Þorri á Borðeyri 11. febrúar

Hið árlega Þorrablót á Borðeyri verður haldið laugardagkvöldið 11. febrúar næstkomandi. Hljómsveitin SMS mun sjá um fjörið eins og þeim er svo lagið. Það var Ungmennafélagið Harpa sem var upphafsaðili að þessum skemmtunum og hélt félagið fyrsta blótið 1961 í félagsheimili sínu að Borgum. Blótin hafa verið haldin óslitið síðan og komandi blót verður því fertugasta og fimmta blótið.

Á Borgum voru þorrablótin haldin a.m.k. í þrjú ár, en hús félagsins sem það byggði 1926 varð fljótt of lítið og voru þorrablótin því flutt í þáverandi barnaskólahús á Borðeyri sem áður var símstöðvarhúsið og stendur niður á eyrinni. Svo þegar núverandi Grunnskólahús var tekið í notkun 1975 voru blótin flutt þangað. Kvenfélagið Iðunn hefur verið samstarfsaðili ungmennafélagsins með blótin síðan þau voru flutt inn á Borðeyri.

Þessar skemmtanir eru alltaf vel sóttar af íbúum hreppsins og nærsveitungum. Einnig er ánægjulegt hversu margir burt fluttir hafa í gegnum árana rás notfært sér tækifærið og komið á þorrablótin til að skemmta sér með gömlum vinum og kunningjum.

Hafa blótshaldarar ávallt reynt að leggja metnað sinn í að hafa eitthvað til skemmtunar. Til gamans má nefna að á fyrsta blótinu var m.a. haldin hrútasýning. Þótti hún takast sérlega vel, enda var notast bæði við lifandi hrút og kálf sem báðir léku hrúta. Þetta atriði er mörgum blótsgestum enn í fersku minni. Annáll ársins hefur nánast verið fastur liður frá upphafi, en annars snýst þetta fyrst og fremst um að borða, drekka, syngja, leika, dansa og hafa gaman. 

Borgarhúsið

Gamli skólinn

Núverandi skóli