Undirbúa þrífösun raflínunnar til Trékyllisvíkur


Aðalfundur Orkubús Vestfjarða ohf. var haldinn á dögunum og ársskýrsla fyrirtækisins birt. Í ársskýrslu er m.a. fjallað um fyrirhugaðar framkvæmdir á þessu ári og fram kemur að í Árneshreppi verður lagður jarðstrengur frá Árnesi að melum og settar jarðspennustöðvar. Unnið verður að undirbúningi fyrir þrífösun á raflínunni frá Steingrímsfirði um Trékyllisheiði og til Trékyllisvíkur. Þá verða gerðar lagfæringar á dreifikerfinu á Borðeyri, lélegar loftlínur teknar niður og jarðstrengir grafnir í staðinn. Á síðasta ári var unnið að þrífösun á Ströndum milli Sævangs og Þorpa við Steingrímsfjörð og millispennir settur í nýtt rofahús við Þorpa.

Fréttatilkynning frá Orkubúi Vestfjarða er svohljóðandi:

"Aðalfundur Orkubús Vestfjarða ohf. var haldinn á Ísafirði 31. maí 2013.

Árið 2012 varð hagnaður af venjubundnum rekstri Orkubús Vestfjarða áttunda árið í röð. Framleiðsla vatnsaflsvirkjana Orkubúsins var sú mesta í sögu fyrirtækisins rúmar 90 GWh. Í aftakaveðri síðustu daga ársins urðu verulegar truflanir í flutnings og dreifikerfi raforku og varð að skammta raforku til orkukaupenda um tíma.

Samkvæmt rekstrarreikningi ársins 2012 varð hagnaður af venjubundnum rekstri fyrir skatta, sem nam um 349,3 Mkr., en þegar tekið er tillit til tekjuskatts og er hagnaður ársins um 279,5 Mkr..  Afskriftir námu alls 233,1 Mkr.. Eignir Orkubús Vestfjarða ohf. í árslok 2012 voru alls 6.171 Mkr. og heildarskuldir alls 812 Mkr. Eigið fé nam því alls 5.359 Mkr. sem er um 88,8 % af heildarfjármagni.

Á árinu 2012 var 413 Mkr. varið til fjárfestinga, þar af voru  tengigjöld og vinna greidd af öðrum 29,9 Mkr.. Allar fjárfestingar voru kostaðar af eigin fé fyrirtækisins eða greiddar af þeim sem þeirra óskuðu.

Að ósk eiganda Orkubús Vestfjarða var samþykkt á aðalfundi þess að af hagnaði ársins 2012 verði greiddur arður að fjárhæð 60 milljónum króna en afgangur hagnaðar verði lagður við höfuðstól og m.a. nýttur til að mæta miklum fyrirsjáanlegum kostnaði við endurnýjun og styrkingu rafdreifikerfisins.

Í stjórn Orkubús Vestfjarða ohf. voru kjörin: Viðar Helgason Reykjavík, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir Tálknafirði,
Daníel Jakobsson Ísafirði, Viktoría Rán Ólafsdóttir Hólmavík og Árni Brynjólfsson Önundarfirði.

Nýkjörin stjórn kom síðan saman til fundar og skipti með sér verkum. Viðar Helgason var kjörinn formaður stjórnar, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir var kjörin varaformaður stjórnar og Viktoría Rán Ólafsdóttir var kjörin ritari stjórnar."