Staðardalur-Hálsgötugil boðið út í vor

Stefnt er að því að bjóða þann 6,5 kílómetra kafla sem enn er eftir á Strandavegi milli Hólmavíkur og Drangsnes út í vor, samkvæmt upplýsingum Magnúsar V. Jóhannssonar svæðisstjóra Vegagerðarinnar á Norðvestursvæði. Sá vegarspotti, milli vegamóta í Staðardal og vegamóta við Bjarnarfjarðarháls, var eitt af ellefu verkefnum í samgöngumálum sem ríkisstjórnin ákvað að flýta í sumar sem mótvægisaðgerð vegna niðurskurðar í þorskveiðum. Þá kom fram að ljúka ætti "að mestu við vegagerð með bundnu slitlagi milli Drangsness og Hólmavíkur á árinu 2009", en áður hafði verið stefnt að verklokum í fyrsta lagi árið 2011 í samgönguáætlun sem samþykkt var á síðasta þingi.

Vegagerðin er að sögn Magnúsar enn með nokkra veglínukosti uppi á borðunum og ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hver verður valin. Það er nokkuð ljóst hvernig veglínan verður milli Selár og að Bjarnarfjarðarhálsi, en á þeim kafla víkur nýr vegur hvergi verulega frá núverandi vegi nema austan Bassastaða þar sem hann færist nær sjó á tæplega kílómeters kafla. Vegurinn mun hins vegar liggja framhjá Bassastöðum á nánast sama stað og nú.

Vestan Selár eru tvær megin leiðir sem til greina koma, þ.e. að fara á sömu slóðum og núverandi vegur eða fara niður að sjávarmáli. Neðri leiðin er mun dýrari, en líklega betri vegtæknilega að sögn Magnúsar. Þá er spurning um þverunina í botni Steingrímsfjarðar, en eins og málum er komið í vegáætlun þá er að sögn Magnúsar í raun ekki um annað að ræða en að fara ofan við Stakkanes og yfir gömlu Staðarárbrúna, því ekki eru til fjármunir í að byggja nýja brú á Staðará.

Þessi lokahnykkur í vegabótum á milli þéttbýlisstaðanna á Ströndum verður um það bil áratug á eftir sambærilegum samgöngubótum milli nálægra þéttbýlisstaða annars staðar á Vestfjörðum. Því væri ekki nema sjálfsagt að samgönguyfirvöld skoði vandlega hvort ekki er mögulegt að reyna að ljúka því að mestu á árinu 2008, enda er ekki um langan vegarspotta að ræða.