Talsverðar framkvæmdir framundan hjá Strandabyggð

Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í desember var fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2018 lögð fram til síðari umræðu og samþykkt. Í fundargerð á vef Strandabyggðar kemur fram að rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er áætluð jákvæð um 27,6 milljónir, en áætlaður er hallarekstur á B-hluta að upphæð 700 þús. Áætlaðar fjárfestingar vegna framkvæmda árið 2017 hljóða upp á 64 milljónir.

Helstu framkvæmdir eru þær að áfram verður unnið að verkefninu Ísland ljóstengt og er á dagskránni að ljósleiðaravæða dreifbýlið norðan Hólmavíkur og fyrirtæki og bæi á Langadalsströnd. Áfram verður unnið að undirbúningi hitaveitu á Hólmavík, sett niður nýtt stálþil við hafskipabryggjuna á Hólmavík og unnið að gatnaframkvæmdum innanbæjar á Hólmavík. Ennfremur á að reisa nýja fjárrétt í Skeljavík, vinna að viðhaldi á skólahúsnæði, endurbótum í íþróttamiðstöð og framkvæmdum í félagsheimili. Auk alls þessa verða fjármunir settir í hönnun á götum, auk leikvalla og tjaldsvæðis, segir í fundargerðinni.

Fyrirhugað er að fjármagna allar þessar framkvæmdir með láni upp á kr. 64 milljónir, en ef sala eigna tekst á árinu mun þær tekjur koma til lækkunar á lántöku.