Stofnfundur Grásleppuseturs á föstudag

Sigin grásleppa - ljósm. Jenný JensdóttirGrásleppan, veiðar og vinnsla er samofið í upplifun Drangsnesinga um vorið. Þeir eru fáir sem ekki láta það sig einhverju skipta hvernig gengur á grásleppunni. Hvernig veiðist og viðrar til veiða eru þau umræðuefni sem helst ber á góma þegar tveir eða fleiri hittast á förnum vegi eða eins og oft vill verða um þetta leyti, á bryggjunni. Hugmynd að Grásleppusetri á Drangsnesi hefur alltaf skotið upp kollinum reglulega því hvergi annarsstaðar ætti slíkt safn heima. Því var það að áhugafólk um að koma á fót grásleppusetri á Dragnsnesi kom saman í vetur og setti verkefnið af stað.

Sýndi fundarsókn á kynningarundinum mikinn áhuga á málinu og kosin var undirbúningsnefnd sem skyldi vinna að framgangi málsins og gera áætlun fyrir Grásleppusetur. Nefndin hefur unnið með hugmyndina og sótt um styrki til að koma henni í frekari vinnslu. Hefur verkefnið fengið mjög góðar viðtökur og fékk t.d 400.000 króna styrk frá Menningarráði Vestfjarða sem var úthlutað á sumardaginn fyrsta á Hólmavík.

Þá hafa og nemendur grunnskólans á Drangsnesi sýnt hugmyndinni mikinn áhuga og hafa hannað Grásleppu- og nytjasetur á Drangsnesi. Hugmynd stelpnanna ásamt hugmyndum nefndarmanna verður kynnt á stofnfundi um Grásleppu- og nytjasetur Stranda á Drangsnesi á föstudagskvöld 2. maí n.k á Malarkaffi á Drangsnesi.