Vestfirðir eiga mikla möguleika

Aðsend grein: Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir
Fáum kemur á óvart að Vestfirðingar rísi nú upp í aðdraganda Alþingiskosninga og láta í ljósi áhyggjur sínar yfir fækkun íbúa og atvinnuástandi svæðisins. Þrátt fyrir uggvænlegt atvinnuástand og búseturöskun er margt eftirtektarvert að gerast hér á Vestfjörðum á sviði nýsköpunar, ekki síst í rannsóknum. Í rannsóknariðnaði búa gríðarlega miklir möguleikar tengdir lífvísindum s.s. fiskeldi og sköpun frekari verðmæta úr sjávarfangi. Þessi tækifæri er nauðsynlegt að nýta og styðja við á allan hátt. Ég tek undir orð Þorleifs Ágústssonar sem sagði fyrir skemmstu á íbúafundi á Ísafirði um stöðu svæðisins: „Hér er rannsóknarstofa frá náttúrunnar hendi.“ Orð í tíma töluð, þessa rannsóknarstofu þarf að fullmanna í þágu þjóðarinnar og auka þar með veg Vestfjarða á þessu sviði. Samkeppnishæfni fyrirtækja á Vestfjörðum er mjög erfið vegna landfræðilegra aðstæðna. Það merkir þó ekki að þannig þurfi það óhjákvæmilega að vera og svæðinu muni þar með blæða út smátt og smátt.

Kvótakerfið hefur orðið að skömmtunarkerfi réttinda

Sjávarþorpin á Vestfjörðum hafa ekki farið varhluta af hinu umdeilda  kvótakerfi. Þetta fiskveiðistjórnunarkerfi hafði það meginmarkmið í upphafi að stuðla að verndun, vexti og viðgangi fiskistofna við Ísland. Í sumum tilfellum er ástand stofnanna svipað eða jafnvel verra en fyrir daga kvótakerfisins. Kvótakerfið hefur þróast í þá átt að hætta að vera  fiskveiðistjórnun en verða í þess staða skömmtunarkerfi réttinda sem ganga kaupum og sölum. Veiðiheimildir eru framseldar og byggðarlögunum er ekki tryggður neinn réttur í núverandi kerfi. Þetta hefur leitt til þess að kvóti hefur horfið á brott og staðbundnir erfiðleikar skapast í atvinnumálum sjávarþorpanna. Íbúum þeirra hefur því óhjákvæmilega fækkað. Þetta ástand er ekki eingöngu á Vestfjörðum  heldur í sjávarþorpum um land allt.

Jafna þarf samkeppnisstöðu Vestfjarða

Stjórnarskráin mælir svo fyrir að ekki megi mismuna fólki eftir búsetu. 

Íbúar Vestfjarða upplifa hins vegar að þeim sé stórlega mismunað eftir búsetu. Stjórnmálamenn bera mikla ábyrgð á því og eiga að hlutast til um að mismunun eigi sér ekki stað. Bankastofnanir eru ekki tilbúnar til að veita lán til þeirra einstaklinga sem vilja fjárfesta í fasteignum eða atvinnurekstri á landsbyggðinni á sömu kjörum og á höfuðborgarsvæðinu. Við sitjum engan veginn við sama borð. Þeir nemendur sem vilja mennta sig fjarri heimabyggð eða hafa ekki tækifæri þar á námi við sitt hæfi, bera meiri kostnað af menntun sinni en aðrir. Vegakerfið og samgöngurnar eru enn langt á eftir  því sem eðlilegt getur talist. Því miður hefur fjármagn til vegagerðar á Vestfjörðum endalaust verið skorið niður og framkvæmdum frestað. Hér verður að knýja á um skjótari úrbætur. Orkukostnaður vegna húshitunar er einnig hærri en gengur og gerist og nú stendur til að hækka hann enn frekar. Flutningskostnaður er alltof hár og rýrir samkeppnisaðstöðu fyrirtækja og hækkar vöruverð til neytenda.

Trú mín á Vestfirði

Á Vestfjörðum hafa fjögur fyrirtæki fengið alþjóðlega vottun Túns um sjálfbæra landnýtingu: Þörungaverksmiðjan á Reykhólum, Kalkþörungafélagið á Bíldudal, dúnbýlið í Æðey og  nýjustu vottunina fékk  fyrirtækið Villimey á Tálknafirði. Vottun síðastnefnda fyrirtækisins nær til 80 ferkílómetra landsvæðis á Tálknafirði og Arnarfirði til söfnunar á villtum íslenskum plöntum til fjölþættrar framleiðslu á lífrænum heilsuvörum, græðikremum og snyrtivörum.  Við fyrirtæki sem þessi þarf að styðja til að þau geti blómstrað. Gefist  tækifæri til meiri fjölbreytni í atvinnulífi, samgöngur batni og enn frekari uppbygging verði að veruleika varðandi menntunar-og rannsóknastarfsemi  mun  fleira fólk kjósa Vestfirði til búsetu.

Vestfirðir eiga bjarta framtíð fyrir  sér ef rétt er á málum haldið. Þeir eru tiltölulega óspilltir hvað varðar náttúruauðlindir og umhverfi og geta laðað til sín fjölda ferðamanna og íbúa sem vilja njóta friðar og fegurðar án svifryksmengunar og  stóriðju. Hagur allra landsmanna er að virðing sé borin fyrir náttúruauðlindum okkar og hugsað til framtíðar við nýtingu þeirra. 

Núverandi ástand á Vestfjörðum breytist hins vegar varla ef ríkisstjórnin heldur velli. Við þurfum fólk til forystu sem getur komið málefnum lands og þjóðar í uppbyggilegri og traustari farveg. Við Vestfirðingar eigum skilið að fá tækifæri til að láta byggðina blómstra og halda á vit nýrra tíma og tækifæra. Við Vinstri græn erum reiðubúin til að leiða þá uppbyggingu.

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir
skipar 2. sæti VG í Norðvesturkjördæmi