Strandabyggð fær stuðning við ljósleiðaravæðingu

Strandabyggð stendur til boða að fá styrk úr Fjarskiptasjóði á árinu 2017 til að ljósleiðaravæða hluta af dreifbýlinu í sveitarfélaginu. Sveitarfélög keppa um fjármagn úr sjóðnum í útboði og stóðu 30 milljónir sveitarfélögum á Vestfjörðum til boða að þessu sinni. Reykhólahreppur fær 19 milljónir til að tengja 76 staði, en Strandabyggð fær 11 milljónir til að tengja 42 staði (svæðið sunnan Hólmavíkur), ef allt gengur eftir. Árneshreppur og Kaldrananeshreppur virðast ekki hafa sent inn tilboð að þessu sinni, en hér má sjá niðurstöðu útboðsins á þeim 450 milljónum sem Fjarskiptasjóður leggur í verkefnið Ísland ljóstengt á árinu.