Sérkennilegt umferðaróhapp í Bitru

Ekki var rétt frá því greint á strandir.is í morgun að flutningabíll hefði oltið í Bitrufirði. Á vef björgunarsveitarinnar Húna kemur fram að sveitin var kölluð út laust fyrir miðnætti í gær vegna umferðaróhapps rétt sunnan við Þambárvelli. Flutningabíllinn valt ekki, en stórtjón varð á honum þegar farmurinn á bílnum gekk fram úr flutningskassanum og svipti ökumannshúsinu af. Farmurinn var frosin rækja og voru höfð snör handtök við að bjarga farminum. Bílstjórinn slapp ómeiddur úr slysinu utan smá skrámu á hendi, þó ótrúlegt sé miðað við myndir af bílnum sem má sjá á vef Húna.