Ullarþvottur á Gili

Þegar vefurinn strandir.is hóf göngu sína birtum við öðru hverju gamlar myndir til gamans og ætlum að taka upp þann sið að nýju. Hér er ein mynd úr safni Sauðfjárseturs á Ströndum. Hún er af ullarþvotti í gilinu á Einfætingsgili sennilega um 1950. Þetta er hálfgerð felumynd því á henni eru 3 manneskjur sem falla býsna vel inn í landslagið. Það er í fyrsta lagi Jón Sigmundsson á Gili sem er að ausa vatni í tunnu. Hann er hinn reffilegasti, með kaskeiti úr sólgleri sem Signý systir hans saumaði á hann. Þarna eru líka Ásdís Jónsdóttir ekki mjög gömul sem er heppilegt til að tímasetja myndina og situr í ullarbingnum og svo er Eddi að þvo í gilinu, en hann var annað hvort í sveit á Gili eða vinnumaður þar. Gaman væri að fá nákvæmar upplýsingar um hvað Eddi heitir (Eðvard).

Ljósmynd úr safni Sauðfjársetursins – líklega tekin af Signýju Sigmundsdóttur.