Tröllaskoðun í Kollafirði

Söguröltið á Ströndum og í Dölum heldur áfram og þriðjudaginn 17. júlí verður farið í Tröllaskoðunarferð í Kollafirði á Ströndum. Lagt er af stað kl 19:30 frá veginum, ofan við Drangavík, innan við túnið á Kollafjarðarnesi. Þaðan verður gengið eftir gömlum vegslóða niður í Drangavík og heilsað upp á tröllin sem urðu þar að steini laust eftir landnám. Sagðar verða margvíslegar tröllasögur um Kollfirðinga fyrr og nú – ástir þeirra og örlög – auk þess sem álög og örnefni koma við sögu. Þau sem vilja geta snúið við hjá Forvaðanum sem er þarna rétt í grenndinni, en þau sem eru léttari á fæti ganga inn Kollafjörðinn að eyðibýlinu Hlíð eftir gamla veginum í fjöruborðinu, um þrjá kílómetra.

Jón Jónsson þjóðfræðingur á Kirkjubóli verður leiðsögumaður í göngunni. Söguröltin eru haldin í samvinnu Strandamanna og Dalamanna, og eiga Byggðasafn Dalamanna og Sauðfjársetur á Ströndum frumkvæði að þeim í samvinnu við ýmsa aðila, að þessu sinni Náttúrubarnaskólann og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Kvöldkaffi verður á boðstólum á Sauðfjársetrinu í Sævangi að göngu lokinni.