Þjóðfræði og réttir, íslensk tónlist og Dj Dr. Fiasco

Það er nóg um að vera á Ströndum um helgina, fyrir utan allar þær smalamennskur og leitir, veiðitúra og berjaferðir sem fyrirhugaðar eru. Í dag (laugardag) kl. 15:00 hefst Haustþing Þjóðfræðistofu á Café Riis á Hólmavík og í framhaldi af því er móttaka, skemmti- og skoðunarferð sem allir eru velkomnir á og í. Fjörið heldur svo áfram á Café Riis og húsið opnar að nýju kl. 21:00 vegna hinnar stórskemmtilegu og fjölsóttu spurningakeppni Drekktu betur. Er þemað að þessu sinni íslensk tónlist og spyrill verður Arnar S. Jónsson. Þá tekur við írskur diskótekari og þeytir skífum, eins og það er kallað, kallar hann sig Dj Dr. Fiasco. Réttir eru svo á þremur stöðum á Ströndum um helgina, í Melarétt í Árneshreppi á laugardag, en í Skeljavíkurrétt og Staðarrétt á sunnudag.