Stórskemmtileg sviðaveisla á Ströndum

Sviðaveisla Sauðfjársetursins var haldin í Sævangi á síðasta vetrardag við mikinn fögnuð viðstaddra. Þetta er í sjötta skipti sem sviðaveisla er haldin og var húsfyllir á skemmtuninni. Gestir gæddu sér á nýjum, reyktum og söltuðum sviðum, rjúkandi heitum sviðalöppum og nýrri og reyktri sviðasultu. Í eftirrétt var síðan Sherry-frómas, ávaxtagrautur og hinn sívinsæli blóðgrautur sem er jafnan á boðstólum. Reyktu og söltuðu sviðin koma frá Húsavíkurbúinu við Steingrímsfjörð og það eru Hafdís Sturlaugsdóttir og Matthías Lýðsson sem verka þau.

Að venju sáu heimamenn um veislustjórn og skemmtiatriði, Jón Jónsson þjóðfræðingur á Kirkjubóli var veislustjóri og Skagfirðingurinn og Strandamaðurinn Eiríkur Valdimarsson á Hólmavík var ræðumaður kvöldsins. Kristín Einarsdóttir og Gunnar Jóhannsson í Hveravík sáu um tónlistaratriði og skemmtisögur. Allt var það ljómandi vel heppnað og bráðskemmtilegt. Margir leggja hönd á plóginn við undirbúning veislu eins og þessar og er öll sú fyrirhöfn unnin í sjálfboðavinnu og sama gildir um þá sem troða upp. Vill Sauðfjársetrið þakka þeim sem koma að veislunni kærlega fyrir alla aðstoðina og gestum fyrir komuna.