Sverrir og Ólafía heiðursborgarar í Strandabyggð

Á hátíðarfundi sveitarstjórnar Strandabyggðar á Hamingjudögum voru valdir tveir heiðursborgarar sveitarfélagsins. Þetta eru þau Ólafía Jónsdóttir frá Skriðinsenni í Bitrufirði og Sverrir Guðbrandsson frá Heydalsá í Tungusveit. Tóku þau síðan á móti viðurkenningu úr hendi Ingibjargar Valgeirsdóttur sveitarstjóra við setningarathöfn Hamingjudaga. Á vefsíðu sinni sendir sveitarfélagið Strandabyggð heiðursborgurunum hlýjar þakkir fyrir framlag þeirra til samfélagsins sem er til fyrirmyndar.  

Í tillögu sveitarstjórnar sem lögð var fyrir fundinn kom eftirfarandi fram:  

Gerð er tillaga um að Ólafía Jónsdóttir frá Skriðinsenni verði heiðursborgari Strandabyggðar. Ólafía Jónsdóttir fæddist árið 1928 og ólst upp hjá foreldrum sínum á Skriðinsenni í Bitrufirði á Ströndum. Hún tók ljósmæðrapróf árið 1960 og starfaði fyrsta árið sem ljósmóðir á Landspítalanum, en síðan sem ljósmóðir á Ströndum. Ólafía flutti til Hólmavíkur árið 1962 og tók á móti fjölda barna á sjúkrahúsinu á Hólmavík, en þar starfaði hún einnig lengi sem forstöðukona á hjúkrunardeildinni. Ólafía hefur í gegnum tíðina tekið virkan þátt í tónlistarlífi á Ströndum og var um árabil kirkjuorganisti á Hólmavík og víðar í Strandasýslu. Sinnti hún störfum sínum af alúð og natni.

Gerð er tillaga um að Sverrir Guðbrandsson frá Heydalsá verði heiðursborgari Strandabyggðar. Sverrir Guðbrandsson fæddist árið 1921 á Heydalsá í Steingrímsfirði á Ströndum og ólst þar upp. Hann var síðan bóndi á Klúku í Miðdal í 25 ár, en flutti þá með fjölskyldu sinni til Hólmavíkur. Þar starfaði Sverrir lengi sem pakkhúsmaður hjá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík. Sverrir og Sigurrós Þórðardóttir kona hans áttu sjö börn og fjölda afkomenda. Á fullorðinsárum ritaði Sverrir æfiminningar sínar og komu þær út í bókinni Ekkert að frétta… sem Vestfirska forlagið gaf út árið 2004. Bókin er sannkallaður gullmoli, jafnt fyrir afkomendur Sverris og aðra Strandamenn. Hún einkennist af persónulegri frásögn og hlýju. Gamansemi fær að njóta sín um leið og brugðið er upp ómetanlegum svipmyndum af mannlífi á Ströndum á 20. öldinni.

bottom

atburdir/2011/640-heidursborg23.jpg

Heiðursborgarar í Strandabyggð – ljósm. Jón Jónsson