Vísindaport í fjarfundi á Hólmavík

Sú nýjung hefur verið tekin upp að senda Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða út í fjarfundarbúnaði á Hólmavík. Vísindaportið er óformlegur umræðutími sem fer fram í hádeginu á föstudögum í Háskólasetrinu á Ísafirði, þar sem einhver segir í stuttu máli frá rannsóknum sínum og svo er orðið laust. Fjarfundurinn fer fram í stofu 108 í Grunnskólanum á Hólmavík í hádeginu, þann 28. september og eru allir velkomnir. Að þessu sinni er það Ian Watson sem er lektor við Háskólann á Bifröst sem segir frá Longyearbyen á Svalbarða og hefur kynningin yfirskriftina: Námuvinnsla hverfur, ferðamennska og háskólasamfélag taka við.

Longyearbyen er höfuðborg Svalbarða með 1.645 íbúa og var lengst af þekktur fyrir námuvinnslu. Undanfarin ár hefur ferðamennska átt vaxandi þátt í efnahagslífi Longyearbyens og nýlega tók einnig til starfa háskólasetur, sem er sameiginlegt verkefni fjögurra norskra háskóla.

Ian Watson var á Svalbarða í fyrra og mun sýna myndir og útskýra stuttlega hvernig takmarkaðar auðlindir, breyttir markaðir og ferskar hugmyndir hafa knúið fram breytingar í samfélaginu á Svalbarða. Ian Watson er lektor við Háskólann á Bifröst.  Hann hefur lengi haft áhuga á Norðurskautsmálum og átti frumkvæði að því að koma Bifröst í Háskóla Norðurslóða (University of the Arctic), en Háskólasetur Vestfjarða er einnig meðlimur í University of the Arctic.  Ian er með B.A. gráðu í málvísindum frá Harvard og Ph.D. gráðu í félagsfræði frá Rutgers University.

Þetta vísindaportserindi er ekki síst áhugavert vegna þess að hjá Háskólasetrinu á Svalbarða taka árlega um 350 námsmenn frá öllum heimshornum þátt í einu eða fleiri námskeiðum, en háskólasetrið þar var sett á laggirnar árið 1993. Helmingur námsmanna þar eru Norðmenn og helmingur alþjóðlegir. Þegar nýja námsleiðin hjá HSvest í Haf- og strandsvæðastjórnun (Coastal and Marine Management), sem á að byrja haustið 2008 í samvinnu við HA, var hönnuð, var reyndar höfð til hliðsjónar þessi fyrirmynd á Svalbarða: www.unis.no.