Skemmtilegar gamlar myndir úr Sævangi

Sauðfjársetur á Ströndum stefnir að því í sumar að opna litla ljósmyndasýningu í tilefni af 50 ára afmæli félagsheimilisins Sævangs í Tungusveit. Söfnun er þegar hafin, en að sögn Arnars S. Jónssonar framkvæmdastjóra Sauðfjársetursins hefur dálítið magn af myndum borist nú þegar. Margar þeirra eru stórskemmtilegar og ráða má af þeim að Sævangur hefur verið lífleg miðstöð menningar- og skemmtanalífs á svæðinu um árabil. Hér fyrir neðan gefur að líta myndir úr einkasafni Lýðs Magnússonar og Ragnheiðar Runólfsdóttur í Húsavík, en á þeim má m.a. sjá persónur úr leikritinu Lási vinnumaður. Leikritið var sett upp skömmu eftir að Sævangur var tekinn í notkun og því sennilegt að myndirnar séu teknar á árinu 1958.

Þrátt fyrir ágæta byrjun á söfnuninni vantar að sögn Arnars enn heilmikið upp á til að hægt sé að opna myndasýningu í sumar. Því eru Strandamenn og aðrir sem kunna að eiga myndir úr Sævangi hvattir til að hafa samband við Sauðfjársetrið í síma 661-2009 eða í netfangið saudfjarsetur@strandir.is.

580-leikrit-saevangi2

Leikarar í Lása vinnumanni stilla sér upp aftan við Sævang. F.v. Grímur Benediktsson á Kirkjubóli, Sigríður Guðjónsdóttir í Heiðarbæ, Björn Guðmundsson í Miðdalsgröf og lengst til hægri er síðan Samúel Alfreðsson á Kollafjarðarnesi í kvenmannsgerfi.

580-leikrit-saevangi1

Samúel og Björn smella rembingskossi hvor á annan. Þarna ræður leikgleðin greinilega ríkjum

350-leikrit-saevangi2

Ekki er vitað í hvaða leikriti persónurnar á myndinni eru, en leikararnir eru vel þekktir. Lengst til vinstri er Lýður Magnússon í Húsavík með veglegt yfirvaraskegg, í miðjunni er Sólveig Jónsdóttir á Heydalsá og lengst til hægri er Stefán Daníelsson í Tröllatungu.