Rósmundur valinn íþróttamaður ársins og Vala fékk hvatningarverðlaun

IMG_1080

Íþróttamaður ársins 2015 í Strandabyggð var heiðraður á Íþróttahátíð Grunnskólans á Hólmavík. Það er Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefndar Strandabyggðar sem velur íþróttamann ársins árlega og veitir jafnan hvatningarverðlaun samhliða, að undangengnum tilnefningum frá almenningi.  Hvatningarverðlaunin eru veitt íþróttamanni sem sýnir ríkan áhuga á sinni íþróttagrein, er góður félagi og góð fyrirmynd. Í máli Salbjargar Engilbertsdóttur sem afhenti verðlaunin fyrir hönd nefndarinnar kom fram að íþróttastarf hefði verið öflugt á árinu. Skíðafélagið kraftmikið og að auki sett alla umframorku í byggingu skíðaskála í Selárdal. Taekwondodeild Geislans á Hólmavík hefði sömuleiðis unnið öflugt starf og bætt við sig beltum og verðlaunum. Frjálsíþróttahópurinn stóð sig vel og Strandamet slegin á árinu. Hópur ungmenna keppti á Unglingalandsmóti með góðum árangri.  Víðavangshlaup er vinsælt sem aldrei fyrr og Íþróttamiðstöðin vel nýtt til íþróttaiðkunar. Þetta sé þó bara brot af því sem gert er í íþróttastarfi.


Vala Friðriksdóttir hlaut hvatningarverðlaun Strandabyggðar. Í umsögn dómnefndar segir að hún hafi unnið mikilvægt starf í þágu íþróttaeflingar: „Hún er áberandi dugleg, hvetjandi og jákvæð í íþróttastarfi og sterkur íþróttamaður í skíðagöngu, hlaupi og taekwondo og hefur meðal annars hlaupið hálfmaraþon undanfarin ár í Reykjavíkurmaraþoni. Hún sér um Taekwondo deild Geislans, sinnir því af lífi og sál og sýnir mikinn metnað við kennslu og undirbúning nemenda sinna og hvetur þá áfram. Hún er fyrirmynd í heilbrigðum lífstíl og og hreyfingu.“

Íþróttamaður ársins er Rósmundur Númason. Í umsögn dómnefndar um hann segir: „Rósmundur hefur í áraraðir stundað skíðagöngu og víðavangshlaup með góðum árangri. Hann hljóp 10 km í Reykjavíkurmaraþoni síðasta sumar og keppti á flestum skíðagöngumótum með góðum árangri. Á síðasta ári varð hann síðan Landvættur en þann titil hlýtur sá einstaklingur sem lýkur keppni í eftirtöldum greinum á 12 mánaða tímabili:  Vesturhluti – 50 km í Fossavatnsgöngu, Norðurhluti – Jökulsárhlaup 32,7 km hlaup, Austurhluti – Urriðavatnssundið 2,5 km og Suðurhluti – Blue Lagoon Challenge 60 km hjólreiðar frá Hafnarfirði. Þetta tók Rósmund ekki nema 14 tíma. Rósmundur er jákvæður íþróttamaður, hvetjandi, mikil fyrirmynd  og svo sannarlega vel að þessari viðurkenningu kominn.“

IMG_1068

Íþróttamenn ársins í Strandabyggð – Ljósm. Jón Jónsson / strandir.is