Þegar allt ætlar um koll að keyra

Aðsend grein: Jón Bjarnason, þingmaður VG
Meginþorri þjóðarinnar vill stöðva frekari álversframkvæmdir, stórvirkjanir og umhverfisspjöll, samt stillir ríkisstjórnin því upp sem eina valkosti. Meginþorri þjóðarinnar vildi að herinn færi eða vissi að hann var á förum svo þegar hann fer er það blásið upp sem náttúruhamfarir og gífurlega ógn. Fjölmiðlar sýna fundi með forsætisráðherra í beinni útsendingu eins og um eldgos væri að ræða. Með brottför hersins nú munu þó örugglega spretta upp fjölmörg ný atvinnutækifæri sem færa okkur meiri þjóðhagslegan ábata til framtíðar en þjónusta við erlendan her.

Samt er það ávallt alvarlegt mál þegar fólk missir vinnuna. Það fannst fólkinu, tugum og hundruðum saman, sem missti vinnuna á síðustu misserum í sjávarbyggðum á Vestfjörðum þegar fyrirtækin urðu að loka vegna afleiðinga kvótakerfisins og stóriðjustefnunnar. Það fannst líka starfsfólki Símans á Ísafirði og Blönduósi þegar því var, eftir langan starfsaldur, fyrirvaralaust sagt upp störfum um leið og Síminn var einkavæddur og seldur. Staðreyndin er þó sú að þenslan á suðvesturhorninu ógnar stöðugleika efnahagslífsins og stjórnvöld hafa vart undan að rýmka um heimildir fyrir innflutning á erlendu starfsfólki. Kveðja iðnaðarráðherra hinsvegar til Vestfirðinga sem voru að missa vinnuna á sl. sumri var að „ruðningsáhrifin gætu líka verið af hinu góða.“

„Heróinhagvöxtur?“

„Hagvöxtur getur komið frá stríði, rányrkju, eyðileggingu eða slysum, en orðið gerir engan greinarmun á hvort hann er góður eða vondur,“ segir Andri Snær Magnússon rithöfundur í nýútkominni bók sinni, Draumalandið-sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. Það má velta því fyrir sé hvort hagvöxtur upp á 5,5 % á síðastliðnu ári með yfir 164 milljarða viðskiptahalla, hæstu vöxtum í norðurálfu og mestu umhverfisspjöllum af mannavöldum í sögu þjóðarinnar hafi verið góður eða illkynja. Mörg byggðarlög hafa misst grunnstoðir atvinnulífsins, hátæknigreinar og útflutningsiðnaður hrakist úr landi „Var þetta frekar „heróinhagvöxtur“ þar sem það þarf alltaf stöðugt nýja og nýja sprautu? Er það frjálst val okkar að færa allar þessar fórnir til að verða stærsti álframleiðandi í heimi eða er það ótti við framtíðina?“,spyr Andri í bók sinni.

Valkostir í stað afarkosta

„Sífelld yfirvofandi kreppa hefur verið notuð til að stýra fólki. Leiðtogarnir ákveða að leiða ekki þjóðina heldur stjórna. Afleiðing af þessu er eins og öfug sjálfstæðisbarátta, eða ósjálfstæðisbarátta. Það er ekki gengið útfrá því að þú getir gert allt og að þjóðin geti orðið það sem hún vill heldur að hún verði að fylgja einum möguleika. Við stefnum í framtíð sem er ekki það sem við viljum verða heldur það sem við teljum okkur neyðast til að verða.“ Er ekki hollt að hafa þessa orðræðu í huga þegar allt ætlar um koll að keyra þessa dagana. Framtíðin byggir á valkostum en ekki afarkostum

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi