Söngkeppni Ozon á föstudag

Nú nálgast hin árlega Söngkeppni félagsmiðstöðvarinnar Ozon á Hólmavík, en hún verður haldin í matsal Grunnskólans kl. 20:00 næstkomandi föstudag, þann 21. janúar. Húsið opnar kl. 19:30. Keppendur eru að venju allir í 8.-10. bekk og munu æfa stíft þessa vikuna. Sjö atriði af öllum stærðum og gerðum eru á dagskránni og sérvalin dómnefnd velur fjögur atriði sem fá keppnisrétt í Vestfjarðariðli í landshlutakeppni Samfés sem verður haldin í félagsheimilinu á Hólmavík föstudaginn 28. janúar. Þá fær sigurvegari keppninnar glæsilegan farandgrip til varðveislu.

Húsið opnar kl. 20:00 og allir eru hjartanlega velkomnir. Aðgangseyrir fyrir fullorðna er 500 krónur, börn á grunnskólaaldri borga kr. 100 en börn fimm ára og yngri fá frítt inn. Sjoppa nemendafélagsins verður opin og rennur ágóði af sölu í henni í nemendasjóð. Strandamenn eru hvattir til að mæta á þessa skemmtilegu uppákomu í menningarlífinu og styðja við bakið á söngvurunum og starfsemi félagsmiðstöðvarinnar.