Súpufundur á Hólmavík um Uppbyggingarsjóð Vestfjarða

galdra-auglysing

Súpufundur verður haldinn á Restaurant Galdri á Hólmavík föstudaginn 9. desember og hefst kl. 12:10 (notið gamla innganginn á Galdrasýninguna). Að þessu sinni mun Skúli Gautason, nýráðinn menningarfulltrúi hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, segja frá Uppbyggingarsjóði sem er hluti af Sóknaráætlun Vestfjarða. Nú hefur nýlega verið auglýst eftir umsóknum í sjóðinn fyrir árið 2017 og rennur umsóknarfrestur út 9. janúar næstkomandi. Skúli mun einnig halda örnámskeið  í gerð styrkumsókna á fundinum og á boðstólum verður dýrindis kjötsúpa á sérlegu tilboðsverði fyrir gesti fundarins á Restaurant Galdri, kr. 1.800.-

Það eru Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa og Þróunarsetrið á Hólmavík sem standa fyrir súpufundum á Ströndum veturinn 2016-2017. Á þeim er sagt frá fyrirtækjum og félagsstarfi sem tengist svæðinu, vísindum og verkefnum, fræðastarfi og fróðleik. Jón Jónsson þjóðfræðingur hefur umsjón með skipulagningu fundanna og eru þeir sem hafa áhugaverðan fróðleik fram að færa hvattir til að hafa samband við hann. Fundirnir eru haldnir í samvinnu við veitingastaði í héraðinu.