sýningin verður opin á Sauðfjársetrinu og hægt að skoða hana í allt sumar. Þess má geta að Sunneva Guðrún Þórðardóttir á Lyngholti í Skjaldfannadal teiknaði fjölda mynda fyrir sýninguna, en einnig eru á henni munir og ljósmyndir, blaðaúrklippur og textar, bækur og leikir. Sérsýningarherbergi Sauðfjársetursins er lagt undir sýninguna, en hún teygir sig einnig fram í anddyri og inn í kaffistofu og í sumar verður sýningarhluti utandyra.

Vöffluhlaðborð verður á boðstólum á Sauðfjársetrinu og kostar 1.200.- fyrir fullorðna og 800.- fyrir 7-12 ára.