Útboð á 4 kílómetrum Strandavegar

Í dag var auglýst útboð á hluta Strandavegur (643) á milli Hólmavíkur og Drangsness. Sérstaka athygli vekur að þeirri vegagerð sem eftir er á milli staðanna hefur verið skipt í tvö útboðsverk og nú eru boðin út endurlögn á 4 kílómetrum, frá Geirmundarstaðavegi í Strandabyggð að slitlagsendanum innan við Hálsgötu í Kaldrananeshreppi. Skal vegurinn vera 6,5 m breiður með bundnu slitlagi og verki að fullu lokið fyrir 1. október 2008. Enn verður þá eftir vegagerð á 2,5 kílómetra kafla frá Geirmundastaðavegi að vegamótum í Staðardal til að bundið slitlag verði á milli Hólmavíkur og Drangsness.

Helstu magntölur í útboðinu eru:

Skeringar 36.000m3
Fyllingar og fláafleygar 26.000m3
Neðra burðarlag 9.000m3
Efnisvinnsla 12.000m3
Efra burðarlag 6.000m3
Tvöföld klæðing 25.000m2
Frágangur fláa 63.000m2
Rofvarnir 4.000m3

Verki skal vera að fullu lokið fyrir 1. október 2008, en útlögn klæðingar skal þó að fullu lokið 1. september 2008. Skila skal tilboðum fyrir kl 14:00 þriðjudaginn 15. apríl 2008 og verða þau opnuð kl. 14:15 þann dag.

Líklegt verður að teljast að vegarspottinn milli Geirmundarstaðavegar og vegamóta í Staðardals sem skilin er eftir að þessu sinni verði boðinn út í einu lagi þegar þar að kemur. Vegagerðin sem eftir er á milli Hólmavíkur og Drangsness var eitt af þeim verkefnum ríkisstjórnarinnar sem skilgreint var og kynnt sem mótvægisaðgerð vegna niðurskurðar í þorskveiðum og sérstakt flýtiverkefni sumarið 2007. Áður hafði verið stefnt að verklokum í fyrsta lagi 2011 samkvæmt Samgönguáætlun 2007-2010 sem samþykkt var á síðasta þingi.

Um það bil áratugur er síðan bundið slitlag var komið á alla aðra vegi milli nálægra þéttbýlisstaða á Vestfjörðum, en þetta var á sínum tíma sérstakt baráttumál Fjórðungssambands Vestfjarða.