Sorpsamlagið sækir tunnur Hólmvíkinga

Í tengslum við opnun á móttökustöð á Hólmavík þar sem Strandamenn skila flokkuðu sorpi frá heimilum og fyrirtækjum, hefur Sorpsamlagið tekið upp ný vinnubrögð við að sækja rusl til íbúanna. Nú er rusl sem ekki er flokkað sótt á hálfs mánaðarfresti í tunnur Hólmvíkinga og tunnurnar tæmdar beint í bílinn. Eftir að snjór kom er sums staðar erfiðara að komast að tunnum, en íbúar þurfa að sjá um að aðgengi að þeim sé í lagi  til að þær séu tæmdar. Sorpbíllinn fer aukaferð um Hólmavík næsta fimmtudagsmorgun og þá gefst íbúum sem vilja færi á að stilla sorptunnum upp við göturnar til að láta tæma þær.