Sýning um skólahald í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu

Laugardaginn 30. júní kl. 16:00 verður opnuð á vegum Snjáfjallaseturs í Dalbæ, Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp, sýning um skólahald í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu. Sýningin er sett upp í tilefni af 100 ára afmæli fræðslulaga, en árið 1907 voru sett á Íslandi almenn lög um fræðslu barna og þessi lagasetning markaði víðast hvar upphaf almennrar skólafræðslu í landinu.

Í Snæfjallahreppi var barnafræðsla á stærri heimilum í lok 19. aldar og fram að gildistöku fræðslulaganna. Miðað við Snæfjallahrepp brugðust menn í Grunnavíkurhreppi seint og treglega við kröfum fræðslulaganna, en engin barnafræðsla var þar kostuð af almannafé um árabil. Farskólahald var í báðum hreppum, en eiginlegur farskóli lagðist af í Snæfjallahreppi árið 1936 um sama leyti og fræðslulögin voru endurskoðuð og var eftir það í tólf ár starfræktur heimangönguskóli að Lyngholti í Snæfjallahreppi. Skólahald lagðist þar af vorið 1947 og í Grunnavík ári síðar.

Saga Lyngholtsskólans er merk heimild um þróunina í skólahaldi á fyrri hluta 20. aldar. Texti á sýningunni í Dalbæ um Lyngholtsskólann er eftir Engilbert Ingvarsson og að hluta eftir Hjalta Jóhannsson. Loftur Guttormsson lagði til texta um viðbrögð Grunnvíkinga við fræðsluskyldunni. Sögumiðlunin ehf / Ólafur J. Engilbertsson tók saman sýningarhandrit og sá um hönnun sýningarinnar.

Á sama tíma verður opnuð í Dalbæ sýning á ljósmyndum Gísla Páls Guðjónssonar, en hann sér jafnframt um ferðaþjónustu í Dalbæ ásamt Ágústu Björg Kristjánsdóttur. Verður opið í Dalbæ út ágústmánuð. Símar: 6624888 og 6968306. Nánari upplýsingar á vef Snjáfjallaseturs, www.snjafjallasetur.is.

Nemendur og kennari Lyngholtsskóla vorið 1947.
F.v.: Borgar Halldórsson, Bæjum; Árni Jóhannsson og Hjalti Jóhannsson fimm ára gamall fyrir framan hann og Guðjóna Guðjónsdóttir móðir þeirra fyrir aftan, öll búsett í Hólhúsi Bæjum, Höskuldur Guðmundsson Árbakka, Jósep Rósinkarsson Snæfjöllum, Auðunn Helgason Unaðsdal, Jóhann Hjaltason kennari, Jóhanna Ingvarsdóttir Lyngholti, Ingigerður Jóhannsdóttir Hólhúsi Bæjum og Elísabet Rósinkarsdóttir Snæfjöllum.