Verkefni lögreglunnar um áramót

Lögreglustöðin á Hólmavík - ljósm. SAÍ fréttatilkynningu um helstu verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum yfir áramótin kemur fram að eins og annars staðar á landinu var risjótt tíðarfar um áramótin og hitasveiflur einkenndu flesta daga. Nokkur hálka myndaðist á vegum þegar rigndi á freðna jörð og nokkur umferðaróhöpp urðu vegna þessa. Tilkynnt var um slys á föstudeginum þar sem maður hafði fallið af vélsleða á Þorskafjarðarheiði en slasaðist þó ekki alvarlega. Á laugardagsmorgun var tilkynnt um vöruflutningabifreið sem hafði runnið í hálku og lokaði vegnum um Eyrarfjall. Björgunarsveitarmenn fóru frá Ísafirði ásamt vörubifreið með krana og náðu þessir aðilar að færa vöruflutningabifreiðina til þannig að hægt var að aka henni áfram og var vegurinn opnaður um miðjan dag. 

Á laugardagskvöld ók maður vélsleða á stein rétt utan við Hólmavík og kastaðist af sleðanum. Talið var að hann væri alvarlega slasaður og var hann fluttur með þyrlu á sjúkahús í Reykjavík.

Fjögur umferðaróhöpp urðu á gamlársdag á Vestfjörðum. Tilkynnt var um útafakstur á veginum um Súgandafjörð. Þar rann fólksbifreið út af veginum en engin slys urðu á fólki. Árekstur varð á Fjarðarstræti á Ísafirði þar sem tvær jeppabifreiðar lentu saman. Önnur bifreiðin, björgunarsveitarbifreið, skemmdist talsvert mikið þar sem hún hafnaði á ljósastaur í framhaldi af árekstri við hina bifreiðina. Engin slys urðu á fólki en talsvert tjón. Þá varð árekstur á Hafnarstræti á Ísafirði þar sem tvær fólksbifreiðar skullu saman og voru báðar óökuhæfar á eftir. Ökumaður annarar bifreiðarinnar var fluttur til skoðunar á sjúkrahús en meiðsl hans reyndust minniháttar. Einn ökumaður var tekinn grunaður um meinta ölvun við akstur í Bolungarvík um miðjan dag á laugardeginum. Viðkomandi var ekki með ökuréttindi og hafði hann tekið bifreiðina í óþökk umráðamanns hennar. 

Áramótabrennur voru haldnar á flestum þéttbýlisstöðum og var kveikt í þeim öllum á tímabilinu frá kl. 18:00 til kl. 20:30 á gamlárskvöld og var veður skaplegt á meðan. Hátíðarhöld í tengslum við þetta gengu vel og voru óhappalaus. Engin slys eða óhöpp voru tilkynnt á nýársnótt en nokkuð var um útköll sem tengdust ölvun og slagsmálum. Veður versnaði er líða tók á nóttina og voru björgunarsveitir kallaðar út um nóttina þegar þak fauk af húsi í Hnífsdal. Þá losnuðu járnplötur af húsi í Bolungarvík um svipað leyti og komu björgunarsveitarmenn þar til aðstoðar einnig.